Hvers vegna bað Guð Abraham um að fórna syni sínum?
Lesendur spyrja . . .
Hvers vegna bað Guð Abraham um að fórna syni sínum?
▪ Eins og sagt er frá í 1. Mósebók í Biblíunni bað Jehóva Abraham um að fórna syninum Ísak. (1. Mósebók 22:2) Sumir sem lesa Biblíuna eiga erfitt með að skilja þessa frásögu. „Þegar ég heyrði þessa sögu fyrst sem barn var ég stórhneyksluð,“ segir Carol, sem er prófessor í mannfræði. „Hvers konar Guð biður eiginlega um slíkt?“ Þó að svona viðbrögð séu eðlileg ættum við að hafa nokkur atriði í huga varðandi þessa frásögu.
Í fyrsta lagi skulum við skoða hvað Jehóva gerði ekki. Hann leyfði Abraham ekki að fórna syninum jafnvel þótt Abraham hafi verið tilbúinn að gera það. Guð hefur heldur aldrei beðið neinn um að gera slíkt síðan þá. Jehóva vill að allir sem tilbiðja hann, þar með talið börn, lifi lengi og séu hamingjusamir.
Í öðru lagi segir í Biblíunni að Jehóva hafi haft sérstaka ástæðu fyrir því að biðja Abraham um að fórna Ísak. Guð vissi að mörgum öldum síðar myndi hann leyfa að hans eigin sonur, * Jesús, gæfi líf sitt fyrir okkur. (Matteus 20:28) Með þessu vildi Jehóva sýna okkur hversu sárt það var fyrir hann að fórna syni sínum. Með því að biðja Abraham um að færa slíka fórn var hann að draga upp áhrifaríka mynd af því sem hann myndi sjálfur gera í framtíðinni. Hvernig þá?
Skoðum það sem Jehóva sagði við Abraham: „Tak þú son þinn, einkason þinn sem þú elskar, hann Ísak, . . . og fórna honum sem brennifórn.“ (1. Mósebók 22:2) Tökum eftir að Jehóva kallaði Ísak soninn sem Abraham elskaði. Jehóva vissi hversu hjartfólginn Ísak var Abraham. Guð vissi líka hversu mjög hann elskaði son sinn Jesú. Jehóva elskaði Jesú svo heitt að tvisvar sinnum sagði hann frá himnum: „Minn elskaði sonur.“ – Markús 1:11; 9:7.
Það er einnig athyglisvert að samkvæmt hebreska frumtextanum notaði Jehóva orðalag sem felur í sér vinsamlega beiðni þegar hann bað Abraham um að fórna Ísak. Biblíufræðingur bendir á að þetta orðalag gefi til kynna að „Drottinn skilji mætavel hvers hann beiðist og hvað það kosti viðkomandi“. Við getum vel skilið að þessi beiðni hafi valdið Abraham mikilli hryggð en við getum varla ímyndað okkur þá miklu kvöl sem Jehóva hefur liðið þegar hann horfði upp á elskaðan son sinn þjást og deyja. Þetta hefur vafalaust verið það erfiðasta sem Jehóva hefur gengið í gegnum bæði fyrr og síðar.
Þó að við hugsum kannski með hryllingi til þess sem Jehóva bað Abraham um að gera væri viturlegt að muna að Jehóva leyfði ekki þessum trúfasta ættföður að færa fórnina. Hann kom í veg fyrir að Abraham yrði fyrir versta missi sem foreldri getur orðið fyrir með því að hlífa Ísak við dauða. En Jehóva hlífði ekki „sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll“. (Rómverjabréfið 8:32) En hvers vegna lagði Jehóva á sig slíka raun? Hann gerði það til þess að „veita okkur nýtt líf“. (1. Jóhannesarbréf 4:9) Þetta sýnir hversu mikið Guð elskar okkur. Ætti það ekki að vera okkur sterk hvatning til að sýna honum kærleika okkar? *
[Neðanmáls]
^ gr. 5 Biblían kennir ekki að Guð hafi bókstaflega eignast soninn Jesú með konu. Hann skapaði öllu heldur andason sem hann sendi síðar til jarðar og bjó svo um hnútana að meyjan María fæddi hann. En þar sem Guð skapaði Jesú getur hann réttilega kallað sig föður hans.
^ gr. 8 Hægt er að fræðast betur um hvers vegna Jesús þurfti að deyja og hvernig við getum sýnt þakklæti okkar fyrir lausnarfórn hans í 5. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían?