Sjálfri sér samkvæm
Sjálfri sér samkvæm
„Aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.“ – 2. PÉTURSBRÉF 1:21.
HVERNIG ER BIBLÍAN ÖÐRUVÍSI? Fornrit eru oft í mótsögn hvert við annað jafnvel þótt þau hafi verið færð í letur á svipuðum tíma. Bókum ber sjaldnast saman ef þær eru skrifaðar af mörgum mönnum, á ýmsum stöðum, á ólíkum tíma. En í Biblíunni er fullyrt að allar 66 biblíubækurnar eigi sér einn og sama höfundinn. Þar af leiðandi er boðskapur hennar samhljóða frá upphafi til enda. – 2. Tímóteusarbréf 3:16.
DÆMI: Móse, fjárhirðir á 16. öld f.Kr., skrifaði í fyrstu bók Biblíunnar að ,niðji‘ myndi koma til að frelsa mannkynið. Í þessari sömu bók var því síðar spáð að niðjinn yrði afkomandi Abrahams, Ísaks og Jakobs. (1. Mósebók 3:15; 22:17, 18; 26:24; 28:14) Um 500 árum síðar boðaði Natan spámaður að niðjinn kæmi af konungsætt Davíðs. (2. Samúelsbók 7:12) Þúsund árum eftir það benti Páll postuli á að Jesús og nokkrir útvaldir fylgjendur hans væru þessi niðji. (Rómverjabréfið 1:1-4; Galatabréfið 3:16, 29) Undir lok fyrstu aldar var því svo spáð í síðustu biblíubókinni að þeir sem mynduðu niðjann myndu vitna um Jesú. Þeir yrðu síðan reistir upp til himna til að ríkja með honum um þúsund ár. Sem hópur mun þessi niðji tortíma djöflinum og frelsa mannkynið. – Opinberunarbókin 12:17; 20:6-10.
ÞAÐ SEM BIBLÍUSKÝRENDUR SEGJA: Eftir að hafa rannsakað 66 bækur Biblíunnar ofan í kjölinn skrifaði Louis Gaussen að það hefði vakið undrun sína að sjá „ótrúlegt samræmi þessarar bókar sem skrifuð var á 1.500 árum af mörgum riturum . . . sem rekja þó allir sömu áætlun og skýra hana alltaf betur, eins og þeir sjálfir skildu hana, er hún færist nær takmarkinu. Þetta er sagan af því hvernig sonur Guðs veitir heiminum endurlausn.“ – Theopneusty – The Plenary Inspiration of the Holy Scriptures.
HVAÐ HELDUR ÞÚ? Eru einhverjar líkur á að bók, sem skrifuð er af 40 mönnum á rúmlega 1.500 árum, sé sjálfri sér samkvæm að öllu leyti? Eða er Biblían einstök?
[Innskot á bls. 7]
„Þegar öll þessi ritverk eru lögð saman mynda þau eina bók . . . Það er hreinlega ekkert til í öllum heimsbókmenntunum sem líkist henni eða nálgast það einu sinni.“ – THE PROBLEM OF THE OLD TESTAMENT EFTIR JAMES ORR.