Nálægðu þig Guði
„Ég mun kunngjöra mitt heilaga nafn“
HVERNIG liði þér ef þú værir ákærður fyrir glæp sem þú framdir ekki? Og hvað ef þessi glæpur hefði haft í för með sér miklar þjáningar fyrir aðra, þar á meðal saklaust fólk? Þú myndir örugglega vilja hreinsa nafn þitt. Er þér ljóst að Guð verður fyrir svipaðri ákæru? Nú á dögum kenna margir Guði ranglega um óréttlætið og þjáningarnar í heiminum. Er Jehóva umhugað um að hreinsa nafn sitt? Vissulega er honum það. Skoðaðu hvað segir í biblíubókinni Esekíel. – Lestu Esekíel 39:7.
Ég mun „ekki framar láta vanhelga mitt heilaga nafn“, segir Jehóva. (Biblían 1981) Þegar menn ásaka hann um óréttlæti vanhelga þeir nafn hans. Hvernig þá? Í Biblíunni merkir „nafn“ oft orðstír. Í heimildarriti einu segir að nafn Guðs merki „það sem hann er þekktur fyrir, það sem hann hefur opinberað um sjálfan sig og það stendur einnig fyrir upphefð hans og heiður“. Nafn Guðs felur því í sér orðstír hans. Hvað finnst Jehóva um óréttlæti? Hann hatar það. Hann hefur líka samúð með þeim sem eru beittir óréttlæti. * (2. Mósebók 22:22-24) Þegar menn halda því fram að Guð beri ábyrgð á því sem hann hefur andstyggð á eru þeir að flekka orðstír hans og þar með að „smána nafn“ hans. – Sálmur 74:10.
Það er athyglisvert að Jehóva notar tvisvar sinnum orðalagið „mitt heilaga nafn“. (Vers 7) Í Biblíunni eru orðin „heilagur“ og „heilagleiki“ oft nefnd í sömu andrá og nafn Jehóva. Orðið „heilagur“ gefur til kynna að vera aðgreindur og táknar líka hreinleika. Nafn Guðs er heilagt því að hann er heilagur – algerlega aðgreindur frá öllu sem er syndugt og óhreint. Skilurðu núna að þeir sem saka Jehóva um illsku og óréttlæti eru að smána „heilagt nafn“ hans á skelfilegan hátt?
Sú fyrirætlun Jehóva að hreinsa nafn sitt fyrir atbeina ríkis síns er aðalstefið í Biblíunni. Í Esekíelsbók er lögð áhersla á þetta stef en þar segir margsinnis: „Þjóðirnar munu skilja að ég er [Jehóva].“ (Esekíel 36:23; 37:28; 38:23; 39:7) Taktu eftir að „þjóðirnar munu skilja“ að Jehóva sé hinn sanni Guð. Það er ekki undir þjóðunum sjálfum komið hvort þær geri sér þetta ljóst. Með öðrum orðum hefur Jehóva ákveðið að grípa til aðgerða sem knýja þjóðir heims til að viðurkenna að hann sé sá sem hann segist vera – Jehóva, alheimsdrottinn. Nafn hans stendur fyrir öllu því sem er heilagt, hreint og tært.
„Þjóðirnar munu skilja að ég er [Jehóva].“ Þetta margendurtekna loforð eru góðar fréttir fyrir þá sem þrá að sjá fyrir endann á óréttlæti og þjáningum. Jehóva uppfyllir bráðlega þetta loforð og hreinsar nafn sitt af öllum ákærum. Hann útrýmir illskunni og þeim sem stuðla að henni en varðveitir þá sem þekkja og virða nafn hans og það sem það stendur fyrir. (Orðskviðirnir 18:10) Langar þig ekki til að vita hvernig þú getur nálægt þig Jehóva, hinum heilaga Guði, sem hefur „mætur á réttlæti“? – Sálmur 37:9-11, 28.
^ gr. 2 Sjá 11. kafla bókarinnar Nálægðu þig Jehóva. Kaflinn nefnist: „Allir vegir hans eru réttlæti.“ Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.