Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Samræður um Biblíuna fer allt gott fólk til himna?

Samræður um Biblíuna fer allt gott fólk til himna?

Samræður um Biblíuna fer allt gott fólk til himna?

VOTTAR JEHÓVA hafa ánægju af að ræða við fólk um Biblíuna. Viltu fá svar við einhverri biblíuspurningu sem þú hefur velt fyrir þér? Langar þig að vita meira um trú Votta Jehóva eða hvers vegna þeir iðka trú sína eins og þeir gera? Þá skaltu ekki hika við að ræða um það næst þegar þú hittir einhvern þeirra. Það er vottum Jehóva sönn ánægja að ræða málin við þig.

Hér á eftir fara fram dæmigerðar samræður sem vottar Jehóva eiga við fólk. Við skulum gera okkur í hugarlund að vottur, sem heitir Magnús, hafi bankað upp á heima hjá manni sem heitir Ragnar.

Hvað munu þeir sem fara til himna gera þar?

Magnús: Hvers konar framtíð heldur þú að gott fólk eigi í vændum?

Ragnar: Þótt framtíðin virðist frekar dökk hér á jörðinni þá held ég að allt gott fólk uppskeri að lokum laun sín og fari til himna.

Magnús: Það er sannarlega yndisleg von. Í Biblíunni er fjallað mikið um himnaríki og þá blessun að fá að fara þangað. Hefurðu einhvern tímann velt fyrir þér hvaða verkefni bíða þeirra sem fara til himna?

Ragnar: Við verðum hjá Guði og lofum hann að eilífu.

Magnús: Það eru frábærar framtíðarhorfur. Það er athyglisvert að í Biblíunni er því lýst hvað þeir, sem fara til himna, hljóti mikla blessun. En þar segir líka hvaða mikilvægu verkefni bíða þeirra.

Ragnar: Nú, hvaða verkefni eru það?

Magnús: Þessi verkefni eru nefnd í Opinberunarbókinni 5:10. Þar segir: „Þú [Jesús] gerðir þá að konungum og prestum Guði vorum til handa.“ Tókstu eftir hvaða verkefni bíða þeirra sem fara til himna?

Ragnar: Versið segir að þeir muni ríkja sem konungar.

Magnús: Finnst þér það ekki athyglisvert?

Yfir hverjum munu þeir ríkja?

Magnús: Ertu ekki sammála því að ef þeir sem fara til himna ríkja sem konungar, þá hljóta þeir að ríkja yfir fólki? Það væri til lítils að hafa ríkisstjórn án þegna.

Ragnar: Ég skil hvað þú átt við.

Magnús: Þá er eðlilegt að spyrja: Yfir hverjum munu þeir ríkja?

Ragnar: Væntanlega munum við ríkja yfir fólki sem á eftir að deyja og fara til himna.

Magnús: Það væri rökrétt, það er að segja ef allt gott fólk færi til himna. En hefurðu hugleitt þann möguleika að sumt gott fólk fari ekki til himna?

Ragnar: Ég hef aldrei heyrt um neinn sem trúir því.

Magnús: Ég spyr bara í ljósi þess sem stendur í Sálmi 37:29. Viltu kannski lesa þetta vers?

Ragnar: Já, allt í lagi. Hér segir: „Réttlátir fá landið til eignar og búa þar ævinlega.“

Magnús: Takk fyrir. Tókstu eftir hvar margir réttlátir menn eiga eftir að búa?

Ragnar: Versið segir að þeir fái landið til eignar.

Magnús: Einmitt, og ekki bara um stundarsakir. Taktu eftir að versið segir: „Og búa þar ævinlega.“

Ragnar: Kannski þýðir þetta bara að það verði alltaf til gott fólk á jörðinni. Þegar við deyjum og förum til himna hefur fleira gott fólk fæðst og komið í okkar stað.

Magnús: Eflaust myndu margir túlka þetta vers þannig. En er hugsanlegt að versið gæti þýtt eitthvað allt annað? Gæti það þýtt að gott fólk muni lifa að eilífu á jörðinni?

Ragnar: Ég átta mig ekki alveg á hvað þú ert að fara.

Í framtíðinni verður paradís á jörð

Magnús: Skoðum aðeins hvað segir í öðrum ritningarstöðum um lífið á jörðinni í framtíðinni. Í Opinberunarbókinni 21:4 er til dæmis rætt um fólk sem verður uppi á þessum umrædda tíma. Sjáðu hvað stendur hérna: „Hann [Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ Eru þetta ekki heillandi framtíðarhorfur?

Ragnar: Jú, en ég held að hér sé verið að tala um hvernig lífið verður á himni.

Magnús: Það er vissulega rétt að þeir sem fara til himna hljóta svipaða blessun. En líttu aftur á versið. Hvað verður um dauðann samkvæmt því sem hér segir?

Ragnar: Hér segir: „Dauðinn mun ekki framar til vera.“

Magnús: Einmitt. Og ég er viss um að þú sért sammála því að ef eitthvað er ekki framar til, hljóti það að hafa verið til áður.

Ragnar: Auðvitað.

Magnús: En hefur dauðinn einhvern tíma ríkt á himnum? Er það ekki bara hér á jörðinni sem fólk deyr?

Ragnar: Þú segir nokkuð. Ég þarf nú að íhuga þetta.

Magnús: Sjáðu til, Ragnar, í Biblíunni er sagt að sumt gott fólk fari til himna en að fjöldi annarra muni lifa að eilífu hér á jörð. Reyndar er ég nokkuð viss um að þú kannist við þessi þekktu orð: „Sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa.“ – Matteus 5:5.

Ragnar: Jú, ég hef oft heyrt þetta vers lesið í kirkjunni.

Magnús: Fyrst hinir hógværu erfa jörðina bendir það þá ekki til þess að það verði fólk hér á jörðinni? Þeir sem búa á jörðinni munu njóta þeirrar blessunar sem spáð var fyrir um í Opinberunarbókinni. Þeir munu sjá gerbreytingu á heiminum því að Guð útrýmir öllu sem er illt – meira að segja dauðanum.

Ragnar: Ég skil hvað þú átt við, en ég er ekki viss um að eitt eða tvö biblíuvers nægi til að sanna mál þitt.

Magnús: Auðvitað ekki. Reyndar fjalla mörg biblíuvers um það hvernig lífið verður hér á jörðinni í framtíðinni. Má ég kannski sýna þér eitt vers sem ég held mikið upp á? Hefurðu smá stund í viðbót?

Ragnar: Já, ég hef nokkrar mínútur.

,Hinn óguðlegi er horfinn‘

Magnús: Við lásum áðan 29. versið í Sálmi 37. Við skulum líta aftur á þennan sálm. En nú skulum við lesa vers 10 og 11. Myndir þú vilja lesa þessi vers?

Ragnar: Já, já. „Innan stundar er hinn óguðlegi horfinn, ef þú leitar hans er hann ekki að finna. En hinir hógværu fá landið til eignar og gleðjast yfir miklu gengi.“

Magnús: Takk. Getum við séð af versi 11 hvar „hinir hógværu“, það er að segja gott fólk, muni búa?

Ragnar: Það stendur að þeir muni „fá landið til eignar“. En mér finnst nú samt eins og að þetta vers hljóti að eiga við nútímann. Það er fullt af góðu fólki á jörðinni núna.

Magnús: Það er satt. En taktu eftir að versið segir líka að gott fólk muni „gleðjast yfir miklu gengi“. Það er ekki beint hægt að segja að allur heimurinn njóti góðs gengis eða friðar, er það?

Ragnar: Nei, það er rétt.

Magnús: Hvernig á þetta fyrirheit þá eftir að rætast? Segjum sem svo að þú eigir fjölbýlishús. Sumir leigjendurnir eru ágætis fólk. Þeir ganga vel um íbúðina og reyna að vera góðir nágrannar. Þú ert ánægður með að hafa leigt þessu fólki íbúð. En svo eru líka slæmir leigjendur. Þeir skemma allt í íbúðinni og eru nágrönnum sínum til ama. Hvað myndirðu gera ef slæmu leigjendurnir neituðu að taka sig á?

Ragnar: Ég myndi láta bera þá út.

Magnús: Það er einmitt það sem Guð ætlar að gera við vonda menn nú á dögum. Líttu aftur á hvað stendur í versi 10: „Innan stundar er hinn óguðlegi horfinn.“ Með öðrum orðum lætur Guð „bera út“ þá sem gera öðrum lífið leitt. Eftir það verður friður á jörðinni og hinir réttlátu fá að njóta lífsins. Ég ímynda mér að þetta sjónarmið, að gott fólk muni lifa að eilífu á jörðinni, sé frábrugðið því sem þér hefur verið kennt áður.

Ragnar: Já, ég hef aldrei heyrt þetta í kirkjunni sem ég tilheyri.

Magnús: En eins og þú sagðir áðan, þá er ekki nóg að skoða bara eitt eða tvö vers sem tengjast efninu. Við þurfum að athuga hvað Biblían í heild segir um þá framtíð sem gott fólk á í vændum. Gæti verið að sumt gott fólk fari til himna og annað fólk lifi að eilífu hér á jörð? Hvað finnst þér í ljósi biblíuversanna sem við vorum að lesa?

Ragnar: Ég veit það ekki. En ég verð samt að játa að það gæti verið rétt miðað við ritningarstaðina sem þú varst að lesa. En ég þarf að skoða þetta betur.

Magnús: Þegar þú ferð að íhuga þetta betur þá geta komið upp fleiri spurningar. Eins og til dæmis, hvað varð um þá sem voru uppi áður fyrr? Fór allt gott fólk til himna? Ef ekki, hvar er það þá núna?

Ragnar: Það er góð spurning.

Magnús: Mætti ég kannski skrifa niður fyrir þig nokkra ritningarstaði sem fjalla um þetta efni? * Síðan, þegar þú hefur haft tækifæri til að lesa þessi vers og hugleiða, væri gaman að koma aftur og skoða þau nánar. Er það í lagi?

Ragnar: Já, mér líst bara vel á það. Þakka þér fyrir.

[Neðanmáls]