Vissir þú?
Hvernig fóru bréfasendingar fram á biblíutímanum?
Persneska ríkið átti sína eigin póstþjónustu sem sá um að koma embættisbréfum til skila. Í biblíubókinni Ester er útskýrt hvernig persneska kerfið virkaði. Þar segir: „Mordekaí ritaði í nafni Xerxesar konungs og hafði innsiglishring konungs til staðfestingar. Og hraðboðar voru sendir með bréfin á úrvalsgæðingum úr hesthúsum konungs.“ (Esterarbók 8:10) Í Rómaveldi var svipað kerfi til þess að koma bréfum ríkisins og hersins á milli staða.
Einkabréf voru ekki send með þessum hætti, eins og til dæmis bréf Páls postula og margra annarra. Þeir sem voru efnaðir gátu sent þræla sína til að afhenda bréf. Flestir fengu þó vini eða jafnvel ókunnuga, sem voru að ferðast í rétta átt, til að koma bréfunum á áfangastað. Fjölskylda, vinir, hermenn eða farandsölumenn voru allir hugsanlegir póstberar. Sendandi bréfsins hafði eflaust áhyggjur af því hvort bréfberinn væri áreiðanlegur og kæmi bréfunum örugglega til skila og í heilu lagi. Í Biblíunni er gefið í skyn að Páll hafi treyst trúsystkinum sínum til að sendast með sum bréfa sinna þegar þau voru á ferðalagi. – Efesusbréfið 6:21, 22; Kólossubréfið 4:7.
Hvernig fóru viðskipti fram í Forn-Ísrael?
Hagkerfi þjóðarinnar byggðist aðallega á landbúnaði og vöruskiptum. Í Biblíunni er sagt frá mörkuðum við borgarhliðin sem kölluðust „Sauðahliðið“, „Fiskihliðið“ og „Leirbrotahliðið“. (Nehemíabók 3:1, 3; Jeremía 19:2) Þessi nöfn virðast gefa til kynna hvað var til sölu á þessum stöðum. Í Ritningunni er líka minnst á ,Bakaragötuna‘ í Jerúsalem sem og ýmsar söluvörur. – Jeremía 37:21.
En hvað með verðlag? Í einu biblíuskýringariti segir: „Í gegnum aldirnar voru eðlilega miklar sveiflur í vöruverði og því erfitt að gera sér grein fyrir hvað ákveðin vara hafi kostað á tilteknum stað og stund.“ Upplýsingar úr fornum heimildum, þar á meðal Biblíunni, leiða í ljós að jafnvel í þá daga var verð háð verðbólgu. Sem dæmi má nefna þrælaverslun en hún var mikið stunduð til forna. Jósef var seldur á 20 silfurpeninga sem gætu hafa verið siklar. Ef til vill var þetta algengt verð fyrir þræla á 18. öld f.Kr. (1. Mósebók 37:28) Þrjú hundruð árum síðar var verðið 30 siklar. (2. Mósebók 21:32) Á áttundu öld f.Kr. var verðið 50 siklar. (2. Konungabók 15:20) Tveimur öldum síðar, á tímum Persaveldis, kostuðu þrælar 90 sikla eða jafnvel meira. Hækkandi verðlag er því greinilega ekki bara vandamál nútímans.