Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Til lesenda

Til lesenda

Tímaritið sem þú hefur í höndunum hóf útgáfu sína í júlí 1879. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og þetta tímarit tekið miklum breytingum. Frá og með þessu tölublaði muntu sjá enn frekari breytingar á útliti Varðturnsins. En hvaða breytingar?

Víða um heim finnst æ fleira fólki gott að fara á Netið til að afla sér alls konar upplýsinga. Það þarf ekki nema nokkra músarsmelli til að lesa efni sem eingöngu er aðgengilegt þar. Hægt er að lesa margar bækur, tímarit og dagblöð á Netinu.

Vegna þessarar þróunar gerbreyttum við nýlega vefsíðunni okkar www.pr418.com og gerðum hana áhugaverðari og notendavænni. Þeir sem fara á vefsíðuna geta lesið rit sem gefin hafa verið út á rúmlega 430 tungumálum. En frá og með janúar á þessu ári geta þeir sem heimsækja vefsíðuna okkar líka lesið valdar greinar sem hafa birst reglulega í blöðum okkar en verða nú eingöngu birtar á vefsíðunni. *

Þar sem margar greinar verða nú aðeins birtar á Netinu verður almenn útgáfa Varðturnsins stytt úr 32 blaðsíðum í 16 blaðsíður frá og með þessu tölublaði. Varðturninn er nú þegar gefinn út á 204 tungumálum en með því að stytta blaðið verður hægt að þýða það á enn fleiri tungumál.

Við vonum innilega að þessar breytingar geri okkur kleift að ná til enn fleira fólks með hjálpræðisboðskap Biblíunnar. Við erum staðráðnir í að halda áfram að gefa út fræðandi efni sem hreyfir við fólki. Hvort sem efnið birtist á prenti eða á Netinu er það ósk okkar að það verði til góðs þeim fjölmörgu lesendum sem bera virðingu fyrir Biblíunni og langar til að kynnast boðskap hennar betur.

Útgefendur

^ gr. 5 Eftirfarandi greinasyrpur verða nú aðeins birtar á Netinu: „Fyrir unga lesendur,“ þar sem finna má biblíunámsverkefni fyrir ungt fólk, og „Biblíustundin mín“ en það er greinaröð sem foreldrar geta nýtt sér til að kenna börnum sínum þriggja ára og yngri.