Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 FARSÆLT FJÖLSKYLDULÍF

Að annast fatlað barn

Að annast fatlað barn

KRISTJÁN: * „Baldur, sonur okkar, er með Downs-heilkenni. Veikindi hans draga úr okkur allan þrótt, líkamlega, andlega og tilfinningalega. Ímyndið ykkur alla þá orku sem fer í að annast heilbrigt barn og margfaldið hana svo með hundrað. Stundum reynir það verulega á hjónabandið.“

SELMA: „Það krefst mikillar þolinmæði og þrautseigju að kenna Baldri einföldustu hluti. Þegar ég er mjög þreytt verð ég pirruð og óþolinmóð við Kristján, manninn minn. Stundum þegar við erum ósammála um eitthvað förum við að rífast.“

Er ykkur í fersku minni dagurinn sem barnið ykkar fæddist? Þið voruð örugglega alsæl þegar þið fenguð barnið í fangið. En fyrir suma foreldra, eins og Kristján og Selmu, verður ánægjan kvíðablandin þegar þeim er sagt að barnið þeirra sé veikt eða fatlað.

Eruð þið foreldrar fatlaðs barns? Þá veltið þið eflaust fyrir ykkur hvort þið eigið eftir að þola álagið. Örvæntið þó ekki. Foreldrar í svipaðri aðstöðu hafa ráðið fram úr ámóta erfiðleikum. Skoðum þrjár algengar áskoranir sem þið gætuð þurft að glíma við og hvernig viturlegar leiðbeiningar Biblíunnar geta hjálpað ykkur.

ÁSKORUN 1: ÞÉR FINNST ERFITT AÐ SÆTTA ÞIG VIÐ GREININGUNA.

Margir foreldrar fá áfall þegar þeim er sagt að barnið þeirra sé veikt. „Þegar læknarnir sögðu mér að Santiago, sonur okkar, væri með heilalömun, trúði ég þeim ekki,“ segir Juliana, móðir í Mexíkó. „Mér leið eins og veröldin væri að hrynja.“ Öðrum gæti liðið  eins og móður á Ítalíu sem heitir Villana. Hún segir: „Ég kaus að eignast barn jafnvel þótt áhættan væri mikil fyrir konu á mínum aldri. En núna þegar sonur minn á erfitt sökum þess að hann er með Downs-heilkenni finnst mér það allt vera mér að kenna.“

Ef þú fyllist sektarkennd eða örvæntingu hafðu þá í huga að það er eðlilegt við slíkar aðstæður. Veikindi og sjúkdómar voru ekki hluti af fyrirætlun Jehóva (1. Mósebók 1:27, 28) Hann áskapaði foreldrum ekki getuna til að sætta sig auðveldlega við eitthvað sem er óeðlilegt. Þú gætir því upplifað mikla sorg ef barnið þitt er veikt eða fatlað. Það tekur sinn tíma að vinna úr tilfinningunum og laga sig að nýjum aðstæðum.

En hvað ef þér finnst fötlun barnsins vera þér að kenna? Hafðu þá hugfast að enginn skilur til fullnustu hvernig erfðir, umhverfi og aðrir þættir hafa áhrif á heilsu barna. Kannski langar þig til að skella skuldinni á makann. Reyndu að forðast að hugsa þannig. Það er betra ef þið vinnið saman að því að gera það sem er barninu fyrir bestu. – Prédikarinn 4:9, 10.

GÓÐ RÁÐ: Aflaðu þér upplýsinga um sjúkdóm eða fötlun barnsins þíns. Í Biblíunni segir: „Það þarf visku til að byggja upp góða fjölskyldu og skynsemi til að hún verði sterk.“ – Orðskviðirnir 24:3, New Century Version.

Þú getur lært margt af því að ræða við fagfólk í heilbrigðisgeiranum og lesa vandaðar bækur og blöð um sjúkdóminn eða fötlunina. Þú getur líkt því að afla þér slíkra upplýsinga við það að læra nýtt tungumál. Í fyrstu getur það reynst flókið en svo nærðu tökum á því.

Kristján og Selma, sem vitnað var í fyrst í greininni, leituðu upplýsinga hjá lækninum sínum og hjá samtökum sem sérhæfa sig í að þjálfa og þjónusta fólk með sömu fötlun og sonur þeirra. Þau segja: „Það hjálpaði okkur ekki aðeins að skilja hvaða vandamálum við gætum staðið frammi fyrir heldur einnig að sjá að það er margt sem fólk með Downs-heilkenni getur gert. Við gerðum okkur ljóst að sonur okkar gæti að mörgu leyti lifað eðlilegu lífi. Okkur létti ósegjanlega við það.“

PRÓFIÐ ÞETTA: Beinið athyglinni að því sem barnið ykkar getur gert. Gerið eitthvað saman sem fjölskylda. Þegar barninu ykkar tekst vel til skuluð þið vera fljót til að hrósa því og taka þátt í gleði þess.

ÁSKORUN 2: ÞÚ ERT ÚRVINDA OG FINNST ÞÚ EKKI HAFA NEINN TIL AÐ TALA VIÐ.

Þér gæti fundist öll orkan fara í að annast barnið. Jenny, móðir á Nýja-Sjálandi, segir: „Í nokkur ár eftir að sonur minn var greindur með hryggrauf var ég úrvinda af þreytu og fór að gráta ef ég reyndi að gera eitthvað meira en vanalega heima fyrir.“

Annað sem gæti reynt á þig er að þér finnst þú ekki hafa neinn til að tala við. Benjamín á son sem er með vöðvavisnun og Asperger-heilkenni. Hann segir: „Margir eiga erfitt með að skilja hvernig líf okkar er.“ Kannski þráir þú heitt að geta talað við einhvern. En flestir vina þinna eiga heilbrigð börn og þú hikar við að trúa þeim fyrir tilfinningum þínum.

GÓÐ RÁÐ: Biddu um aðstoð. Þiggðu hana þegar hún er boðin. Juliana, sem minnst var á fyrr í greininni, segir: „Stundum finnst okkur hjónunum vandræðalegt að biðja um hjálp.“ Hún bætir hins vegar við: „En við höfum komist að því að við þurfum á hjálp annarra að halda. Og þegar aðrir veita aðstoð finnst okkur við ekki vera ein í baráttunni.“ Ef náinn vinur eða einhver úr fjölskyldunni býðst til að sitja hjá barninu þínu á einhverjum viðburði eða á safnaðarsamkomu skaltu þiggja boðið þakksamlega. Í Biblíunni segir: „Vinur lætur aldrei af vináttu sinni, í andstreymi reynist hann sem bróðir.“ – Orðskviðirnir 17:17.

Hugsaðu vel um þína eigin heilsu. Það þarf að setja eldsneyti á sjúkrabíl með reglulegu millibili svo að hann geti haldið áfram að flytja sjúklinga á sjúkrahús. Eins þarft þú að fá rétta næringu, hreyfingu og hvíld svo að þú getir haldið áfram að annast barnið þitt á sem bestan hátt. Jónatan, sem á hreyfihamlaðan son, tekur svo til orða: „Sonur minn getur ekki gengið og því þarf ég að borða hollan mat til að geta annast hann og ýtt hjólastólnum hans. Það mætti segja að mínir fætur séu líka hans fætur.“

Hvernig geturðu fundið tíma til að huga að heilsunni? Sumir foreldrar skiptast á að annast barnið. Þannig getur annað foreldrið hvílst eða fengið tíma út af fyrir sig. Það getur verið heilmikil áskorun að forgangsraða rétt og nota tímann til að huga að eigin heilsu og þörfum. En eins og Mayuri, móðir á Indlandi, segir: „Það getur tekið sinn tíma en að lokum finnur maður jafnvægi.“

 Ræddu málið við traustan vin. Jafnvel þótt vinir þínir eigi ekki veik börn geta þeir samt hlustað á þig og verið þér til hughreystingar. Þú getur líka talað við Jehóva Guð í bæn. En hjálpa bænir? Rut, sem á tvö börn með slímseigjusjúkdóm, viðurkennir: „Stundum er álagið svo mikið að mér finnst ég vera að drukkna.“ En svo bætir hún við: „Þá bið ég til Jehóva um hjálp og styrk. Eftir það líður mér betur og ég get haldið áfram.“ – Sálmur 145:18.

PRÓFIÐ ÞETTA: Hugleiddu hvað þú borðar, hvenær þú hreyfir þig og hversu mikinn svefn þú færð. Skoðaðu hvernig þú getur tekið tíma frá því sem skiptir minna máli og nýtt hann til að huga betur að heilsunni. Endurskoðaðu áætlun þína eftir þörfum.

ÁSKORUN 3: ÞÚ VEITIR VEIKA BARNINU MEIRI ATHYGLI EN ÖÐRUM Í FJÖLSKYLDUNNI.

Veikindi barns geta haft áhrif á það hvað fjölskyldan borðar, hvað hún gerir og hversu mikinn tíma foreldrarnir nota með hverju barni. Fyrir vikið gæti hinum börnunum fundist þau sitja á hakanum. Þar að auki geta foreldrar orðið svo uppteknir af því að annast veika barnið að það kemur niður á hjónabandinu. „Konan mín segir stundum að hún beri byrðina nánast ein og að mér standi á sama um son okkar,“ segir Lionel, sem er faðir í Líberíu. „Mér finnst hún gera lítið úr mér og stundum bregst ég illa við.“

GÓÐ RÁÐ: Fullvissaðu öll börnin þín um að þér sé annt um þau með því að gera eitthvað með þeim sem þau hafa ánægju af. Jenny, sem vitnað var í áður, segir: „Stundum gerum við eitthvað sérstakt fyrir elsta son okkar. Við förum til dæmis út að borða á uppáhaldsveitingastaðnum hans.“

Sýndu öllum börnum þínum áhuga.

Til að varðveita hjónabandið ættuð þið hjónin að tala saman og biðja saman. Aseem, sem er frá Indlandi og á flogaveikan son, segir: „Jafnvel þótt við hjónin séum stundum mjög þreytt og pirruð reynum við að setjast niður, tala saman og biðja. Við tökum okkur tíma til að ræða saman um biblíuvers á hverjum morgni áður en börnin vakna.“ Önnur hjón kjósa kannski að ræða saman áður en þau fara í háttinn. Opinskáar samræður og innilegar bænir styrkja hjónabandið þegar mest á reynir. (Orðskviðirnir 15:22) Hjón ein segja: „Við höfum oft á tíðum átt okkar ljúfustu stundir í hjónabandinu þegar erfiðleikarnir hafa verið sem mestir.“

PRÓFIÐ ÞETTA: Hrósaðu börnunum þínum fyrir að sýna veiku systkini sínu umhyggju og stuðning. Láttu oft í ljós að þú elskir maka þinn og börn og að þú kunnir að meta þau.

VERIÐ BJARTSÝN

Biblían lofar að Guð muni bráðlega að engu gera alla sjúkdóma og fötlun sem þjaka jafnt unga sem aldna. (Opinberunarbókin 21:3, 4) Þá mun „enginn borgarbúi . . . segja: ,Ég er veikur.‘“ * – Jesaja 33:24.

Þangað til þetta loforð rætist getur ykkur samt farnast vel jafnvel þótt barnið ykkar sé fatlað. „Látið ekki hugfallast þótt allt virðist ganga á afturfótunum,“ segja Kristján og Selma sem vitnað var í áður. „Barnið ykkar hefur marga dásamlega eiginleika, einbeitið ykkur að þeim.“

^ gr. 3 Nöfnum í þessari grein hefur verið breytt.

^ gr. 29 Í 3. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían?, sem gefin er út af Vottum Jehóva, er hægt að fá nánari upplýsingar um það loforð Biblíunnar að allir menn fái fullkomna heilsu.

SPYRÐU ÞIG . . .

  • Hvað geri ég til að byggja mig upp líkamlega og tilfinningalega og hlúa að sambandi mínu við Guð?

  • Hvenær hrósaði ég síðast börnunum mínum fyrir hjálpsemi þeirra?