FORSÍÐUEFNI: HVAÐ LÆRUM VIÐ AF MÓSE?
Hver var Móse?
Hvað dettur þér í hug þegar þú heyrir minnst á Móse? Sérðu fyrir þér . . .
barnið sem móðirin faldi í körfu í sefinu við Nílarfljót?
drenginn sem ólst upp við vellystingar í Egyptalandi hjá dóttur faraós – en gleymdi þó aldrei að hann var Ísraelsmaður?
manninn sem var fjárhirðir í Midíanslandi í 40 ár?
manninn sem talaði við Jehóva * fyrir framan logandi runna?
manninn sem hugrakkur bað Egyptalandskonung um að leysa Ísraelsþjóðina úr þrældómi?
manninn sem að boði Guðs kallaði tíu plágur yfir Egyptaland þegar konungurinn storkaði hinum sanna Guði?
manninn sem leiddi Ísraelsþjóðina út úr Egyptalandi með stórbrotnum hætti?
manninn sem Guð notaði til að kljúfa Rauðahafið?
manninn sem fékk Ísraelsþjóðinni boðorðin tíu frá Guði?
MÓSE gerði allt þetta og meira til. Það er því ekki að undra að þessi trúfasti maður skuli vera í miklum metum hjá kristnum mönnum, gyðingum og múslímum.
Það liggur í augum uppi að Móse var spámaður sem vann mikilfengleg máttarverk. (5. Mósebók 34:10-12) Hann var fús til að vera öflugt verkfæri í höndum Guðs. En líkt og aðrir spámenn Guðs var Móse bara venjulegur „maður eins og við“. (Jakobsbréfið 5:17) Hann þurfti að kljást við svipuð vandamál en honum tókst að vinna bug á þeim.
Langar þig til að vita hvernig honum tókst það? Lítum nánar á þrjá eftirsóknarverða eiginleika sem Móse hafði til að bera og skoðum hvað við getum lært af fordæmi hans.
^ gr. 7 Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummáli Biblíunnar.