Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

LÍKJUM EFTIR TRÚ ÞEIRRA

Hann „gekk með Guði“

Hann „gekk með Guði“

NÓI rétti úr sér og teygði sárþreyttan líkamann. Reyndu að sjá hann fyrir þér þar sem hann sest niður á breiðan bjálka og hvílir sig stundarkorn. Hann heyrir hljóðin frá verkfærunum allt í kringum sig og finnur lykt af tjöru í andrúmsloftinu þar sem hann horfir yfir þessa risastóru smíð. Nói sér syni sína vinna hörðum höndum að smíði arkarinnar. Hann hefur unnið að þessu verkefni í áratugi ásamt eiginkonu sinni, sonum og tengdadætrum. Verkið er vel á veg komið en þau eiga enn eftir að gera margt.

Fólkinu, sem bjó á svæðinu, fannst þau ekki vera með réttu ráði. Eftir því sem örkin tók á sig skýrari mynd gerði fólkið enn meira gys að þeirri hugmynd að flóð væri í þann mund að skella á og ætti eftir að hylja alla jörðina. Hörmungarnar, sem Nói varaði við, hljómuðu ótrúlega í eyrum fólks, jafnvel fáránlega. Það trúði því ekki að einhver væri tilbúinn til að sóa lífi sínu, og lífi fjölskyldu sinnar, í svona heimskulegt starf. Jehóva, sem var Guð Nóa, sá hann aftur á móti í allt öðru ljósi.

Í Biblíunni segir: „Nói . . . gekk með Guði.“ (1. Mósebók 6:9) Hvað þýðir það? Það þýðir ekki að Guð hafi gengið á jörðinni eða að Nói hafi einhvern veginn komist til himna. Nei, öllu heldur hlýddi Nói Guði í einu og öllu og bar svo mikinn kærleika til hans að það var eins og þeir gengju hlið við hlið sem bestu vinir. Löngu síðar voru þessi orð rituð um Nóa: „Með trú sinni sýndi hann að heimurinn hafði á röngu að standa.“ (Hebreabréfið 11:7) Hvernig gerði hann það? Hvað getum við lært af trúfesti hans?

RÉTTLÁTUR MAÐUR Í HÖRÐUM HEIMI

Nói ólst upp í heimi sem fór hríðversnandi. Ástandið hafði verið slæmt á dögum Enoks, langafa hans. Hann var einnig réttlátur maður sem gekk með Guði. Enok hafði spáð því að dómsdagur myndi koma yfir alla óguðlega menn á jörðinni á þeim tíma og nú þegar dagar Nóa voru runnir upp var illskan á jörðinni orðin enn meiri. Jörðin var meira að segja orðin spillt í augum Jehóva vegna þess að hún var full af ranglæti. (1. Mósebók 5:22; 6:11; Júdasarbréf 14, 15) Hvað hafði komið fyrir sem gerði ástandið svona slæmt?

Hræðileg ógæfa dundi yfir englana, andasyni Guðs á himni. Einn þeirra hafði þá þegar gert uppreisn gegn Jehóva og gert sig að Satan djöflinum með því að rægja Guð og tæla Adam og Evu til að syndga. Á dögum Nóa gerðu fleiri englar uppreisn gegn réttlátu stjórnarfari Jehóva. Þeir yfirgáfu bústað sinn á himnum, þar sem þeir höfðu þjónað Jehóva, komu niður til jarðarinnar, holdguðust og tóku sér konur sem þeim þóttu fallegar. Þessir stoltu og eigingjörnu uppreisnarenglar höfðu skelfileg áhrif á mennina. – 1. Mósebók 3:1-5; 6:1, 2; Júdasarbréf 6, 7.

Þessir holdguðu englar og konurnar á jörðinni eignuðust afbrigðileg afkvæmi vegna þess að samband þeirra var óeðlilegt. Synir þeirra urðu risavaxnir og gríðarlega sterkir. Í Biblíunni eru þeir kallaðir risarnir. Þessir risar voru grimmir og kúguðu fólk og þess vegna varð ástandið á jörðinni jafnvel enn verra. Það er því ekki að undra að í augum skaparans hafi illska mannanna verið ,orðin mikil á jörðinni og að allar hneigðir þeirra og langanir ætíð snúist til ills‘. Jehóva ákvað þá að hann myndi útrýma þessum illa heimi innan 120 ára. – 1. Mósebók 6:3-5.

Nói og kona hans þurftu að vernda börnin sín gegn slæmum áhrifum.

Ímyndaðu þér að þurfa að sjá um fjölskyldu í slíkum heimi. Það þurfti Nói að gera. Hann fann sér góða konu og eftir að hann varð 500 ára eignuðust þau þrjá syni, þá Sem, Kam og Jafet. * Saman þurftu þau að vernda syni sína frá slæmum áhrifum allt um kring. Ungir drengir eiga það til að vera heillaðir af frægum hetjum og líta upp til þeirra. Risarnir voru einmitt slíkar hetjur. Nói og kona hans gátu auðvitað ekki komið í veg fyrir að synir þeirra heyrðu um hetjudáðir þessara risa en þau gátu kennt þeim heillandi sannleika um Jehóva Guð sem hatar ofbeldi. Þau þurftu að fá þá til að skilja að Jehóva sárnaði að sjá ofbeldið og uppreisnina í heiminum. – 1. Mósebók 6:6.

Foreldrar nú á tímum geta örugglega sett sig í spor Nóa og konu hans. Heimurinn, sem við búum í, er líka fullur af ofbeldi og uppreisnargirni. Afþreyingarefni fyrir börn getur jafnvel verið stútfullt af slíku. Skynsamir foreldrar gera allt sem þeir geta til að sporna gegn slíkum áhrifum með því að fræða börn sín um Jehóva, Guð friðarins, sem í framtíðinni mun binda enda á allt ofbeldi. (Sálmur 11:5; 37:10, 11) Foreldrar, þið getið náð góðum árangri! Nóa og konu hans tókst vel til. Synir þeirra urðu góðir menn og þeir kvæntust konum sem voru líka tilbúnar til að láta þjónustuna við Jehóva, hinn sanna Guð, ganga fyrir öllu öðru.

„ÞÚ SKALT GERA ÞÉR ÖRK“

Einn góðan veðurdag gerbreyttist líf Nóa. Jehóva talaði til þessa trúa þjóns síns og sagði honum að hann hefði ákveðið að eyða öllu lífi á jörðinni. Guð sagði við Nóa: „Þú skalt gera þér örk af góferviði.“ – 1. Mósebók 6:14.

Örkin var ekki skip eins og sumir halda. Á henni voru hvorki stafn né skutur, kjölur eða stýri. Hliðarnar voru ekki bogadregnar heldur var örkin eins og stærðarinnar kista eða kassi. Jehóva lét Nóa vita nákvæmlega hvað hún átti að vera löng, breið og há. Hann fékk líka að vita fleira um hönnun hennar og að hann ætti að bera tjöru á hana bæði innan sem utan. Jehóva sagði Nóa af hverju hann átti að smíða þessa örk: „Ég læt vatnsflóð steypast yfir jörðina . . . Allt sem á jörðinni er skal farast.“ Hann gaf Nóa einnig þessi fyrirmæli: „Þú skalt ganga í örkina, þú og synir þínir, kona þín og tengdadætur þínar með þér.“ Nói átti líka að taka með sér allar tegundir dýra. Aðeins þeir sem voru um borð í örkinni gátu lifað heimsflóðið af. – 1. Mósebók 6:17-20.

Nói átti gífurlega mikið verk fyrir höndum. Örkin átti að vera risastór, 133 metra löng, 22 metra breið og 13 metra há. Hún var langtum stærri en stærstu tréskip sem smíðuð hafa verið. Reyndi Nói að komast hjá því að taka þetta verkefni að sér? Kvartaði hann yfir hvað það yrði erfitt eða reyndi hann á einhvern hátt að breyta upplýsingunum til að auðvelda sér verkið? Í Biblíunni segir: „Nói gerði allt eins og Guð bauð honum.“ – 1. Mósebók 6:22.

Smíðin tók áratugi, kannski 40 eða 50 ár. Það þurfti að höggva niður tré, færa til trjádrumba, höggva þá til og festa síðan timbrið saman. Örkin átti að vera á þremur hæðum og á hverri hæð mörg herbergi og básar. Hún átti líka að hafa hurð á annarri hliðinni. Það voru greinilega gluggar á efstu hæðinni og þakið hallaði svo vatnið gæti runnið af því. – 1. Mósebók 6:14-16.

Þegar árin liðu og örkin byrjaði að taka á sig mynd hefur Nói örugglega verið glaður yfir að fjölskyldan skyldi hafa stutt hann. En Nói þurfti að gera fleira, eitthvað sem var jafnvel erfiðara en að smíða örkina. Biblían talar um Nóa sem „boðbera réttlætisins“. (2. Pétursbréf 2:5) Nói sýndi þess vegna mikið hugrekki þegar hann tók forystuna í því að vara fólk við komandi eyðingu yfir þessum illa og óguðlega heimi. Hvernig brást fólkið við? Jesús varpaði ljósi á það seinna þegar hann sagði að fólkið hefði verið svo upptekið af daglegu amstri, eins og að borða, drekka og gifta sig, að það tók ekkert mark á viðvörunum Nóa. (Matteus 24:37-39) Margir gerðu örugglega gys að Nóa og fjölskyldu hans. Einhverjir höfðu jafnvel í hótunum við hann og ofsóttu hann grimmilega.

Fólk gerði gys að Nóa og tók ekki mark á viðvörunum hans þrátt fyrir augljós merki þess að Guð blessaði hann.

En Nói og fjölskylda hans gáfust þó aldrei upp. Þau héldu áfram að smíða örkina þótt fólkinu í kringum þau fyndist það ómerkilegt, misráðið eða jafnvel heimskulegt. Fjölskyldur nú til dags geta lært mikið af trúfesti Nóa og fjölskyldu hans. Eins og Biblían segir lifum við á „síðustu dögum“ þessa heimskerfis. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Jesús sagði að okkar tímar yrðu eins og tímarnir þegar Nói smíðaði örkina. Það er gott fyrir okkur að minnast Nóa þegar við erum að boða fagnaðarerindið um Guðsríki og finnum fyrir sinnuleysi fólks, að það geri grín að okkur eða við verðum fyrir ofsóknum. Við erum ekki þau fyrstu sem þurfum að glíma við slíkar áskoranir.

„GAKKTU INN Í ÖRKINA“

Áratugir liðu og örkin var smám saman að verða tilbúin. Þegar Nói var næstum því 600 ára dó Lamek, * faðir hans. Og fimm árum síðar lést Metúsala, afi hans, sem þá var orðinn 969 ára, langlífasti maður sem getið er um í Biblíunni. (1. Mósebók 5:27) Bæði Lamek og Metúsala voru samtíðarmenn Adams, fyrsta mannsins.

Það sama ár fékk ættfaðirinn Nói ný fyrirmæli frá Jehóva Guði. Jehóva sagði: „Gakktu inn í örkina og allt þitt fólk.“ Hann sagði Nóa líka að taka dýr af öllum tegundum með sér í örkina, sjö af hverri tegund sem var hrein og mátti fórna og tvö af öllum öðrum dýrum. – 1. Mósebók 7:1-3.

Þetta hlýtur að hafa verið stórkostleg sjón. Úti við sjóndeildarhringinn mátti sjá dýrin streyma að örkinni í hundraðatali, ýmist gangandi, fljúgandi, skríðandi, vaggandi eða þrammandi. Dýrin voru ólík að lit og lögun, sum voru gríðarstór en önnur lítil. Einhver þeirra voru árásargjörn og önnur gæf. En Nói þurfti ekki að kalla á eftir dýrunum eða reka þau inn með valdi og smala þeim saman í lítil og þröng rými í örkinni. Frásagan segir einfaldlega að þau hafi öll farið inn í örkina til Nóa. – 1. Mósebók 7:8.

Einhverjir efasemdamenn spyrja kannski: „Hvernig gat slíkt átt sér stað? Og hvernig gátu öll dýrin búið saman í sátt og samlyndi í þessu litla plássi?“ Hugleiddu þetta: Er það skapara alheims um megn að stjórna dýrunum sem hann skapaði, temja þau og gera þau viðráðanleg? Mundu að Jehóva er sá sem klauf Rauðahafið og lét sólina standa kyrra. Gat hann þá ekki gert þessa hluti sem við lesum um í sögu Nóa? Auðvitað gat hann það og hann gerði það!

Guð hefði vissulega getað bjargað dýrunum á einhvern annan hátt. En í visku sinni valdi hann þessa leið sem minnir okkur á það traust sem hann sýndi manninum í upphafi að annast öll dýrin á jörðinni. (1. Mósebók 1:28) Margir foreldrar nota þess vegna söguna um Nóa til að kenna börnum sínum að mennirnir og dýrin, sem Guð skapaði, eru verðmæt í augum hans.

Jehóva sagði Nóa að flóðið kæmi eftir eina viku. Það hlýtur að hafa verið annasamur tími fyrir fjölskyldu hans. Þau þurftu að koma öllum dýrunum og fóðrinu fyrir á skipulagðan hátt ásamt því að flytja búslóð sína um borð. Eiginkona Nóa og konur Sems, Kams og Jafets hafa örugglega verið sérstaklega uppteknar af því hvernig þær ættu að halda heimili um borð í örkinni.

Hvað hugsaði fólkið sem bjó í nágrenni við þau? Það kærði sig kollótt þrátt fyrir augljós merki þess að Jehóva blessaði Nóa og starf hans. Það komst ekki hjá því að sjá dýrin streyma inn í örkina. Við ættum þó ekki að undrast áhugaleysi þess. Fólk á okkar dögum kærir sig ekki um að sjá allar þær sannanir sem við höfum fyrir því að við lifum á síðustu dögum þessa heimskerfis. Og Pétur postuli spáði því að ,spottarar myndu koma og spotta‘ þá sem tækju mark á viðvörunum Guðs. (2. Pétursbréf 3:3-6) Þannig hæddust menn að Nóa og fjölskyldu hans.

Hvenær hættu þeir að gera gys að þeim? Frásagan segir að þegar Nói hafði komið fjölskyldu sinni og dýrunum um borð í örkina hafi Jehóva lokað dyrunum á eftir þeim. Hafi einhverjir spottarar verið í nágrenninu hefur það vafalaust þaggað niður í þeim. Ef ekki hefur regnið örugglega gert það. Það steyptist niður og það hélt áfram að rigna og rigna þangað til jörðin var hulin vatni alveg eins og Jehóva hafði sagt fyrir. – 1. Mósebók 7:16-21.

Gladdist Jehóva yfir dauða þessara illu manna? Alls ekki. (Esekíel 33:11) Þvert á móti hafði hann gefið þeim kost á að breyta lífi sínu og gera það sem var rétt. Hefðu þeir getað gert það? Með lífi sínu svaraði Nói þessari spurningu. Hann sýndi að það var hægt að bjargast með því að ganga með Guði, það er að segja hlýða honum í einu og öllu. Þannig sýndi hann með trú sinni að þessi illi heimur hafði á röngu að standa. Trúfesti Nóa varðveitti hann og fjölskyldu hans. Ef þú líkir eftir trúfesti hans gætu bæði þú og ástvinir þínir bjargast. Alveg eins og Nói getur þú gengið með Jehóva Guði sem vinur hans. Og sú vinátta getur varað að eilífu.

^ gr. 10 Í þá daga lifði fólk mun lengur en við gerum núna. Langlífi þeirra tengdist örugglega því að það var nær lífskraftinum og fullkomleikanum sem Adam og Eva höfðu glatað.

^ gr. 20 Lamek hafði gefið syni sínum nafnið Nói sem merkir sennilega „hvíld“ eða „huggun“. Hann hafði líka spáð því að Nói myndi uppfylla merkingu þessa nafns með því að veita mannkyni hvíld frá erfiði og striti sínu á jörð sem bölvun hvíldi yfir. (1. Mósebók 5:28, 29) Lamek lifði ekki nógu lengi til að sjá spádóminn rætast.