FORSÍÐUEFNI | UM HVAÐ FJALLAR BIBLÍAN?
Gleðifréttir fyrir alla menn
Vitneskjan um upprisu Jesú fyllti lærisveina hans sannfæringu og eldmóði. Páll postuli var sérstaklega ötull og ferðaðist um Litlu-Asíu og löndin við Miðjarðarhaf til að stofna söfnuði og hvetja trúsystkini sín til að standa gegn siðleysi og hatrömmum ofsóknum. Þrátt fyrir slíkar hindranir dafnaði kristni söfnuðurinn og margir tóku trú.
Síðar var Páll fangelsaður. Það hindraði hann ekki í að skrifa til kristnu safnaðanna til að uppörva þá og leiðbeina þeim. Hann varaði þá við enn alvarlegri ógn – fráhvarfi. Innblásinn af anda Guðs sá Páll fyrir að „skæðir vargar“, sem boðuðu „rangsnúna kenningu“, myndu koma inn í söfnuðinn til að „tæla lærisveinana á eftir sér“. – Postulasagan 20:29, 30.
Undir lok fyrstu aldar byrjaði fráhvarfið. Um svipað leyti fékk Jóhannes postuli opinberun, táknræna sýn inn í framtíðina, frá hinum upprisna Jesú. Eins og Jóhannes skrifaði myndu hvorki andstöðumenn né falskennarar geta komið í veg fyrir að upphafleg fyrirætlun Guðs með jörðina og mennina næði fram að ganga. ,Sérhver þjóð og kynkvísl, tunga og lýður‘ fær að heyra fagnaðarboðskapinn um Guðsríki. (Opinberunarbókin 14:6) Paradís verður endurreist á jörð og allir sem vilja hlýða Guði geta fengið að lifa þar.
Ertu ekki sammála því að þetta séu gleðifréttir? Ef svo er geturðu fengið að vita meira um boðskap Guðs til mannanna, sem við finnum í Biblíunni, og hvernig hann getur gagnast þér núna og í framtíðinni.
Hægt er að lesa Biblíuna á um það bil 50 tungumálum á www.pr418.com. Á vefsíðunni er einnig hægt að lesa bæklingana Biblían – hver er boðskapur hennar? og Gleðifréttir frá Guði. Þar er líka að finna bókina Hvað kennir Biblían? ásamt fleiri ritum sem fjalla um hvers vegna við getum treyst Biblíunni og hvernig við, sem einstaklingar eða fjölskyldur, getum nýtt okkur gagnlegar leiðbeiningar hennar. Þú getur einnig beðið einhvern af vottum Jehóva um frekari upplýsingar.
– Byggt á Postulasögunni, Efesusbréfinu, Filippíbréfinu, Kólossubréfinu, Fílemonsbréfinu, 1. Jóhannesarbréfi, Opinberunarbókinni.