FARSÆLT FJÖLSKYLDULÍF
Ræddu við unglinginn án þess að rífast
„Dóttir mín fór að svara mér fullum hálsi þegar hún var 14 ára. Ef ég sagði henni að það væri kominn matartími svaraði hún: ,Ég borða bara þegar mér sýnist.‘ Ef ég spurði hana hvort hún væri búin að vinna húsverkin, sem ég bað hana um, sagði hún: ,Hættu að tuða í mér!‘ Oft fór þetta þannig að við byrjuðum að æpa hvor á aðra.“ – MIKI, JAPAN. *
Ef þú átt ungling gæti ósætti á milli ykkar reynt verulega á þolinmæði þína og hæfni sem foreldri. María frá Brasilíu, sem á 14 ára dóttur, segir: „Þegar dóttir mín neitar að hlýða mér missi ég stjórn á skapi mínu. Við verðum svo ósáttar að við förum að hnakkrífast.“ Carmela sem býr á Ítalíu á við svipaðan vanda að etja. Hún segir: „Við sonur minn rífumst oft heiftarlega og það endar með því að hann lokar sig inni í herbergi.“
Af hverju virðast sumir unglingar vera svona þrætugjarnir? Er það jafnöldrum þeirra að kenna? Ef til vill. Biblían segir að vinir manns geti haft gífurleg áhrif á mann, hvort heldur til góðs eða ills. (Orðskviðirnir 13:20; 1. Korintubréf 15:33) Þá má einnig nefna að mikið af því afþreyingarefni sem höfðar til unglinga dregur upp þá mynd að það sé í lagi að ungt fólk sýni öðrum óvirðingu og geri uppreisn.
En það er fleira sem þarf að taka með inn í myndina. Þegar þú áttar þig á hvaða áhrif það hefur á unglinginn að taka út þroska er ekki svo erfitt að eiga við breytingarnar. Lítum á nokkur dæmi.
AÐ LÆRA „AÐ GREINA GOTT FRÁ ILLU“
Páll postuli skrifaði: „Þegar ég var barn talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða lagði ég niður barnaskapinn.“ (1. Korintubréf 13:11) Eins og orð Páls gefa til kynna hugsa börn og fullorðnir á mismunandi hátt. Hvernig þá?
Frá sjónarhóli barna virðast hlutirnir yfirleitt skýrir og einfaldir. Fullorðnir eru hins vegar yfirleitt færari í að rökhugsa og sjá oft flókin mál í víðara samhengi áður en þeir taka ákvarðanir eða komast að niðurstöðu. Þeir eru til dæmis líklegri til að íhuga siðferðilegar hliðar málanna og velta fyrir sér hvaða áhrif gerðir þeirra hafi á aðra. Þeim er eflaust tamt að hugsa á þennan hátt. Unglingar hafa aftur á móti enn sem komið er litla reynslu af þess konar rökhugsun.
Biblían hvetur ungt fólk til að temja sér heilbrigða skynsemi. (Orðskviðirnir 1:4) Hún hvetur í raun alla kristna menn til að læra „að greina gott frá illu“. (Hebreabréfið 5:14) Unglingurinn er að vitkast og þroskast, en einmitt þess vegna gæti hann farið að rífast við þig, jafnvel um eitthvað sem virðast smámunir í þínum augum. Og þegar þú hlustar á skoðanir hans gætirðu stundum tekið eftir að hann skorti vissa dómgreind. (Orðskviðirnir 14:12) Hvernig geturðu þá rökrætt við unglinginn án þess að fara að rífast?
PRÓFIÐ ÞETTA: Hafðu í huga að unglingurinn er að læra að mynda sér sínar eigin skoðanir og færa rök fyrir þeim og er kannski ekki eins fastur á þeim og ætla mætti. Til að komast að því hvað honum finnst í raun og veru skaltu byrja á að hrósa honum fyrir að hafa hugleitt málið. („Ég skil hvað þú átt við þótt ég sé ekki sammála þér að öllu leyti.“) Hjálpaðu honum síðan að sjá málið í víðara samhengi. („Heldurðu að rökin sem þú komst með eigi við í öllum tilfellum?“) Þér gæti komið á óvart hvernig unglingurinn endurskoðar hugmyndir sínar og pússar þær til.
Varnaðarorð: Gakktu ekki út frá því að þú verðir að eiga síðasta orðið þegar þú rökræðir við unglinginn. Jafnvel þótt þér finnist þú tala fyrir daufum eyrum tekur hann líklega meira mark á orðum þínum en þig grunar, eða hann vill viðurkenna. Það ætti ekki að koma þér á óvart þótt unglingurinn sé kominn á þína skoðun innan fárra daga og hafi jafnvel eignað sér hana.
„Við sonur minn rifumst stundum um lítilsháttar mál eins og til dæmis að fara illa með hlutina eða stríða litlu systur. En í rauninni vildi hann bara að ég spyrði hvað lægi að baki, sýndi honum skilning og segði: ,Já, er það ástæðan?‘ eða ,Nú skil ég.‘ Þegar ég horfi um öxl sé ég að eflaust hefðum við oft komist hjá rifrildi hefði ég bara sagt eitthvað þessu líkt.“ – Kenji, Japan.
AÐ MYNDA SÉR SKOÐANIR
Stór þáttur í að ala upp ungling er að búa hann undir að geta flutt að heiman og verið ábyrgur einstaklingur. (1. Mósebók 2:24) Þetta ferli felur meðal annars í sér að unglingurinn átti sig á hvers konar eiginleika, trúarskoðanir og lífsgildi hann langar til að tileinka sér og lifa eftir. Með öðrum orðum þarf hann að ákveða hvernig einstaklingur hann vill verða. Þegar unglingur með skýra sjálfsvitund sem þessa er beittur þrýstingi til að gera eitthvað rangt gerir hann meira en að hugsa um afleiðingarnar. Hann spyr sig: ,Hvernig manneskja er ég? Hver eru mín lífsgildi? Hvað myndi maður með sams konar gildismat gera við þessar aðstæður?‘ – 2. Pétursbréf 3:11.
Í Biblíunni er sagt frá Jósef, ungum manni með sterka sjálfsvitund. Þegar eiginkona Pótífars reyndi að fá Jósef til að hafa kynmök við sig sagði hann: „Hvernig skyldi ég þá aðhafast þessa miklu óhæfu og syndga á móti Guði?“ (1. Mósebók 39:9, Biblían 1981) Enda þótt Ísraelsmönnum höfðu enn ekki verið sett lög sem bönnuðu hórdóm vissi Jósef hvernig Jehóva leit á málið. Orð hans „hvernig skyldi ég“ gefa enn fremur til kynna að hann hafði gert viðhorf Guðs að sínum eigin. – Efesusbréfið 5:1.
Unglingurinn þinn er líka byrjaður að mynda sér skoðanir og átta sig á hvernig einstaklingur hann vill verða. Það veit á gott því að fastmótaðar skoðanir og viðhorf hjálpa honum að standast hópþrýsting frá jafnöldrunum og verja afstöðu sína. (Orðskviðirnir 1:10-15) Á hinn bóginn gæti þessi aukna sjálfsvitund orðið til þess að hann bjóði þér birginn. Hvað geturðu gert ef það gerist?
PRÓFIÐ ÞETTA: Í stað þess að leiðast út í rifrildi skaltu endursegja skoðun hans með þínum eigin orðum. („Mig langar að vera viss um að ég skilji þig rétt. Þú ert að segja að ...“) Spyrðu síðan spurninga. („Af hverju finnst þér það?“ eða „Hvernig fékkstu það út?“) Fáðu unglinginn til að tjá sig. Leyfðu honum að viðra skoðanir sínar. Ef skoðanamunurinn
snýst bara um ólíkan smekk en ekki um hvað sé rétt og rangt skaltu sýna honum að þú getir virt sjónarmið hans, jafnvel þótt þú sért ekki alveg sammála þeim.Það er ekki aðeins liður í eðlilegum þroska að efla sjálfsvitund sína og mynda sér þar með sínar eigin skoðanir heldur er það einnig gagnlegt. Biblían segir jú að kristnir menn eigi ekki að vera eins og börn sem „hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi“. (Efesusbréfið 4:14) Leyfðu því unglingnum þínum að efla sjálfsvitund sína og viðhorf og hvettu hann jafnvel til þess.
„Þegar dætur mínar sjá að ég er fús til að ljá þeim eyra eru þær viljugri til að skilja sjónarmið mitt þótt það sé ólíkt þeirra. Ég reyni að passa mig á að þröngva ekki mínum skoðunum upp á þær heldur leyfa þeim að mynda sér sínar eigin.“ – Ivana, Tékklandi.
FORELDRAR ÞURFA AÐ VERA ÁKVEÐNIR EN SVEIGJANLEGIR
Líkt og mörg börn hafa sumir unglingar lært þá tækni að suða í foreldrum sínum til að fá það sem þeir vilja. Ef það gerist oft á þínu heimili skaltu hafa varann á. Enda þótt þú fengir augnabliksfrið með því að gefa eftir lærir unglingurinn að hann nær sínu fram með því að rífast. Hvað getur hjálpað? Fylgdu ráðum Jesú: „Þegar þér talið sé já yðar já og nei sé nei.“ (Matteus 5:37) Það eru minni líkur á að unglingurinn fari að rífast við þig þegar hann veit að þú ert samkvæmur sjálfum þér.
En foreldrar þurfa samt að vera sanngjarnir. Ef unglingnum finnst að hann ætti stundum að fá að vera lengur úti leyfðu honum þá að færa rök fyrir því. Foreldrarnir eru þá ekki að láta undan þrýstingi heldur einfaldlega að fylgja þeirri hvatningu Biblíunnar „að vera ... sanngjarnir“. – Títusarbréfið 3:1, 2, Biblían 1981.
PRÓFIÐ ÞETTA: Haldið fjölskyldufund og ræðið um útivistartíma og reglur sem gilda á heimilinu. Látið börnin finna að þið eruð fús til að hlusta á þau og vega og meta alla þætti málsins áður en ákvörðun er tekin. Roberto, faðir í Brasilíu, segir: „Unglingar ættu að geta séð að foreldrarnir séu tilbúnir að verða við beiðni þeirra ef hún gengur ekki í berhögg við meginreglur Biblíunnar.“
Auðvitað er ekkert foreldri fullkomið. Í Biblíunni stendur: „Öll hrösum við margvíslega.“ (Jakobsbréfið 3:2) Ef þú áttar þig á að þú eigir einhverja sök á rifrildinu hikaðu þá ekki við að biðja unglinginn þinn fyrirgefningar. Ef þú viðurkennir að þér hafi orðið á kennirðu unglingnum auðmýkt og þá er líklegra að hann fari sjálfur að dæmi þínu.
„Þegar ég hafði róast eftir rifrildi við son minn bað ég hann fyrirgefningar á að hafa orðið reiður. Það varð til þess að hann róaðist líka og auðveldaði honum að hlusta á mig.“ – Kenji, Japan.
^ gr. 3 Nöfnum í þessari grein hefur verið breytt.
SPYRÐU ÞIG ...
-
Með hvaða hætti gæti ég hugsanlega verið að ýta undir rifrildi við unglinginn minn?
-
Hvernig get ég nýtt mér þessa grein til að skilja unglinginn betur?
-
Hvað get ég gert til að ræða við unglinginn án þess að rífast?