Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Biblíuspurningar og svör

Biblíuspurningar og svör

Hver er Guð?

Guð er ósýnileg andavera. Hann skapaði himinn og jörð og allt sem lifir. Enginn skapaði Guð, hann á sér ekkert upphaf. (Sálmur 90:2) Guð vill að fólk leiti hans og viti sannleikann um hann. – Lestu Postulasöguna 17:24-27.

Við getum fengið að vita hvað Guð heitir. Og við getum skynjað eiginleika hans með því að virða fyrir okkur það sem hann hefur skapað. (Rómverjabréfið 1:20) En til að kynnast Guði vel þurfum við að lesa í orði hans, Biblíunni. Hún segir frá Guði og aðlaðandi eiginleikum hans. – Lestu Sálm 103:7-10.

Hvað finnst Guði um óréttlæti?

Jehóva, skapari okkar, hefur megnustu andstyggð á óréttlæti. (Sálmur 5:5) Og þar sem hann skapaði mennina eftir sinni mynd höfum við flestöll óbeit á óréttlæti. Það er ekki Guð sem stendur á bak við óréttlætið í heiminum. Hann gaf manninum frjálsan vilja. En því miður misnota margir frjálsan vilja sinn og leggja stund á óréttlæti. Það gerir Jehóva hryggan. – Lestu 1. Mósebók 6:5, 6; 5. Mósebók 32:4, 5.

Réttlætið er Jehóva afar kært og hann ætlar ekki að umbera óréttlæti að eilífu. (Sálmur 37:28, 29) Í Biblíunni er því lofað að brátt bindi hann enda á allt óréttlæti. – Lestu 2. Pétursbréf 3:7-9, 13.

Í Biblíunni er því lofað að Guð tryggi bráðum öllum mönnum réttlæti.