BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS
Líf mitt snerist eingöngu um mig
-
FÆÐINGARÁR: 1951
-
FÖÐURLAND: ÞÝSKALAND
-
FORSAGA: HROKAFULLUR OG SJÁLFUMGLAÐUR
FORTÍÐ MÍN: Fyrstu æviár mín bjuggum við fjölskyldan í grennd við Leipzig í Austur-Þýskalandi, ekki langt frá landamærum Tékklands og Póllands. Þegar ég var sex ára fluttum við til útlanda vegna vinnu föður míns, fyrst til Brasilíu og síðan til Ekvador.
Þegar ég var 14 ára sendu foreldrar mínir mig til Þýskalands í heimavistarskóla. Og þar sem þau voru víðsfjarri, í Suður-Ameríku, þurfti ég að læra að treysta eingöngu á sjálfan mig. Fyrir vikið rauk sjálfsöryggið upp úr öllu valdi og ég hugsaði lítið út í hvaða áhrif gerðir mínar höfðu á aðra.
Þegar ég var 17 ára fluttu foreldrar mínir heim til Þýskalands og við bjuggum öll aftur undir sama þaki. En þar sem ég hafði vanist því að vera sjálfs mín herra átti ég erfitt með að beygja mig undir foreldravald þeirra. Ég flutti því að heiman 18 ára.
Ég varð mjög eirðarlaus og leitaði eftir tilgangi lífsins. Eftir að hafa kynnt mér alls konar lífsstefnur og samtök komst ég á þá skoðun að lífi mínu væri best varið í að ferðast vítt og breitt til að skoða fegurð jarðarinnar áður en mönnunum tækist að eyðileggja hana.
Ég yfirgaf Þýskaland, keypti mér mótorhjól og setti stefnuna á Afríku. Fljótlega þurfti ég þó að fara aftur til Evrópu með hjólið í viðgerð. Stuttu síðar lá ég á sólarströnd í Portúgal og ákvað þá að leggja mótorhjólið til hliðar og finna leið til að ferðast á báti.
Ég slóst í hóp með ungu fólki sem var að skipuleggja sjóferð yfir Atlantshafið. Ein í hópnum, Laurie, varð síðar eiginkona mín. Fyrst sigldum við til eyja Karíbahafsins. En eftir stutta viðkomu á Púertóríkó fórum við aftur til Evrópu. Við Laurie vonuðumst til að finna seglskútu sem við gætum breytt í vélknúinn húsbát. Eftir að hafa leitað að hentugum bát í þrjá mánuði var ég kallaður í þýska herinn og það gerði strik í reikninginn.
Ég var rúmt ár í þýska sjóhernum. Á sama tíma giftum við Laurie okkur og við unnum markvisst að því að geta haldið áfram að flakka heimshorna á milli. Stuttu áður en ég gekk í herinn höfðum við fest kaup á gömlum björgunarbát og á
meðan ég var í hernum breyttum við honum smám saman í lítinn húsbát. Við ætluðum okkur að búa í bátnum og halda áfram að ferðast og skoða fagra staði á jörðinni. Um þetta leyti – eftir að herþjónustu minni lauk og áður en báturinn var tilbúinn – komumst við í kynni við Votta Jehóva og þáðum aðstoð þeirra við biblíunám.BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU: Í fyrstu fannst mér ég ekki þurfa að gera miklar breytingar á lífi mínu.
Ég var kvæntur konunni sem ég bjó með og ég var hættur að reykja. (Efesusbréfið 5:5) Mér fannst líka áform okkar hjónanna um að ferðast um heiminn og rannsaka stórkostlegt sköpunarverk Guðs vera einstaklega verðugt verkefni.
Sannleikurinn var hins vegar sá að ég þurfti að gera róttækar breytingar á sjálfum mér. Þar sem ég var ákaflega stoltur og sjálfumglaður var ég gagntekinn af því að sýna hvað ég gæti gert og hverju ég hafði áorkað. Líf mitt snerist eingöngu um mig.
Dag einn las ég fjallræðuna frægu sem Jesús flutti. (Matteus kaflar 5-7) Fyrst átti ég svolítið erfitt með að skilja hin svokölluðu sæluboð sem hann talaði um, eins og til dæmis að þeir sem væru hungraðir og þyrstir yrðu sælir. (Matteus 5:6) Ég furðaði mig á hvernig það gæti veitt manni hamingju að líkamlegum þörfum manns væri ekki fullnægt. En með áframhaldandi biblíunámi skildi ég smám saman að við höfum öll andlega þörf en til þess að geta fullnægt henni verðum við fyrst að vera fús til að viðurkenna hana. Jesús orðaði það svo vel þegar hann sagði: „Sælir eru þeir sem skynja andlega þörf sína.“ – Matteus 5:3, New World Translation.
Við Laurie höfðum kynnt okkur Biblíuna um tíma þegar við fluttum frá Þýskalandi til Frakklands og þaðan til Ítalíu. Hvert sem við fórum höfðum við uppi á Vottum Jehóva. Það hafði djúpstæð áhrif á mig að sjá hve einlægan kærleika þeir bera hver til annars og eininguna sem ríkir meðal þeirra. Ég sá með eigin augum að þeir eru alþjóðlegt bræðralag. (Jóhannes 13:34, 35) Þegar fram liðu stundir létum við Laurie skírast sem vottar Jehóva.
Eftir skírnina hélt ég áfram að gera róttækar breytingar á sjálfum mér. Við Laurie höfðum ákveðið að sigla með fram strönd Afríku og síðan yfir Atlantshafið til Bandaríkjanna. Við vorum bara tvö á ferð á lítilli bátskel og glitrandi hafflöturinn teygði sig svo langt sem augað eygði. Og þarna úti á opnu hafi gerði ég mér ljóst hve lítilfjörlegur ég væri í samanburði við mikilfenglegan skaparann. Þar sem lítið er hægt að gera úti á rúmsjó hafði ég nægan tíma aflögu sem ég nýtti til að lesa Biblíuna. Það sem heillaði mig sérstaklega voru frásögurnar af lífi Jesú hér á jörð. Hann var fullkominn og gat gert miklu meira en ég gæti nokkurn tíma ímyndað mér, en hann upphóf samt aldrei sjálfan sig. Líf hans snerist ekki um hann heldur um himneskan föður hans.
Ég áttaði mig á að ég varð að láta ríki Guðs hafa forgang í lífi mínu.
Þegar ég hugleiddi fordæmi Jesú áttaði ég mig á að ég varð að láta ríki Guðs hafa forgang í lífi mínu í stað þess að einbeita mér fyrst og fremst að því sem mig langaði að gera. (Matteus 6:33) Þegar við Laurie komum loks að landi í Bandaríkjunum ákváðum við að segja skilið við flökkulífið, setjast þar að og einbeita okkur að því að tilbiðja Jehóva.
LÍFIÐ HEFUR BREYST TIL HINS BETRA:
Meðan líf mitt snerist um að fara mínar eigin leiðir var ég oft óviss um þær ákvarðanir sem ég tók. En núna hef ég kynnst óskeikulli visku Guðs sem ég get öruggur haft að leiðarljósi. (Jesaja 48:17, 18) Líf mitt hefur líka loksins sannan tilgang: Að tilbiðja Guð og hjálpa öðrum að kynnast honum.
Það hefur styrkt hjónaband okkar Laurie til muna að fara eftir meginreglum Biblíunnar. Við höfum líka eignast yndislega dóttur sem þjónar Jehóva og elskar hann heitt.
Við Laurie höfum ekki alltaf siglt lygnan sjó. En með hjálp Jehóva erum við staðráðin í að hætta aldrei að þjóna honum né að treysta á hann. – Orðskviðirnir 3:5, 6.