LÍKJUM EFTIR TRÚ ÞEIRRA | JÓSEF
„Hvers vegna skyldi ég þá aðhafast svo illt?“
JÓSEF gekk í steikjandi sólarhitanum og ilminn af lótusblómum og öðrum vatnaplöntum lagði fyrir vit honum. Hann var þræll farandkaupmanna og nú lá leið þeirra yfir víðáttumikla sléttuna við árósa Nílar í átt að enn einum egypskum bæ. Sjáðu þá fyrir þér þar sem þeir leiða úlfaldalest sína með fram ánni og einstaka sefhegri eða nílaríbis hefur sig snögglega til flugs þegar þeir ganga fram hjá. Hugur Jósefs leitar heim til vindbarinna hæðanna í Hebron. Hann er órafjarri heimahögunum, mörg hundruð kílómetra í burtu.
Í eyrum Jósefs var tal fólksins, sem þeir mættu á leiðinni, álíka óskiljanlegt og skvaldur apanna sem sátu skrækjandi hátt uppi í döðlupálmunum og fíkjutrjánum. Kannski reyndi hann að festa í minni sér öll þau orð og setningar sem hann gat. Það var alveg eins gott að byrja strax að læra því að hann vissi ekki hvort hann kæmist nokkurn tíma heim aftur.
Jósef var aðeins unglingur, varla eldri en 17 eða 18 ára. Samt stóð hann andspænis erfiðleikum sem myndu draga kjarkinn úr mörgum fullorðnum karlmönnum. Bræður hans lögðu hatur á hann af því að hann var eftirlætissonur föður þeirra. Þeir höfðu í fyrstu ætlað að drepa hann en ákváðu síðan að selja hann þessum farandkaupmönnum. (1. Mósebók 37:2, 5, 18-28) Núna, eftir margra vikna ferðalag, nálguðust farandkaupmennirnir stórborgina. Þeir voru eflaust fullir tilhlökkunar því að þar ætluðu þeir sér að hagnast vel á því að selja Jósef og annan dýrmætan varning sem þeir höfðu meðferðis. En hvernig tókst Jósef að koma í veg fyrir að örvæntingin næði tökum á honum og bugaði hann? Og hvernig getum við komið í veg fyrir að erfiðleikar og áföll brjóti niður trú okkar? Við getum lært heilmikið af því hvernig Jósef tókst á við erfiðleikana.
„DROTTINN VAR MEÐ JÓSEF“
„Jósef var fluttur til Egyptalands þar sem Pótífar, egypskur hirðmaður faraós og lífvarðarforingi, keypti hann af Ísmaelítunum sem fluttu hann þangað.“ (1. Mósebók 39:1) Af þessum orðum Biblíunnar getum við gert okkur í hugarlund niðurlæginguna sem þessi ungi maður upplifði þegar hann var seldur enn á ný. Hann var eins og hver önnur verslunarvara. Þú sérð kannski Jósef fyrir þér þar sem hann gengur á eftir nýjum eiganda sínum, egypskum hirðmanni, í gegnum mannþröngina og markaðina á götum borgarinnar í átt að nýju heimili sínu.
Þetta heimili var þó harla ólíkt því sem Jósef hafði nokkurn tíma kynnst. Hann var hirðingi sem hafði alla ævi búið í tjöldum með fjölskyldu sinni sem var stöðugt á faraldsfæti með sauðahjarðir sínar. En hér bjuggu auðugir Egyptar, eins og Pótífar, í glæsilegum húsum í björtum litum. Fornleifafræðingar segja að Egyptar til forna hafi verið gefnir fyrir gróðursæla garða umlukta háum veggjum. Í görðunum voru skuggsæl tré og friðsælar tjarnir þar sem uxu papírussef, lótusblóm og aðrar vatnaplöntur. Húsin voru oft með stórri yfirbyggðri verönd þar sem hægt var að njóta svalans og háum gluggum sem hleyptu inn fersku lofti. Í húsunum voru yfirleitt mörg herbergi, þar á meðal stór borðstofa og vistaverur fyrir þjónustufólkið.
1. Mósebók 39:2) Án efa úthellti Jósef hjarta sínu fyrir Jehóva, Guði sínum, sem er „nálægur öllum sem ákalla hann“, að sögn Biblíunnar. (Sálmur 145:18) Hvað annað gerði Jósef til að varðveita náið samband við Guð sinn?
Það er samt harla ólíklegt að Jósef hafi heillast af öllu þessu ríkidæmi. Ef eitthvað er fann hann örugglega til enn meiri einmanaleika. Tungumál, klæðnaður og útlit Egyptanna var honum framandi og ekki síst trúarsiðir þeirra. Þeir tilbáðu ótal guði, lögðu stund á dulspeki og galdra og höfðu afbrigðilegan áhuga á dauðanum og framhaldslífi. En hvað hjálpaði Jósef að láta ekki bugast af einmanaleikanum? Frásaga Biblíunnar segir: „Drottinn var með Jósef.“ (Hinn ungi Jósef lét örvæntinguna ekki ná tökum á sér og einsetti sér að vinna verk sín eins vel og hann gat. Þar með gaf hann Jehóva eitthvað til að blessa og ekki leið á löngu áður en hann fann náð í augum nýja húsbóndans. Pótífar varð ljóst að þessi ungi þræll naut blessunar Jehóva, þess Guðs sem fjölskylda Jósefs tilbað, og þessar blessanir höfðu eflaust í för með sér að heimili egypska mannsins naut enn meiri velsældar. Jósef hélt áfram að vaxa í áliti hjá húsbónda sínum. Að lokum fól Pótífar þessum duglega unga manni umsjón yfir öllu sem hann átti. – 1. Mósebók 39:3-6.
Börn og unglingar, sem þjóna Guði nú á tímum, ættu svo sannarlega að taka Jósef sér til fyrirmyndar. Þegar þau eru í skólanum líður þeim kannski stundum eins og þau séu í framandi og óvinalegu umhverfi, þar sem dulspeki fangar hugi flestra og vonleysi og svartsýni ræður ríkjum. Ef þér líður þannig skaltu muna að Jehóva er ávallt hinn sami. (Jakobsbréfið 1:17) Hann styður líka alla nú á tímum sem eru honum trúfastir og leggja sig fram um að vinna verk sín vel og með þeim hætti sem hann hefur velþóknun á. Hann blessar þá ríkulega og mun blessa þig líka.
Jósef óx og þroskaðist. Hann varð fullvaxta karlmaður og frásagan segir að hann hafi verið „vel vaxinn og fríður sýnum“. Þessi orð gefa til kynna að vandræði voru í uppsiglingu því að líkamleg fegurð kallar oft á óæskilega og óviðeigandi athygli.
,HANN LÉT EKKI AÐ VILJA HENNAR‘
Jósef hafði mætur á hollustu, en það hafði eiginkona Pótífars hins vegar ekki. Frásagan segir: „Kona húsbónda hans renndi hýru auga til hans og sagði: ,Leggstu með mér!‘“ (1. Mósebók 39:7) Fannst Jósef freistandi að láta undan djarfri beiðni þessarar heiðnu konu? Í Biblíunni er hvergi ýjað að því að Jósef hafi verið ónæmur fyrir þeim þrám og löngunum sem algengt er að ungir menn hafi eða að þessi kona, ofdekruð eiginkona auðugs og áhrifamikils hirðmanns, hafi verið óaðlaðandi í útliti. Myndi Jósef hugsa sem svo að húsbóndi hans þyrfti aldrei að komast að þessu? Myndi hann láta freistast af þeim efnislega ávinningi sem slíkt ástarsamband gæti fært honum?
Við vitum auðvitað ekki nákvæmlega hvað fór í gegnum huga Jósefs en við fáum skýra vísbendingu um hvað bjó í hjarta hans. Svar hans leiðir það glöggt í ljós: „Húsbóndi minn lætur sig ekki varða um neitt í húsinu undir minni stjórn og hefur trúað mér fyrir öllum eigum sínum. Hann hefur ekki meira vald í þessu húsi en ég og hann neitar mér ekki um neitt nema þig vegna þess að þú ert kona hans. Hvers vegna skyldi ég þá aðhafast svo illt og syndga á móti Guði?“ (1. Mósebók 39:8, 9) Sjáðu unga manninn fyrir þér þar sem hann mælir þessi orð af ákafa og einlægni. Bara tilhugsunin um það sem hún vildi að hann gerði nísti hjarta hans. Hvers vegna?
Eins og Jósef sagði bar húsbóndi hans traust til hans. Pótífar hafði falið Jósef umsjón yfir öllu í húsi sínu og lagt allt í hendur honum nema eiginkonu sína. Það var óhugsandi fyrir Jósef að bregðast trausti hans. Honum bauð við tilhugsuninni. En honum bauð þó enn meir við tilhugsuninni um að syndga gegn Jehóva Guði sínum. Jósef hafði lært margt af foreldrum sínum um það hvernig Jehóva lítur á hjónaband og tryggð. Jehóva hafði gefið fyrstu hjónin saman og afstaða hans var skýr. Karl og kona áttu að bindast einingarböndum og verða „eitt“. (1. Mósebók 2:24) Þeir sem reyndu að rjúfa þessi bönd áttu það á hættu að kalla yfir sig reiði Guðs. Mennirnir, sem voru til dæmis að því komnir að taka eiginkonu Abrahams og eiginkonu Ísaks með valdi, höfðu nærri því kallað yfir sig mikla ógæfu. (1. Mósebók 20:1-3; 26:7-11) Þessar frásögur um langömmu Jósefs og ömmu höfðu sterk áhrif á hann og hann var ákveðinn í að hafa sömu afstöðu og Guð.
Eiginkona Pótífars var ekki ánægð með svar Jósefs. Þessi auvirðilegi þræll hafnaði tilboði hennar og talaði um að hann vildi ekki „aðhafast svo illt“! En hún gaf sig ekki. Sært stolt hennar og hégómagirnd gerðu hana líklega enn ákveðnari í að fá hann til að skipta um skoðun. Hún beitti sömu aðferð og Satan gerði seinna meir þegar hann freistaði Jesú. Þótt tilraunir Satans mistækjust fyrst í stað gafst hann ekki upp heldur beið bara betra færis. (Lúkas 4:13) Þjónar Guðs þurfa því að vera ákveðnir og staðfastir. Þannig var Jósef. Þótt hún reyndi að tæla hann „dag eftir dag“ hvikaði hann aldrei. Frásagan segir: „Hann [lét] ekki að vilja hennar.“ (1. Mósebók 39:10) Eiginkona Pótífars var hins vegar harðákveðin í að draga hann á tálar.
Hún ákvað að grípa tækifærið þegar þjónustufólkið væri farið úr húsinu. Hún vissi að Jósef þyrfti að koma inn til að sinna störfum sínum. Þegar hann birtist lagði hún til atlögu. Hún greip í skikkju hans og biðlaði enn einu sinni til hans: „Leggstu með mér!“ Jósef brást skjótt við. Hann reyndi að snúa sér undan henni en hún hélt fast í skikkjuna. Hann reif sig lausan þannig að skikkjan varð eftir í höndum hennar og svo forðaði hann sér í burtu! – 1. Mósebók 39:11, 12.
Þetta minnir okkur kannski á innblásin orð Páls postula: „Forðist saurlifnaðinn!“ (1. Korintubréf 6:18) Jósef gaf öllum sannkristnum mönnum afbragðsgott fordæmi. Við erum kannski tilneydd að umgangast fólk sem stendur á sama um siðferðislög Guðs en við þurfum þó ekki að láta undan þegar þrýst er á okkur til að gera eitthvað rangt. Við verðum að forðast kynferðislegt siðleysi, hvað sem það kostar.
Það reyndist Jósef dýrkeypt að gera það sem var rétt. Eiginkona Pótífars lét ekki þar við sitja heldur ákvað að hefna sín. Hún byrjaði strax að öskra og kalla á þjónustulið sitt sem flýtti sér inn. Hún hélt því fram að Jósef hefði reynt að nauðga sér og síðan tekið til fótanna þegar hún öskraði. Hún geymdi skikkjuna sem sönnunargagn og beið eftir eiginmanni sínum. Þegar Pótífar kom heim endurtók hún lygina og gaf í skyn að þetta væri allt saman honum að kenna því að hann hefði hleypt þessum útlendingi inn á heimilið. Hvernig brást Pótífar við? Frásagan segir að hann „reiddist ... mjög“ og lét handsama Jósef og varpa honum í fangelsi. – 1. Mósebók 39:13-20.
„ÞEIR SÆRÐU FÆTUR HANS MEÐ FJÖTRUM“
Menn vita lítið um aðbúnaðinn í egypskum fangelsum á þessum tíma. Fornleifafræðingar hafa fundið rústir slíkra bygginga sem voru eins og rammgerð virki með klefum og myrkvastofum. Jósef lýsti fangelsinu síðar sem „dýflissu“ og það bendir til þess að það hafi verið dimmur og drungalegur 1. Mósebók 40:15) Í Sálmunum segir að Jósef hafi þurft að líða enn frekar: „Þeir særðu fætur hans með fjötrum, settu háls hans í járn.“ (Sálmur 105:17, 18) Egyptar fjötruðu stundum fanga sína með olnboga fyrir aftan bak eða hlekkjuðu þá með járnhring um hálsinn. Mikið hlýtur Jósef að hafa þjáðst vegna þessarar illu meðferðar, sérstaklega í ljósi þess að hann var blásaklaus.
staður. (Í ofanálag stóðu þessir erfiðleikar ekki aðeins yfir í stuttan tíma. Samkvæmt frásögunni var Jósef „hafður í haldi“ í fangelsinu. Hann var árum saman í þessari hræðilegu prísund. * Og hann hafði ekki hugmynd um hvort hann myndi nokkurn tíma losna úr fangelsinu. Hvernig tókst honum að halda í vonina og þrauka eftir að fyrsta áfallið leið hjá og dagarnir urðu að vikum og vikurnar að mánuðum?
Frásagan svarar því með uppörvandi hætti: „Drottinn var með Jósef, auðsýndi honum miskunn [eða kærleika].“ (1. Mósebók 39:21) Hvorki fangelsismúrar, fjötrar né dimmar dýflissur koma í veg fyrir að kærleikur Jehóva nái til þjóna hans. (Rómverjabréfið 8:38, 39) Við sjáum kannski Jósef fyrir okkur þar sem hann úthellir sálarangist sinni í bæn fyrir ástkærum föður sínum á himni og fær þann frið og ró sem einungis „Guð allrar huggunar“ getur veitt. (2. Korintubréf 1:3, 4; Filippíbréfið 4:6, 7) Hvað annað gerði Jehóva fyrir Jósef? Frásagan segir að Jehóva hafi látið Jósef „finna náð í augum fangelsisstjórans“.
Fangarnir voru augljóslega látnir vinna ýmis verk og þar með fékk Jósef tækifæri til að gefa Jehóva aftur eitthvað til að blessa. Jósef lagði hart að sér við að vinna vel öll þau verk sem honum voru falin og lagði framhaldið í hendur Jehóva. Jehóva blessaði Jósef og fyrir vikið ávann Jósef sér traust og virðingu annarra, eins og hann hafði gert þegar hann vann fyrir Pótífar. Frásagan segir: „[Fangelsisstjórinn] setti Jósef yfir alla hina fangana og gerði hann ábyrgan fyrir allri vinnu í fangelsinu. Fangelsisstjórinn þurfti ekki að skipta sér af neinu sem Jósef var trúað fyrir því að Drottinn var með honum. Allt sem hann tók sér fyrir hendur lét Drottinn lánast honum.“ (1. Mósebók 39:22, 23) Mikið hlýtur það að hafa verið hughreystandi fyrir Jósef að finna svona greinilega fyrir umhyggju Jehóva.
Við lendum kannski í ýmsum áföllum og erfiðleikum í lífinu og verðum jafnvel fyrir hræðilegu óréttlæti en við getum þó lært af Jósef og líkt eftir trú hans. Ef við biðjum oft og innilega til Jehóva, hlýðum boðum hans í einu og öllu og leggjum okkur fram um að gera það sem er rétt í augum hans gefum við honum eitthvað til að blessa. Jósef átti jafnvel enn meiri blessun í vændum frá Jehóva, eins og við munum sjá síðar í þessum greinaflokki.
^ gr. 23 Frásaga Biblíunnar gefur til kynna að Jósef hafi verið um 17 eða 18 ára gamall þegar hann var færður inn á heimili Pótífars og að hann hafi líklega verið þar í nokkur ár. Hann var þrítugur þegar honum var sleppt úr fangelsinu. – 1. Mósebók 37:2; 39:6; 41:46.