SAMRÆÐUR UM BIBLÍUNA
Af hverju ættirðu að kafa dýpra í Biblíuna?
Hér á eftir fara fram dæmigerðar samræður sem vottar Jehóva eiga við fólk. Við skulum gera okkur í hugarlund að vottur, sem heitir Bragi, hafi bryddað upp á samræðum við mann sem heitir Egill.
BIBLÍAN – SÖGULEGA NÁKVÆM
Egill: Ég vil bara láta þig vita strax að ég er ekkert sérstaklega trúaður og þess vegna ættirðu kannski að tala við einhvern annan en mig.
Bragi: Takk fyrir að vera svona hreinskilinn við mig. Ég heiti Bragi, mætti ég fá að spyrja hvað þú heitir?
Egill: Já, ég heiti Egill.
Bragi: Það er ánægjulegt að hitta þig, Egill.
Egill: Sömuleiðis.
Bragi: Mætti ég spyrja þig hvort þú hafir einhvern tíma verið trúaður?
Egill: Já, ég var trúaður sem barn en þegar ég flutti að heiman og fór í háskóla hætti ég eiginlega að spá í trúmál.
Bragi: Ég skil. Hvað ertu að læra í háskólanum?
Egill: Ég er að læra félagsfræði og sagnfræði. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á mannkynssögu og því hvernig mannlegt samfélag hefur breyst í gegnum tíðina.
Bragi: Mannkynssagan er sérlega áhugaverð. Eins og þú kannski veist er greint frá sögu mannkyns í Biblíunni. Hefurðu haft tækifæri til að skoða hana þegar þú hefur verið að viða að þér upplýsingum?
Egill: Nei, í rauninni ekki. Mér finnst Biblían góð bók en ég hef samt aldrei litið á hana sem sagnfræðiheimild.
Bragi: Þú virðist vera maður sem nálgast málin með opnum huga. Ef þú hefur fáeinar mínútur langar mig til að sýna þér nokkur dæmi um það hvernig Biblían er sögulega nákvæm.
Egill: Það er allt í lagi, en ég er ekki með neina biblíu.
Bragi: Ekkert mál. Ég get sýnt þér í biblíunni minni. Fyrsta dæmið er hérna í 1. Kroníkubók kafla 29, versum 26 og 27. Hér segir: „Davíð Ísaíson var konungur yfir öllum Ísrael. Hann ríkti yfir Ísrael fjörutíu ár, sjö ár í Hebron og þrjátíu og þrjú ár í Jerúsalem.“
Egill: Hvernig sýnir þetta fram á að Biblían sé sögulega nákvæm?
Bragi: Jú, um tíma fullyrtu gagnrýnendur að Davíð konungur hefði aldrei verið til.
Egill: Nú, af hverju gerðu þeir það?
Bragi: Það fundust eiginlega engar aðrar heimildir, fyrir utan það sem stendur í Biblíunni, um að hann hefði verið til. En árið 1993 fundu fornleifafræðingar ævagamlan stein með áletrun þar sem talað er um „ætt Davíðs“ og „konung Ísraels“.
Egill: Það er áhugavert.
Bragi: Margir efuðust líka um að Pontíus Pílatus hefði verið til en að sögn Biblíunnar var hann landstjóri á dögum Jesú. Sjáðu hérna í Lúkasi kafla 3 og versi 1. Hér er minnst á Pílatus og fleiri opinbera embættismenn þess tíma.
Egill: Já, ég sé það. Hér segir að „Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu en Heródes fjórðungsstjóri í Galíleu“.
Bragi: Einmitt. Lengi vel efuðust fræðimenn um að Pontíus Pílatus hefði verið til. En fyrir um það bil 50 árum fannst forn steinn í Miðausturlöndum og á hann hafði nafn Pílatusar verið meitlað.
Egill: Já, ókei. Ég hef ekki heyrt þetta áður.
Bragi: Það er gaman að geta sagt þér frá þessu.
Egill: Ég hef reyndar alltaf litið á Biblíuna sem mikið bókmenntaverk en ég held ekki að hún hafi neitt gildi fyrir okkur nú á dögum. Ég efast hreinlega um að hún komi að miklum notum í lífinu þótt hún sé sögulega nákvæm.
BIBLÍAN – FORN BÓK SEM STENST TÍMANS TÖNN
Bragi: Margir eru eflaust sammála þér en ég er þó á annarri skoðun og ástæðan fyrir því er sú að grunnþarfir manna hafa ekkert breyst frá upphafi mannkyns. Við höfum alltaf haft þörf fyrir fæði, klæði og húsaskjól. Við höfum líka alltaf haft þörf fyrir að hafa samskipti við annað fólk og eiga gott fjölskyldulíf. Ertu ekki sammála því að við kunnum öll að meta slíka hluti?
Egill: Jú, ég er alveg sammála því.
Bragi: Biblían getur hjálpað okkur á öllum þessum sviðum. Þótt hún sé forn bók stenst hún tímans tönn.
Egill: Hvað áttu við?
Bragi: Með öðrum orðum, í Biblíunni eru mikilvægar meginreglur sem eiga jafn vel við nú á tímum og þær gerðu þegar þær voru færðar í letur fyrir mörgum öldum.
Í Biblíunni eru mikilvægar meginreglur sem eiga jafn vel við nú á tímum og þær gerðu þegar þær voru færðar í letur fyrir mörgum öldum.
Egill: Geturðu nefnt mér einhver dæmi?
Bragi: Já, meginreglur Biblíunnar geta hjálpað manni að hafa rétt viðhorf til peninga, eiga gott fjölskyldulíf eða vera góður vinur. Biblían er eins og götukort sem vísar manni leiðina að farsælu lífi. Ertu til dæmis ekki sammála því að það sé mikil áskorun nú á dögum að vera góður eiginmaður og fjölskyldufaðir?
Egill: Jú, ég get ekki sagt annað. Ég og konan mín höfum verið gift í um það bil ár og það hefur ekki alltaf verið auðvelt að komast að samkomulagi.
Bragi: Nei, einmitt. En Biblían hefur að geyma einfaldar meginreglur sem gagnast vel. Í 5. kaflanum í Efesusbréfinu finnum við prýðisdæmi um það. Mig langar til að sýna þér vers 21 til 23 og svo vers 28. Myndir þú vilja lesa þessi vers?
Egill: Já, ekkert mál. Hér segir: „Sýnið Kristi lotningu og hvert öðru auðsveipni: konurnar eiginmönnum sínum eins og Drottni. Því að maðurinn er höfuð konunnar eins og Kristur er höfuð og frelsari kirkjunnar, líkama síns.“ Og í versi 28 stendur: „Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami. Sá sem elskar konu sína elskar sjálfan sig.“
Bragi: Flott. Takk fyrir. Er það ekki svo að ef bæði hjónin færu eftir þessu einfalda ráði yrði fjölskyldulífið enn betra?
Egill: Jú, alveg örugglega. En það er nú hægara sagt en gert.
Bragi: Það er satt því að enginn er fullkominn. Reyndar erum við hvött annars staðar í Biblíunni til að vera sanngjörn. * Í öllum hjónaböndum þarf að ríkja ákveðið jafnvægi og bæði hjónin þurfa að vera viljug að gefa eftir. Konan mín og ég höfum komist að því að Biblían getur hjálpað okkur að finna þetta jafnvægi.
Egill: Ég verð nú að segja að þetta hljómar skynsamlega.
Bragi: Vottar Jehóva eru líka með vefsíðu þar sem finna má góð ráð sem geta hjálpað hjónum og fjölskyldum. Ef þú hefur fáeinar mínútur í viðbót langar mig að sýna þér vefsíðuna.
Egill: Já, allt í lagi, ég hef nokkrar mínútur enn þá.
Bragi: Slóðin að vefsíðunni er: www.pr418.com/is. Þetta er heimasíðan.
Egill: Þetta eru fallegar myndir.
Bragi: Þær sýna hvernig boðunarstarf okkar fer fram víða um heim. Og hérna er það sem ég ætlaði að sýna þér. Þessi flipi nefnist „Hjón og foreldrar“ og þegar ýtt er á hann birtast nokkrar stuttar greinar
sem hafa að geyma ýmsar góðar ráðleggingar. Vekur einhver þeirra áhuga þinn?Egill: Já, þessi hérna: „Að takast á við vandamál í hjónabandinu.“ Ég gæti vel hugsað mér að lesa hana.
Bragi: Í þessari grein eru gefin fjögur ráð sem sýna hvernig hægt er að greiða úr vandamálum. Myndir þú vilja lesa það sem stendur hérna?
Egill: Alveg sjálfsagt. Hér segir: „Ef tjáskipti eru lífæð hjónabandsins þá er kærleikur og virðing hjarta þess og lungu.“ Þetta er skemmtilega orðað.
Bragi: Hérna er líka vísað í Efesusbréfið kafla 5, vers 33. Ég skal fletta því upp í biblíunni minni. Mætti ég biðja þig um að lesa það líka?
Egill: Já, ég er til í það. Hér segir: „Hver og einn skal elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig en konan beri lotningu fyrir manni sínum.“
Bragi: Takk fyrir að lesa, Egill. Tókstu eftir að áherslan er lögð á að eiginmaðurinn gefi eiginkonunni það sem hún væntir að fá og að hún geri slíkt hið sama?
Egill: Ég skil ekki alveg hvað þú átt við.
Bragi: Er raunin ekki sú að eiginmaður vill finna að eiginkonan beri virðingu fyrir honum og að eiginkona vill vera fullvissuð um að eiginmaðurinn elski hana innilega?
Egill: Jú, ég tek undir það.
Bragi: Ef eiginmaðurinn leitar oft leiða til að sýna konunni sinni að hann elski hana er þá ekki auðveldara fyrir hana að sýna honum virðingu?
Egill: Það hlýtur að vera.
Bragi: Þannig að þetta eina stutta biblíuvers snertir þarfir beggja hjónanna og gefur gagnleg ráð sem virka, ef farið er eftir þeim, þótt það hafi verið fært í letur fyrir næstum 2.000 árum. Eins og stóð í greininni sem við skoðuðum áðan stuðlar þetta að því að „hjarta og lungu“ hjónabandsins eru heilbrigð.
Egill: Ég verð að játa að það er meira spunnið í Biblíuna en ég hélt.
Bragi: Það er gaman heyra, Egill. Ég er oft á ferðinni hérna og myndi gjarnan vilja hitta þig aftur og heyra hvað þér finnst um þessi fjögur ráð sem nefnd eru undir millifyrirsögninni „Ráð til að greiða úr vandamálum“ í þessari grein hérna á vefsíðunni. *
Egill: Já, það væri gaman. Ég ætla að skoða þetta betur með konunni minni.
Viltu fá svar við einhverri biblíuspurningu sem þú hefur velt fyrir þér? Langar þig til að vita meira um Votta Jehóva eða trú þeirra? Hikaðu þá ekki við að ræða um það næst þegar þú hittir einhvern þeirra. Vottum Jehóva væri sönn ánægja að svara spurningum þínum.
^ gr. 63 Nánari upplýsingar er að finna í 14. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? sem gefin er út af Vottum Jehóva.