LÍKJUM EFTIR TRÚ ÞEIRRA | JÓSEF
„Er það ekki Guðs að ráða drauma?“
JÓSEF gekk eftir dimmum ganginum rennblautur af svita eftir að hafa unnið baki brotnu í kæfandi hitanum. Fyrir utan skein sólin hátt á himni og geislar hennar breyttu egypska fangelsinu í hálfgerðan bræðsluofn. Jósef fannst hann þekkja hvern einasta múrstein og hverja einustu sprungu í veggjunum því að veröld hans takmarkaðist nú við þennan eina stað. Hann var reyndar mikils metinn í fangelsinu en það breytti ekki þeirri staðreynd að hann var fangi.
Eflaust hefur Jósef oft leitt hugann að því hvernig lífið var þegar hann bjó með fjölskyldu sinni og annaðist hjarðir föður síns á klettahæðunum við Hebron. Hann var um 17 ára þegar Jakob, faðir hans, sendi hann til að vitja bræðra hans sem voru staddir tugi kílómetra frá Hebron. Slíkt frelsi virtist núna vera fjarlægur draumur. Bræður Jósefs öfunduðu hann og smám saman hafði öfundin breyst í hatur. Þeir réðust á hann og ætluðu sér að drepa hann en seldu hann þó að lokum sem þræl. Jósef hafði verið fluttur suður til Egyptalands og í fyrstu var hann þræll á heimili Pótífars sem var egypskur hirðmaður. Jósef naut trausts húsbónda síns allt þar til eiginkona húsbóndans ásakaði hann ranglega um að hafa reynt að nauðga henni og það varð til þess að Jósef var varpað í fangelsið. * – 1. Mósebók kaflar 37, 39.
Jósef var nú orðinn 28 ára og hafði verið þræll og fangi í hér um bil áratug. Það er óhætt að segja að líf hans hafði farið á allt annan veg en hann vildi. Yrði hann einhvern tíma frjáls maður? Ætti hann eftir að hitta aftur aldraðan föður sinn, sem hann elskaði svo heitt, eða Benjamín, ástkæran yngri bróður sinn? Hversu lengi þyrfti hann að vera í þessari dýflissu?
Hefur þér einhvern tíma liðið eins og Jósef? Stundum fer lífið á allt annan veg en við höfðum vonast til þegar við vorum yngri. Sársaukafullar aðstæður virðast kannski engan enda ætla að taka og það getur verið erfitt að sjá leið út úr ógöngunum eða finna styrk til að halda út. Hvað getum við lært af trú Jósefs? Við skulum líta nánar á það.
„DROTTINN VAR MEÐ JÓSEF“
Jósef vissi að Jehóva, Guð hans, fylgdist alltaf með honum og sú vitneskja hjálpaði honum eflaust að vera þolgóður. Og jafnvel hér í þessari dýflissu í ókunnu landi fann Jehóva leiðir til að blessa Jósef. Frásagan segir: „Drottinn var með Jósef, auðsýndi honum miskunn og lét hann finna náð í augum fangelsisstjórans.“ (1. Mósebók 39:21-23) Þótt Jósef væri í fangelsi hélt hann áfram að vinna hörðum höndum og gaf þannig Guði sínum ástæðu til að blessa sig. Mikið hlýtur það að hafa verið hughreystandi fyrir Jósef að vita að Jehóva væri alltaf með honum!
Hafði Jehóva í hyggju að láta Jósef dvelja í fangelsinu um ókomna tíð? Jósef hafði enga hugmynd um það en eflaust hefur hann þó oft talað um það við Guð sinn í bæn. Og eins og oft vill verða kom svarið með afar óvæntum hætti. Dag einn varð uppi fótur og fit í fangelsinu þegar inn var varpað tveim mönnum sem höfðu verið hátt settir við hirð faraós. Annar þeirra var yfirbakari konungsins og hinn var yfirbyrlari hans. – 1. Mósebók 40:1-3.
* Nótt eina dreymdi þá báða sérkennilegan draum. Þegar Jósef sá þá morguninn eftir áttaði hann sig strax á að eitthvað hafði gerst. Hann spurði þá þess vegna: „Hvers vegna eruð þið svo daprir í bragði í dag?“ (1. Mósebók 40:3-7) Kannski var það vegna þess hve Jósef var vingjarnlegur að mennirnir skynjuðu að þeim væri óhætt að treysta honum fyrir áhyggjum sínum. Jósef vissi það ekki þá en þessar samræður áttu eftir að valda þáttaskilum í lífi hans. En ætli samræðurnar hefðu átt sér stað ef Jósef hefði ekki kosið að vera vingjarnlegur við þessa menn? Fordæmi hans ætti að vera okkur hvatning til að spyrja okkur: „Læt ég trú mína á Guð í ljós með því að sýna öðru fólki vinsemd og áhuga?“
Lífvarðarforinginn fól Jósef að sjá um þessa áður hátt settu menn.Mennirnir tveir útskýrðu að þeim væri órótt vegna þessara sérkennilegu drauma og vegna þess að þarna væri enginn sem gæti ráðið þá. Draumar skiptu Egypta miklu máli og þeir reiddu sig algerlega á þá menn sem sögðust færir um að ráða drauma. Mennirnir tveir vissu ekki að draumarnir, sem þá dreymdi, væru frá Jehóva, Guði Jósefs. En Jósef vissi það. Hann sagði hughreystandi við þá: „Er það ekki Guðs að ráða drauma? Segið mér þó drauminn.“ (1. Mósebók 40:8) Það sem Jósef sagði hefur mikið vægi fyrir alla einlæga biblíunemendur nú á dögum. Það væri óskandi að allir sem trúa á Guð sýndu sömu auðmýkt og Jósef! Við þurfum að vera fús til að kyngja stoltinu, sem er svo ríkjandi í fari manna, og til að reiða okkur á Guð til að öðlast réttan skilning á orði hans. – 1. Þessaloníkubréf 2:13; Jakobsbréfið 4:6.
Byrlarinn tók fyrst til máls. Hann sagði Jósef frá því að hann hafði dreymt vínvið með þrem greinum sem á voru vínberjaklasar. Vínberin þroskuðust og byrlarinn kreisti safann úr þeim í bikar faraós. Jehóva opinberaði Jósef samstundis merkingu draumsins. Jósef sagði byrlaranum að greinarnar þrjár merktu þrjá daga og að þeim liðnum myndi faraó veita byrlaranum stöðu sína á ný. Þegar Jósef sá að feginssvipur breiddist yfir andlit byrlarans bað hann byrlarann: „Sýndu mér þann vináttuvott að nefna mig við faraó.“ Jósef sagði honum síðan að sér hafði verið rænt frá fjölskyldu sinni og varpað í fangelsi án þess að hafa nokkuð til saka unnið. – 1. Mósebók 40:9-15.
Þegar bakarinn heyrði að draumur byrlarans boðaði eitthvað gott varð hann vongóður og bað Jósef einnig að ráða drauminn sem hann hafði dreymt. Í draumnum hafði hann borið á höfðinu þrjár körfur með brauði og fuglar höfðu étið úr einni þeirra. Jósef var einnig veitt svarið við þessum undarlega draumi og það leiddi í ljós að ekkert gott var í vændum fyrir bakarann. Jósef sagði: „Ráðning draumsins er þessi: 1. Mósebók 40:16-19) Líkt og allir trúir þjónar Guðs opinberaði Jósef hugrakkur boðskap Guðs hvort sem hann fól í sér gleðifréttir eða yfirvofandi dóm. – Jesaja 61:2.
Körfurnar þrjár merkja þrjá daga. Að þrem dögum liðnum mun faraó hefja höfuð þitt af þér, festa þig á gálga og fuglarnir munu éta hold þitt.“ (Þrem dögum síðar rættust orð Jósefs. Faraó hélt afmælisveislu – en sá siður þekktist ekki meðal þjóna Guðs á biblíutímanum – og í veislunni kvað hann upp dóm yfir þessum tveim þjónum sínum. Bakarinn var tekinn af lífi, alveg eins og Jósef hafði sagt fyrir, en byrlarinn var hins vegar settur aftur í embætti sitt. Byrlarinn kærði sig þó kollóttann um Jósef og gleymdi honum með öllu. – 1. Mósebók 40:20-23.
„EKKI ER ÞAÐ Á MÍNU VALDI“
Heil tvö ár liðu. (1. Mósebók 41:1) Hugsaðu þér hve vonsvikinn Jósef hlýtur að hafa verið! Hann hafði kannski gert sér miklar vonir um að staða sín myndi breytast eftir að Jehóva hafði látið honum í té merkingu draumanna sem byrlarann og bakarann dreymdi. Kannski vaknaði Jósef hvern einasta dag með þá von í brjósti að nú væri runninn upp sá dagur að hann yrði leystur úr haldi. Hann komst þó fljótt að raun um að tilbreytingarlaust líf hans innan veggja fangelsisins gekk sinn vanagang og tíminn silaðist áfram. Þessi tvö ár hafa örugglega reynt heilmikið á þolgæði Jósefs. Hann hætti samt ekki að treysta á Jehóva, Guð sinn. Í stað þess að láta örvæntinguna ná tökum á sér var hann staðráðinn í að halda út og fyrir vikið kom hann enn sterkari út úr þessari eldraun. – Jakobsbréfið 1:4.
Er það ekki svo að við þurfum öll að þroska með okkur enn meira þolgæði nú á þessum erfiðu tímum? Til að geta tekist á við erfiðleika lífsins, sem fara stöðugt vaxandi, þurfum við þess konar staðfestu, þolinmæði og innri frið sem aðeins Guð getur veitt okkur. Jehóva hjálpaði Jósef og hann getur líka hjálpað okkur að láta ekki bugast heldur halda fast í vonina. – Rómverjabréfið 12:12; 15:13.
Þótt byrlarinn gleymdi Jósef gerði Jehóva það ekki. Nótt eina lét hann faraó dreyma tvo eftirminnilega drauma. Fyrst dreymdi faraó að sjö fallegar og vænar kýr kæmu upp úr ánni Níl. Á eftir þeim komu sjö ljótar og horaðar kýr. Horuðu kýrnar átu síðan vænu kýrnar. Eftir það dreymdi faraó að sjö væn öx yxu á einni kornstöng. Síðan spruttu önnur sjö grönn og skrælnuð öx og þau átu vænu öxin. Morguninn eftir vaknaði faraó órótt í skapi vegna draumanna og kallaði því til sín alla vitringana og spásagnarmennina og vildi að þeir segðu sér ráðningu draumanna. En enginn þeirra gat ráðið þá. (1. Mósebók 41:1-8) Var það vegna þess að þeir voru hreinlega ráðþrota eða vegna þess að skýringar þeirra stönguðust á? Við vitum það ekki með vissu en hvort heldur var brugðust þeir vonum faraós sem var orðinn örvæntingarfullur og þráði að fá draumana ráðna.
Loksins mundi byrlarinn eftir Jósef! Samviskan beit hann og hann sagði faraó frá þessum sérstaka, unga manni sem hann hafði kynnst í fangelsinu. Hann sagði faraó hvernig ungi maðurinn hafði tveim árum áður bæði ráðið draum hans og bakarans og hvernig orð hans höfðu ræst. Faraó lét strax sækja Jósef í fangelsið. – 1. Mósebók 41:9-13.
Ímyndaðu þér hvernig Jósef hlýtur að hafa liðið þegar sendiboðar konungs komu til að sækja hann. Hann skipti um föt í skyndi og rakaði sennilega af sér allt hárið, en það var venja meðal Egypta. Án efa bað hann Jehóva ákaft um að blessa sig þegar hann kæmi fram fyrir faraó. Fyrr en varði var hann kominn inn í íburðarmikinn hásætissal konungshallarinnar og stóð frammi fyrir einvaldinum. Í frásögunni segir: „Þá sagði faraó við hann: ,Mig dreymdi draum sem enginn hefur getað ráðið. En um þig hef ég heyrt að þú ráðir hvern þann draum sem þú heyrir.‘“ Svar Jósefs leiddi enn og aftur í ljós að hann var auðmjúkur maður sem trúði á Guð sinn. Hann sagði: „Ekki er það á mínu valdi en Guð mun veita faraó svar sem boðar honum heill.“ – 1. Mósebók 41:14-16.
Jehóva elskar þá sem eru auðmjúkir og trúfastir og því er ekki að undra að hann opinberaði Jósef merkingu draumanna sem höfðu valdið vitringunum og spásagnarmönnunum miklum heilabrotum. Jósef sagði að draumarnir tveir, sem faraó dreymdi, merktu eitt og hið sama. Með því að tvítaka boðskapinn í draumunum gaf Jehóva til kynna að þetta væri „fastráðið“, það er að segja að það myndi örugglega rætast. Vænu kýrnar og vænu öxin táknuðu sjö allsnægtaár í Egyptalandi en horuðu kýrnar og vesældarlegu öxin merktu sjö ára hungursneyð sem kæmi í 1. Mósebók 41:25-32.
kjölfar allsnægtaáranna. Birgðir góðu áranna myndu ganga til þurrðar í hungursneyðinni. –Faraó skildi að Jósef hafði rétt fyrir sér varðandi ráðningu draumanna. En hvað var hægt að gera? Jósef hvatti faraó til að gera viðeigandi ráðstafanir og leita að „hyggnum og vitrum“ manni og láta hann sjá um að safna í hlöður umframbirgðum af korni á allsnægtaárunum sjö. Þegar hungursneyðin kæmi síðan yfir landið sæi hann um að dreifa korninu til nauðstaddra. (1. Mósebók 41:33-36) Vegna reynslu sinnar og kunnáttu var Jósef öðrum fremur rétti maðurinn í starfið, en hann reyndi þó ekki að vekja athygli á sjálfum sér. Jósef var auðmjúkur maður sem trúði á Guð og því var slík framhleypni bæði óhugsandi og óþörf í hans huga. Ef við höfum ósvikna trú á Jehóva sjáum við enga þörf á því að vera framagjörn eða að upphefja sjálf okkur. Við getum lagt málin í öruggar hendur Jehóva og haft hugarfrið.
„ER ANNAN SLÍKAN MANN AÐ FINNA?“
Faraó og allir þjónar hans sáu viskuna í ráðum Jósefs. Konungurinn gerði sér einnig grein fyrir að viska Jósefs væri komin frá Guði hans. Faraó sagði við þjóna sína sem voru í hásætissalnum: „Er annan slíkan mann að finna sem Guðs andi býr í?“ En við Jósef sagði hann: „Af því að Guð hefur birt þér allt þetta þá er enginn svo hygginn og vitur sem þú. Ég set þig yfir hús mitt og öll þjóð mín mun hlýða þér. Aðeins hásætið hef ég fram yfir þig.“ – 1. Mósebók 41:38-41.
Faraó stóð við orð sín. Innan skamms var Jósef færður í dýrindislínklæði. Faraó gaf honum gullkeðju, innsiglishring, konunglegan vagn og veitti honum fullt vald til að fara um Egyptaland og hrinda áætlun sinni í framkvæmd. (1. Mósebók 41:42-44) Á aðeins einum degi höfðu aðstæður Jósefs gerbreyst. Þegar hann vaknaði um morguninn var hann bara lítilvægur fangi en þegar hann lagðist til svefns um kvöldið var hann næstur faraó að völdum. Nú lék enginn vafi á því að það hafði verið rétt af Jósef að leggja allt sitt traust á Jehóva Guð. Jehóva sá allt það óréttlæti sem þjónn hans hafði orðið fyrir í gegnum árin. Hann tók á málunum á hárréttum tíma og á fullkomlega réttan hátt. Jehóva hafði þó ekki aðeins í huga að leiðrétta óréttlætið, sem Jósef hafði orðið fyrir, heldur einnig að varðveita Ísraelsþjóðina sem enn var ekki mynduð. Síðar í þessum greinaflokki könnum við hvernig það fór.
Örvæntu ekki þótt þú þurfir að glíma við erfiðleika eða óréttlæti sem virðist engan enda ætla að taka. Mundu eftir Jósef. Hann var vingjarnlegur, auðmjúkur og þolgóður og missti aldrei trúna á Jehóva þrátt fyrir alla erfiðleikana. Þar með gaf hann Jehóva ríkulega ástæðu til að umbuna honum að lokum.
^ gr. 4 Sjá greinarnar „Líkjum eftir trú þeirra“ sem birtust í Varðturninum september-október 2014 og janúar-febrúar 2015.
^ gr. 10 Í Egyptalandi til forna var hægt að velja úr meira en 90 gerðum af brauði og kökum og því gegndi yfirbakarinn við hirð faraós mikilvægri stöðu. Yfirbyrlarinn hafði aftur á móti umsjón með hópi þjóna sem gætti þess að vínið, sem faraó drakk, og hugsanlega bjórinn líka væru í hæsta gæðaflokki. Þeir gættu þess einnig að enginn kæmist í þessar veigar til að eitra fyrir einvaldinum – en sú hætta var stöðugt fyrir hendi því að baktjaldamakk og launmorð voru tíð við konungshirðina. Það var ekki óalgengt að byrlarinn yrði traustur ráðgjafi konungsins.