SAMRÆÐUR UM BIBLÍUNA
Af hverju ættum við að minnast dauða Jesú?
Hér á eftir er dæmi um samræður sem vottar Jehóva eiga við fólk. Hugsum okkur að vottur, sem heitir Magnea, hafi bankað upp á hjá konu sem heitir Sigrún.
„GERIÐ ÞETTA Í MÍNA MINNINGU“
Magnea: Sæl, Sigrún. Það var virkilega gott að sjá þig á minningarhátíðinni um dauða Jesú Krists í síðustu viku. * Hvernig fannst þér samkoman?
Sigrún: Mér fannst hún mjög ánægjuleg en ég verð samt að viðurkenna að ég skildi ekki allt sem ræðumaðurinn sagði. Ég meina, fólk heldur upp á fæðingu Jesú á jólunum og fagnar upprisu hans á páskunum en ég hef aldrei heyrt um að fólk minnist dauða hans.
Magnea: Vissulega eru jól og páskar vinsælar hátíðir um allan heim. En Vottum Jehóva finnst mikilvægt að minnast dauða Jesú. Ef þú hefur nokkrar mínútur langar mig að útskýra af hverju okkur finnst það.
Sigrún: Já, ég hef smá tíma.
Magnea: Vottar Jehóva minnast dauða Jesú vegna þess að hann sagði fylgjendum sínum að gera það. Lítum aðeins á hvað gerðist kvöldið áður en Jesús dó. Þú manst kannski eftir að hafa heyrt að Jesús og trúir fylgjendur hans neyttu sérstakrar máltíðar saman?
Sigrún: Já, ertu að tala um síðustu kvöldmáltíðina?
Magnea: Já, einmitt. Hún er einnig kölluð kvöldmáltíð Drottins. Meðan á henni stóð gaf Jesús fylgjendum sínum skýr fyrirmæli. Myndir þú vilja lesa það sem hann sagði hér í Lúkasi 22:19?
Sigrún: Já, allt í lagi. Hér segir: „Og hann tók brauð, gerði þakkir, braut það, gaf þeim og sagði: ,Þetta er líkami minn sem fyrir yður er gefinn. Gerið þetta í mína minningu.‘“
Magnea: Takk fyrir. Taktu eftir hvað Jesús sagði í síðustu setningunni í þessu biblíuversi: „Gerið þetta í mína minningu.“ Og stuttu áður en hann sagði fylgjendum sínum að minnast sín sagði hann skýrt hvers þeir ættu að minnast í tengslum við hann. Hann sagði þeim að lífi sínu yrði fórnað í þágu fylgjenda sinna. Hann gaf það líka til kynna með orðum sínum í Matteusi 20:28 en þar segir: „Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“ Ástæðan fyrir því að Vottar Jehóva halda sérstaka samkomu á dánardegi Jesú er sú að þeir vilja minnast lausnarfórnarinnar sem hann færði. Dauði Jesú gerir öllum hlýðnum mönnum kleift að öðlast líf.
HVERS VEGNA VAR ÞÖRF Á LAUSNARGJALDI?
Sigrún: Já, fólk talar um að Jesús hafi dáið svo að við getum öðlast líf en ég skil samt ekki hvernig það er mögulegt.
Magnea: Nei, það er skiljanlegt. Lausnarfórn Jesú felur í sér djúpstæð sannindi en þau eru jafnframt ein fegurstu sannindin í orði Guðs. Hefurðu annars fáeinar mínútur í viðbót?
Sigrún: Já, já.
Magnea: Það er fínt. Ég hef verið að lesa dálítið um lausnargjaldið og ég skal reyna að útskýra það á einfaldan hátt.
Sigrún: Ókei.
Magnea: Til þess að geta skilið þýðingu lausnargjaldsins verðum við fyrst að átta okkur á hvaða afleiðingar það hafði að Adam og Eva syndguðu í Edengarðinum. Við sjáum það ef við lesum saman Rómverjabréfið 6:23. Mætti ég biðja þig um að lesa versið?
Sigrún: Já. Hér segir: „Laun syndarinnar er dauði en náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum.“
Magnea: Takk fyrir. Við skulum kanna betur þessi orð. Lítum fyrst á hvernig versið byrjar: „Laun syndarinnar er dauði.“ Guð setti mönnunum þetta einfalda lögmál í upphafi mannkynssögunnar: Launin, það er refsingin, fyrir syndina er dauði. Í upphafi var syndin ekki til. Adam og Eva voru sköpuð fullkomin og öll börnin þeirra áttu að vera fullkomin frá fæðingu. Þannig að enginn hefði í rauninni þurft að deyja. Adam og Eva, og allir afkomendur þeirra, áttu í vændum unaðslegt líf um alla eilífð. En eins og við vitum fóru hlutirnir á annan veg. Manstu hvað gerðist?
Sigrún: Já, Adam og Eva borðuðu forboðna ávöxtinn.
Magnea: Það er alveg rétt. Og þegar þau gerðu það, það er að segja þegar þau völdu að óhlýðnast Guði, þá syndguðu þau. Þau völdu því sjálf að verða ófullkomin og syndug. Þessi ákvörðun átti eftir að hafa hræðilegar afleiðingar, ekki aðeins fyrir Adam og Evu heldur einnig fyrir alla afkomendur þeirra.
Sigrún: Hvað áttu við?
Magnea: Ég get kannski lýst þessu betur með dæmi. Má ég spyrja þig, finnst þér gaman að baka?
Sigrún: Já, mér finnst það mjög gaman.
Magnea: Segjum að þú eigir glænýtt brauðform. En áður en þú hefur fengið tækifæri til að nota það dettur það í gólfið og beyglast. Hvernig heldurðu að brauðin verði sem þú bakar síðan í því? Verða þau þá ekki líka beygluð?
Sigrún: Jú, auðvitað.
Magnea: Eftir að Adam og Eva völdu að óhlýðnast Guði urðu þau á svipaðan hátt „beygluð“, það er að segja gölluð, vegna syndar og ófullkomleika. Og þar sem þau syndguðu áður en þau eignuðust börn myndu allir afkomendur þeirra fæðast með sömu „beyglu“. Þeir yrðu allir syndugir frá fæðingu. Þegar talað er um „synd“ í Biblíunni er ekki einungis átt við verknað heldur einnig það ástand sem við höfum fengið í arf. Þótt þú og ég hefðum ekki gert neitt rangt af okkur – við vorum ekki einu sinni fæddar þegar Adam og Eva syndguðu – erfðum við samt syndina. Það er vegna þess að með óhlýðni sinni kölluðu þau yfir alla afkomendur sína, þar á meðal okkur og okkar börn, ófullkomleika og synd sem hefur dauða í för með sér. Eins og við lásum áðan í Rómverjabréfinu 6:23 eru laun syndarinnar dauði.
Sigrún: En er það ekki ósanngjarnt? Hvers vegna þarf allt mannkynið að þjást vegna þess að Adam og Eva syndguðu?
Magnea: Það er alveg rétt, það virðist ósanngjarnt. En þar með er ekki öll sagan sögð. Guð, sem er fullkomlega réttlátur, ákvað að Adam og Eva skyldu deyja vegna syndar sinnar en að afkomendur þeirra yrðu þó ekki án vonar. Guð opnaði leið fyrir okkur út úr þessu hörmulega ástandi. Þar kemur lausnarfórn Jesú inn í myndina. Lítum aftur á Rómverjabréfið 6:23. Eftir að hafa sagt að ,laun syndarinnar sé dauði‘ segir áfram: „En náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum.“ Dauði Jesú gerir okkur því mögulegt að losna undan synd og dauða. *
LAUSNARFÓRNIN – MESTA GJÖF GUÐS
Magnea: Mig langar til að sýna þér annað atriði sem kemur fram í þessu versi.
Sigrún: Nú, hvað er það?
Magnea: Taktu eftir að hérna segir: „Náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum.“ Hvers vegna segir að lausnarfórnin sé „náðargjöf Guðs“ fyrst það var Jesús sem þjáðist og dó og fórnaði þannig lífi sínu fyrir okkur? Hvers vegna stendur ekki að lausnarfórnin sé „náðargjöf Jesú“? *
Sigrún: Hmm, ég veit það ekki.
Magnea: Það var Jehóva Guð sem skapaði Adam og Evu og þau syndguðu því gegn honum þegar þau óhlýðnuðust í Edengarðinum. Það hlýtur að hafa sært hann mikið þegar þessi fyrstu jarðnesku börn hans gerðu uppreisn gegn honum. En Jehóva sagði strax hvað hann ætlaði að gera til að leysa vandann. * Hann ætlaði að láta einn af andasonum sínum koma til jarðar og lifa þar sem fullkominn maður og að lokum gefa líf sitt sem lausnarfórn. Því má segja að það sé Guð sem greiddi lausnargjaldið. En það er líka með öðrum hætti sem lausnarfórnin er gjöf frá Guði. Hefurðu einhvern tíma hugleitt hvernig Guði hlýtur að hafa liðið þegar Jesús var tekinn af lífi?
Sigrún: Nei, ég hef nú ekki gert það.
Magnea: Ég sé að það eru leikföng hérna við dyrnar. Átt þú börn?
Sigrún: Já, ég á tvö börn. Stelpu og strák.
Magnea: Þar sem þú ert foreldri geturðu kannski sett þig í spor Jehóva, himnesks föður Jesú, og ímyndað þér hvernig honum leið þegar Jesús dó. Hvernig ætli honum hafi liðið þegar hann sá að ástkær sonur sinn var handtekinn, hæddur og barinn? Og hvernig heldurðu að honum hafi liðið þegar sonur hans var negldur á tréstaur og látinn deyja þar hægum og kvalafullum dauða?
Sigrún: Honum hlýtur að hafa liðið mjög illa. Ég hef aldrei hugsað út í það áður.
Magnea: Við getum auðvitað ekki vitað nákvæmlega hvernig Guði leið þennan dag. En við vitum þó að hann er tilfinningaríkur og við vitum líka hvers vegna hann leyfði öllu þessu að eiga sér stað. Það er útskýrt fyrir okkur með hjartnæmum hætti í vel þekktu biblíuversi, Jóhannesi 3:16. Myndir þú vilja lesa það?
Sigrún: Já, hér stendur: „Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“
Lausnarfórnin er mesta kærleiksverk sögunnar.
Magnea: Takk fyrir. Lítum aftur á hvað segir í byrjun versins: „Svo elskaði Guð heiminn.“ Hér kemur fram að kærleikur er lykilatriðið. Guð elskar okkur mennina og þess vegna sendi hann son sinn til jarðar til að deyja fyrir okkur. Lausnarfórnin er því mesta kærleiksverk sögunnar. Það er það sem Vottar Jehóva minnast ár hvert á dánardegi Jesú. Finnst þér þú skilja þetta örlítið betur núna?
Sigrún: Já, mér finnst það. Þakka þér kærlega fyrir að taka þér tíma til að útskýra þetta svona vel fyrir mér.
Viltu fá svar við einhverri biblíuspurningu sem þú hefur velt fyrir þér? Langar þig til að vita meira um Votta Jehóva eða trú þeirra? Hikaðu þá ekki við að ræða um það næst þegar þú hittir einhvern þeirra. Vottum Jehóva væri sönn ánægja að svara spurningum þínum.
^ gr. 5 Á hverju ári halda Vottar Jehóva sérstaka samkomu á dánardegi Jesú til að minnast þess að hann fórnaði lífi sínu fyrir mennina. Í ár bar dánardag hans upp á föstudaginn 3. apríl 2015.
^ gr. 32 Seinna í þessum greinaflokki verður rætt um hvernig lausnarfórn Jesú frelsar mannkynið undan syndinni og hvað við þurfum að gera til að njóta góðs af lausnarfórninni.
^ gr. 36 Biblían kennir að Guð og Jesús séu tveir einstaklingar. Nánari upplýsingar er að finna í 4. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? sem gefin er út af Vottum Jehóva.
^ gr. 38 Sjá 1. Mósebók 3:15.