Að eldast með reisn
HVERNIG hugsar þú um það að eldast? Margir fyllast kvíða, áhyggjum eða jafnvel ótta. Ástæðan er oftast sú að margir líta neikvæðum augum á það sem gerist þegar þeir eldast. Þeir hugsa um ellihrukkur, veikburða líkama, minnisleysi og langvinna sjúkdóma.
Það er hins vegar afar misjafnt hvernig fólk eldist. Sumir eru við þokkalega góða heilsu á efri árum, bæði líkamlega og andlega. Vegna framfara í læknavísindum er hægt að meðhöndla suma langvinna sjúkdóma eða halda þeim í skefjum. Í sumum löndum fjölgar þar af leiðandi fólki sem lifir löngu og heilbrigðu lífi.
Hvort sem ellinni fylgja heilsuvandamál eða ekki vilja flestir eldast með reisn. Hvernig er það hægt? Að hluta til veltur það á viðhorfi okkar og því hvort við séum fús til að aðlaga okkur að þessum nýja kafla í lífinu. Skoðum nokkur einföld og gagnleg ráð sem Biblían hefur að geyma og hvernig þau geta hjálpað þegar aldurinn færist yfir.
VERTU HÓGVÆR: „Hjá hinum hógværu er viska.“ (Orðskviðirnir 11:2) Í þessu samhengi geta ,hinir hógværu‘ merkt aldraða einstaklinga sem eru meðvitaðir um þau takmörk sem aldurinn setur þeim og sætta sig við þau í stað þess að afneita þeim eða hunsa þau. Charles, sem er 93 ára og býr í Brasilíu, segir: „Ef þú lifir lengi kemstu ekki hjá því að eldast. Þú getur ekki spólað til baka.“
Að vera hógvær þýðir samt ekki að þú gefist upp og hugsir: „Ég er orðinn gamall og hef því engan tilgang lengur.“ Slíkt hugarfar getur dregið úr lífslönguninni. „Látir þú hugfallast á degi neyðarinnar er máttur þinn lítill,“ segir í Orðskviðunum 24:10. Sá sem er hógvær sýnir visku með því að vera jákvæður og gera sitt besta miðað við aðstæður sínar.
Corrado er 77 ára og býr á Ítalíu. Hann segir: „Þegar maður keyrir upp brekku þarf maður að skipta um gír svo að vélin drepi ekki á sér.“ Það er einnig nauðsynlegt að gera ýmsar breytingar þegar aldurinn færist yfir. Corrado og eiginkona hans hafa áttað sig á að þau þurfa að sýna skynsemi þegar kemur að heimilisstörfunum. Þau taka sér ekki of mikið fyrir hendur svo að þau séu ekki úrvinda í lok dags. Marian er 81 árs og býr í Brasilíu.
„Ég reyni að fara ekki fram úr sjálfri mér,“ segir hún. „Þegar á þarf að halda hvíli ég mig á milli verkefna og sest eða leggst niður til að lesa eða hlusta á tónlist. Ég geri mér grein fyrir hver takmörk mín eru og virði þau.“GÆTTU JAFNVÆGIS: „Konur séu látlausar í klæðaburði.“ (1. Tímóteusarbréf 2:9) Orðalagið „látlausar í klæðaburði“ lýsir jafnvægi og góðum smekk. Barbara, 74 ára frá Kanada, segir: „Ég vil vera vel til fara og snyrtileg. Þótt ég sé farin að eldast langar mig ekki að vera púkaleg eða virðast standa á sama um hvernig ég lít út.“ Fern, sem er 91 árs og býr í Brasilíu, segir: „Ég kaupi mér stundum ný föt til að hressa upp á sjálfstraustið.“ En hvað um eldri menn? „Ég reyni ávallt að líta sem best út og geng í hreinum og óslitnum fötum,“ segir Antônio, 73 ára brasilískur maður. Hann bætir við: „Ég fer daglega í sturtu og raka mig.“
Hins vegar er mikilvægt að vera ekki svo upptekinn af útlitinu að öll heilbrigð skynsemi fjúki út í veður og vind. Bok-im, sem er 69 ára og býr í Suður-Kóreu, reynir að gæta jafnvægis þegar kemur að fatavali. Hún segir: „Ég geri mér fulla grein fyrir að það hæfir mér ekki lengur að klæðast sumum af þeim fötum sem ég notaði þegar ég var yngri.“
TEMDU ÞÉR JÁKVÆTT HUGARFAR: „Hinn volaði sér aldrei glaðan dag, en sá sem vel liggur á, er sífellt í veislu.“ (Orðskviðirnir 15:15, Biblían 1981) Þegar aldurinn færist yfir gætirðu fundið fyrir neikvæðum tilfinningum þegar þú hugsar til baka um æskuþróttinn og alla þá hluti sem þú gast áður gert. Það er skiljanlegt. Reyndu samt að láta ekki neikvæðar tilfinningar ná yfirhöndinni. Ef þú hugsar of mikið um fortíðina gætirðu orðið niðurdreginn og það getur aftrað þér frá því að gera þá hluti sem þú ert enn fær um að gera. Joseph, sem er 79 ára Kanadamaður, lítur á björtu hliðarnar: „Ég reyni að njóta þeirra hluta sem ég get enn gert í stað þess að harma það sem ég get ekki lengur gert.“
Að lesa og læra eitthvað nýtt getur líka hjálpað þér að vera jákvæður og víkkað sjónadeildarhringinn. Vertu því vakandi fyrir tækifærum til að lesa og læra eitthvað nýtt. Ernesto, sem er 74 ára og býr á Filippseyjum, fer oft á bókasafnið til að finna sér áhugaverðar bækur. Hann segir: „Ég hef enn gaman af að upplifa ævintýri í gegnum bækurnar og ferðast þannig á nýjar slóðir.“ Lennart, 75 ára frá Svíþjóð, steig jafnvel það erfiða skref að læra nýtt tungumál.
TEMDU ÞÉR GJAFMILDI: „Gefið og yður mun gefið verða.“ (Lúkas 6:38) Vendu þig á að sýna öðrum örlæti og gefa af tíma þínum og kröftum. Það veitir þér fullnægjukennd og ánægju. Hosa, 85 ára frá Brasilíu, leggur sig fram um að hjálpa öðrum þrátt fyrir heilsubrest. Hún segir: „Ég hringi í vini mína þegar þeir eru veikir eða líður illa og skrifa þeim bréf. Stundum gef ég þeim litlar gjafir. Mér finnst líka gaman að elda mat eða búa til eftirrétt handa þeim.“
Gjafmildi smitar út frá sér. „Þegar maður sýnir öðrum væntumþykju bregðast þeir við með því að sýna manni ástúð og umhyggju,“ segir Jan sem er 66 ára Svíi. Ef við erum örlát sköpum við hlýlegt andrúmsloft sem aðrir kunna að meta.
SÝNDU ÖÐRUM VINSEMD: „Sérlyndur maður fer að eigin geðþótta og hafnar hverju hollráði.“ (Orðskviðirnir 18:1) Þó að þig langi stundum að vera í einrúmi skaltu forðast að einangra þig eða draga þig í hlé. Innocent, sem er 72 ára og er frá Nígeríu, nýtur þess að vera með vinum. „Ég hef mikla ánægju af að vera með fólki á öllum aldri,“ segir hún. Börje, sem er 85 ára frá Svíþjóð, segir: „Ég sækist eftir félagsskap unga fólksins. Lífsgleði þeirra fær mig til að finnast ég ungur á ný – að minnsta kosti í anda.“ Taktu frumkvæði að því að bjóða vinum heim af og til. Han-sik er 72 ára maður frá Suður-Kóreu. Hann segir: „Okkur hjónunum finnst gaman að bjóða heim vinum – bæði unglingum og eldra fólki – annað hvort í mat eða bara til að njóta samverunnar.“
Vingjarnlegt fólk hefur ánægju af að tala við aðra. En mundu að samskipti snúast líka um að hlusta. Leggðu þig því fram um að sýna öðrum einlægan áhuga. Helena, sem er 71 árs og býr í Mósambík, segir: „Ég sýni öðrum vinsemd og virðingu. Ég hlusta vel þegar þeir tala til þess að komast að því hvað þeir eru að hugsa og hverju þeir hafa áhuga á.“ José, 73 ára frá Brasilíu, segir: „Fólk nýtur nærveru þeirra sem hlusta vel – þeirra sem eru skilningsríkir, áhugasamir um aðra, hrósa þegar við á og hafa góða kímnigáfu.“
Gættu þess að ,mál þitt sé ætíð ljúflegt‘ þegar þú tjáir þig. (Kólossubréfið 4:6) Vertu hugulsamur og uppörvandi.
SÝNDU ÞAKKLÆTI: „Verið þakklát.“ (Kólossubréfið 3:15) Þegar aðrir rétta þér hjálparhönd skaltu sýna að þú kunnir að meta það. Vináttubönd styrkjast þegar við sýnum þakklæti okkar. „Við hjónin fluttum nýlega í annað húsnæði. Margir vinir okkar komu og hjálpuðu okkur. Við vorum mjög þakklát fyrir það. Við sendum þeim öllum þakkarkort og höfum boðið nokkrum þeirra í mat síðan,“ segir Marie-Paule sem er 74 ára og býr í Kanada. Jae-won, 76 ára frá Suður-Kóreu, kann vel að meta að fá far á samkomur. Hún segir: „Ég er mjög þakklát fyrir alla hjálpina sem ég fæ og þess vegna býðst ég til að taka þátt í bensínkostnaðinum. Stundum útbý ég litlar gjafir og skrifa þakkarkort.“
Umfram allt skulum við vera þakklát fyrir lífið. Hinn vitri konungur Salómon skrifaði: „Lifandi hundur er betri en dautt ljón.“ (Prédikarinn 9:4) Já, ef þú ræktar með þér rétt hugarfar og ert fús til að laga þig að breyttum aðstæðum geturðu elst með reisn.