LÍKJUM EFTIR TRÚ ÞEIRRA | TÍMÓTEUS
„Elskað og trútt barn mitt í samfélagi við Drottin“
TÍMÓTEUS gengur ákveðnum skrefum og horfir eftirvæntingarfullur fram á veginn. Hann er á leið að heiman og ferðafélagar hans vísa leiðina er þeir ganga yfir akrana sem Tímóteus þekkir svo vel. Smám saman fjarlægjast þeir Lýstru, borg sem stendur á lítilli hæð í dalnum. Tímóteus brosir þegar hann hugsar til mömmu sinnar og ömmu þar sem þær horfa stoltar á eftir honum og reyna að halda aftur af tárunum. Ætti hann að snúa sér við og vinka einu sinni enn í kveðjuskyni?
Af og til snýr Páll sér að Tímóteusi og brosir hvetjandi til hans. Hann veit að Tímóteus er enn dálítið feiminn en það gleður hann að sjá ákafa þessa unga manns. Tímóteus er hugsanlega í kringum tvítugt. Hann ber mikla virðingu fyrir Páli og þykir innilega vænt um hann. Og nú á hann eftir að ferðast langan veg frá heimahögunum með þessum kraftmikla og trúfasta manni. Þeir eiga eftir að ferðast fótgangandi og sjóleiðis og lenda í ótal hættum á leiðinni. Tímóteus veit ekki með vissu hvort hann eigi nokkurn tíma eftir að koma aftur heim.
Hvað fékk þennan unga mann til að taka þessa lífsstefnu? Hvaða blessanir biðu hans sem gerðu fórnirnar þess virði að færa þær? Og hvernig getur trú Tímóteusar styrkt okkar trú?
„FRÁ BLAUTU BARNSBEINI“
Förum aftur í tímann um tvö til þrjú ár og gefum okkur að Lýstra hafi verið heimaborg Tímóteusar – sem er sennilegt. Hún var lítil og fábrotin borg í afskekktum en gróðursælum dal. Borgarbúar töluðu enn mál þessa svæðis, lýkaónsku, þó að þeir hafi sennilega skilið grísku. Dag einn komst borgin í uppnám þegar tveir trúboðar, Páll postuli og Barnabas, komu frá Íkóníum sem var stærri borg í nágrenninu. Þegar þeir voru að boða trúna opinberlega kom Páll auga á lamaðan mann og sá að hann hafði sterka trú. Hann gerði kraftaverk á honum og læknaði hann. – Postulasagan 14:5-10.
Margir íbúar Lýstru trúðu greinilega algengum goðsögnum á þessu svæði um að guðir í mannsmynd hefðu komið þangað fyrr á tímum. Fólkið hélt því að Páll væri Hermes og Barnabas Seifur. Þessum auðmjúku kristnu mönnum tókst með naumindum að fá fólk ofan af því að færa þeim fórnir. – Postulasagan 14:11-18.
Nokkrir borgarbúar töldu þessa heimsókn þó ekki frá heiðnum guðum. Þeir gerðu sér grein fyrir að þetta voru venjulegir menn sem færðu þeim dásamlegar fréttir. Meðal þessara borgarbúa var kona að nafni Evnike. Hún var Gyðingur en gift vantrúuðum grískum manni. * Ásamt Lóis, móður sinni, hlustaði hún eflaust glöð og með eftirvæntingu á Pál og Barnabas. Loksins fengu þær fréttirnar sem allir guðræknir Gyðingar biðu eftir. Messías var kominn! Og margir spádómar um hann í ritningunum höfðu ræst.
Ímyndaðu þér hvað heimsókn Páls hefur haft mikil áhrif á Tímóteus. Hann hafði „frá blautu barnsbeini“ lært að meta hebresku ritningarnar. (2. Tímóteusarbréf 3:15) Rétt eins og móðir hans og amma skildi hann að Páll og Barnabas fluttu sannleikann um Messías. Og frá því að Tímóteus var lítill hafði hann sennilega margoft séð lamaða manninn, sem Páll læknaði, á götum Lýstruborgar. Núna sá hann manninn ganga í fyrsta sinn! Það er ekkert skrítið að Evnike og Lóis skyldu taka kristna trú og einnig Tímóteus. Enn í dag geta foreldrar og ömmur og afar lært margt af Evnike og Lóis. Getur þú haft góð áhrif á unga fólkið?
„MARGAR ÞRAUTIR“
Lýstrubúar, sem tóku kristni, hljóta að hafa verið gagnteknir af hrifningu þegar þeir lærðu um vonina sem beið þeirra sem fylgdu Kristi. En þeir komust líka að því að það kostaði sitt að vera lærisveinn Krists. Ofstækisfullir Gyðingar frá Íkóníum og Antíokkíu komu til borgarinnar, æstu upp áhrifagjarna borgarbúa og sneru þeim gegn Páli og Barnabasi. Áður en langt um leið veittist æstur múgur að Páli og grýtti í hann steinum. Hann féll að lokum í götuna og skríllinn dró hann út fyrir borgina í þeirri trú að hann væri dáinn. – Postulasagan 14:19.
Lærisveinarnir í Lýstru fóru samt á eftir Páli og slógu hring um hann. Mikið hlýtur þeim að hafa létt þegar hann hreyfði sig, stóð síðan upp og gekk hugrakkur rakleiðis aftur inn í borgina. Daginn eftir héldu Páll og Barnabas til borgarinnar Derbe til að halda áfram að boða trúna. Þar gerðu þeir fleiri að lærisveinum en sneru síðan aftur til Lýstru og buðu þannig hættunni birginn. Hvers vegna gerðu þeir það? Þeir „styrktu lærisveinana og hvöttu þá til að vera staðfastir í trúnni“, segir í frásögunni. Sjáðu fyrir þér hvernig hinn ungi Tímóteus hlustar gagntekinn á Pál og Barnabas þegar þeir útskýra fyrir trúbræðrum sínum að dýrleg framtíðarvon þeirra væri allra þessara erfiðleika virði. Þeir sögðu: „Við verðum að þola margar þrautir áður en við komumst inn í Guðs ríki.“ – Postulasagan 14:20-22.
Tímóteus sá Pál upplifa þetta sjálfan og standast þrautir með hugrekki til að boða öðrum fagnaðarerindið. Hann vissi þess vegna að ef hann fylgdi í fótspor Páls fengi hann íbúa Lýstru upp á móti sér. Pabbi hans gæti jafnvel snúist gegn honum. En Tímóteus ætlaði ekki að láta þrýsting af því tagi hafa áhrif á hvernig hann þjónaði Guði. Nú á dögum hugsa mörg ungmenni eins og Tímóteus. Þau eru skynsöm og leita sér vina meðal þeirra sem hafa sterka trú og geta styrkt þau og uppörvað. Þó að þau mæti andstöðu hætta þau ekki að þjóna hinum sanna Guði.
„KRISTNIR MENN ... BÁRU HONUM GOTT ORГ
Eins og minnst var á fyrr í greininni heimsótti Páll Lýstru líklega aftur tveim til þrem árum síðar. Ímyndaðu þér hvað Tímóteus og fjölskylda hans hefur verið spennt að hitta Pál aftur. Í þetta sinn var Sílas með honum í för. Heimsóknin var örugglega ánægjuleg fyrir Pál líka. Hann gat séð með eigin augum hvernig fræ sannleikans döfnuðu sem hann hafði sáð í Lýstru. Núna voru mæðgurnar Lóis og Evnike orðnar trúfastar kristnar konur og Páll dáðist að ,hræsnislausri trú‘ þeirra. (2. Tímóteusarbréf 1:5) Hvað með unga manninn Tímóteus?
Páll komst að því að ungi maðurinn hafði náð undraverðum þroska frá síðustu heimsókn. „Kristnir menn ... báru honum gott orð“ ekki aðeins í Lýstru heldur einnig í Íkóníum sem lá rúmlega 30 kílómetrum norðaustur af Lýstru. (Postulasagan 16:2) Hvernig hafði hann eignast svona gott mannorð?
„Heilagar ritningar“, sem móðir Tímóteusar og amma höfðu frætt hann um „frá blautu barnsbeini“, höfðu að geyma áreiðanlegar og gagnlegar leiðbeiningar handa ungu fólki. (2. Tímóteusarbréf 3:15) Hér er eitt dæmi: „Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum.“ (Prédikarinn 12:1) Þessi orð fengu dýpri merkingu í huga Tímóteusar eftir að hann varð kristinn. Hann skildi að besta leiðin fyrir hann til að muna eftir skaparanum var að boða fagnaðarerindið um Krist, son Guðs. Smám saman sigraðist Tímóteus á meðfæddri feimni sem hélt aftur af honum og tók djarfur að boða öðrum fagnaðarerindið um Jesú Krist.
Kristnir menn, sem fóru með forystu innan safnaðarins, tóku eftir framförum Tímóteusar. Það vakti eflaust hrifningu þeirra hvernig ungi maðurinn styrkti og hvatti aðra. Meira máli skipti þó að Jehóva Guð tók eftir Tímóteusi. Hann innblés spádómsorð um hann – ef til vill um þjónustuna sem hann átti eftir að veita mörgum söfnuðum. Þegar Páll heimsótti Lýstru sá hann að Tímóteus gat orðið gagnlegur ferðafélagi á trúboðsferðunum. Bræðurnir í Lýstru voru á sama máli. Þeir lögðu hendur yfir unga manninn en það var merki um að hann hefði verið útnefndur til sérstakra starfa í þjónustunni við Jehóva. – 1. Tímóteusarbréf 1:18; 4:14.
Við getum ímyndað okkur að Tímóteus hafi fyllst lotningu og auðmýkt að vera treyst fyrir svo mikilli ábyrgð. Hann var reiðubúinn að fara. * En hvernig leist pabba hans á þetta nýja verkefni sonarins, að gerast trúboði? Hann var ekki kristinn og hafði líklega eitthvað allt annað í huga fyrir son sinn. Og hvað um móður Tímóteusar og ömmu? Við getum ímyndað okkur að þær hafi verið stoltar af drengnum sínum en jafnframt haft áhyggjur af því hvað biði hans.
Við vitum að minnsta kosti að Tímóteus fór með Páli eins og fram kemur í upphafi greinarinnar. Þann morgun hófst því margra ára starf hans með Páli postula á trúboðsferðum hans. Tímóteus yfirgaf Lýstru og við hvert skref færðist hann fjær öllu sem hann þekkti og var honum kært. En hans biðu spennandi verkefni. Eftir langa dagsgöngu komu þremenningarnir til Íkóníum. Tímóteus fylgdist með Páli og Sílasi færa söfnuðinum nýjar leiðbeiningar frá stjórnandi ráði í Jerúsalem og styrkja bræðurna þar í trúnni. (Postulasagan 16:4, 5) En þetta var aðeins byrjunin.
Eftir að hafa heimsótt söfnuðina í Galatíu yfirgáfu trúboðarnir rómversku vegina sem voru breiðir og steinlagðir og gengu hundruð kílómetra yfir hásléttu Frýgíu, fyrst í norðurátt og síðan í vestur. Eftir leiðsögn heilags anda Guðs komu þeir til Tróas, fóru um borð í skip og sigldu til Makedóníu. (Postulasagan 16:6-12) Þegar þangað kom var Páli ljóst hvað bjó í Tímóteusi. Hann skildi hann eftir í Beroju til að aðstoða Sílas. (Postulasagan 17:14) Páll sendi unga manninn jafnvel einan til Þessaloníku. Það sem Tímóteus hafði lært af fordæmi Páls og Sílasar kom að góðum notum og hann styrkti trúfasta kristna menn þar í borg. – 1. Þessaloníkubréf 3:1-3.
Síðar skrifaði Páll um Tímóteus: „Ég hef engan honum líkan sem lætur sér eins einlæglega annt um Filippíbréfið 2:20) Gott orðspor Tímóteusar kom ekki af sjálfu sér. Hann vann sér það inn með dugnaði, auðmjúkri þjónustu og þolgæði í erfiðum aðstæðum. Hann er ungu fólki nú á dögum einstök fyrirmynd. Gleymið aldrei að þið ráðið miklu um hvaða mannorð þið eignist. Ef þú ert ungmenni hefurðu frábært tækifæri til að byggja upp gott mannorð með því að setja Jehóva Guð í fyrsta sæti og koma fram við aðra af vinsemd og virðingu.
hagi ykkar.“ („REYNDU AÐ KOMA SEM FYRST TIL MÍN“
Í 14 ár varði Tímóteus miklum tíma í að starfa með vini sínum, Páli postula. Hann lenti í mörgum hættum með Páli en naut einnig margra blessana í starfi sínu með honum. (2. Korintubréf 11:24-27) Eitt sinn lenti Tímóteus jafnvel í fangelsi vegna trúar sinnar. (Hebreabréfið 13:23) Rétt eins og Páli þótti honum innilega vænt um trúsystkini sín og lét sér annt um hagi þeirra. Þess vegna skrifaði Páll honum að hann væri ,minnugur tára hans‘. (2. Tímóteusarbréf 1:4) Tímóteus virðist hafa lært að setja sig í spor annarra og að ,gráta með grátendum‘ eins og Páll gerði. Þannig átti hann auðveldara með að hvetja þá og hugga. (Rómverjabréfið 12:15) Við skulum öll gera okkar besta til að fylgja fordæmi hans.
Það kemur ekki á óvart að Tímóteus varð framúrskarandi umsjónarmaður í kristna söfnuðinum. Páll treysti honum ekki aðeins fyrir þeirri ábyrgð að heimsækja söfnuði til að styrkja þá og hvetja heldur einnig til að útnefna menn sem voru hæfir til að starfa sem öldungar og þjónar í söfnuðinum. – 1. Tímóteusarbréf 5:22.
Páli var mjög annt um Tímóteus og gaf honum margar góðar leiðbeiningar og föðurleg ráð. Hann brýndi fyrir unga manninum að hlúa að andlegum gjöfum sínum og halda áfram að vaxa í trúnni og taka framförum. (1. Tímóteusarbréf 4:15, 16) Hann hvatti Tímóteus til að láta aldrei ungan aldur sinn – og ef til vill meðfædda óframfærni – halda aftur af sér þegar nauðsynlegt væri að taka skýra afstöðu með því sem er rétt. (1. Tímóteusarbréf 1:3; 4:6, 7, 11, 12) Hann gaf honum jafnvel ráð um hvað hann gæti gert við tíðum veikindum sínum sem voru hugsanlega magaveikindi. – 1. Tímóteusarbréf 5:23.
Páll sendi Tímóteusi eitt innblásið bréf að lokum þegar honum var ljóst að hann ætti stutt eftir ólifað vegna þess að hans beið aftaka. Í bréfinu finnum við þessi hjartnæmu orð: „Reyndu að koma sem fyrst til mín.“ (2. Tímóteusarbréf 4:9) Páli þótti afar vænt um Tímóteus og kallaði hann ,trútt barn sitt í samfélagi við Drottin‘. (1. Korintubréf 4:17) Það var eðlilegt að hann skyldi vilja hafa vin sinn hjá sér þegar komið var að leiðarlokum. Við getum spurt okkur: „Leitar fólk til mín til að fá huggun í erfiðleikum?“
Náði Tímóteus að hitta Pál? Það er ekki vitað. En við vitum að hann gerði alltaf sitt besta til að hughreysta og hvetja Pál og aðra. Nafnið Tímóteus þýðir „sá sem heiðrar Guð“ og ungi maðurinn stóð sannarlega undir nafni. Hann lét okkur öllum, bæði ungum og eldri, eftir framúrskarandi fyrirmynd í trú.
^ gr. 9 Sjá greinina „Vissir þú?“ í þessu tölublaði.
^ gr. 20 Tímóteus var meira að segja fús til að láta umskera sig að beiðni Páls. Þess var ekki krafist af kristnum mönnum heldur vildi Páll ekki gefa Gyðingum, sem þeir áttu eftir að prédika fyrir, neina ástæðu til að mótmæla návist þessa unga manns sem var ekki Gyðingur í föðurætt. – Postulasagan 16:3.