Hoppa beint í efnið

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | HJÓNABAND

Að þroska með sér þolinmæði

Að þroska með sér þolinmæði

 „Það reynir á þolinmæði hjóna á hverjum degi. Þolinmæði virðist kannski ekki skipta miklu máli þegar maður er einhleypur en hún skiptir sköpum í hjónabandi.“ – John.

 Hvers vegna þarftu að sýna þolinmæði?

  •   Það er auðvelt að taka eftir göllum maka síns.

     „Þegar maður hefur verið giftur um tíma er auðvelt að einblína á galla maka síns. Það er auðvelt að missa þolinmæðina þegar slíkar neikvæðar hugsanir koma upp.“ – Jessena.

  •   Óþolinmæði gæti orðið til þess að þú segðir eitthvað í hugsunarleysi.

     „Ég læt tilfinningar mínar fljótt í ljós – mjög fljótt. Ef ég væri þolinmóðari gæti ég séð betur heildarmyndina og haldið mínu striki án þess að þurfa alltaf að tjá mig.“ – Carmen.

     Biblían segir: „Kærleikurinn er þolinmóður.“ (1. Korintubréf 13:4) Það er ekki nema sanngjarnt að tvær manneskjur sem elska hvor aðra sýni þolinmæði. En þannig er það ekki alveg. „Það er hægðarleikur að vera óþolinmóður en kostar áreynslu að sýna þolinmæði eins og á við um aðra góða eiginleika,“ segir John sem vitnað er í að ofan. „Það krefst einhvers að vera þolinmóður.“

 Hvernig geturðu sýnt þolinmæði?

  •   Þegar reynir skyndilega á þolinmæðina.

     Dæmi: Maki þinn segir eitthvað sem særir þig. Fyrstu viðbrögð þín eru að segja eitthvað særandi á móti.

     Meginregla Biblíunnar: „Vertu ekki auðreittur til reiði því að gremja hvílir í brjósti heimskra manna.“ – Prédikarinn 7:9.

     Sýndu þolinmæði: Bíddu í smá stund áður en þú tjáir þig. Ekki gera ráð fyrir að maki þinn hafi sært þig viljandi. „Viðbrögð okkar ráðast oftar af því sem við ályktum að hafi verið sagt en því sem maki okkar sagði eða meinti í raun og veru,“ segir í bókinni Fighting for Your Marriage.

     Jafnvel þótt maki þinn hafi reynt að ögra þér geturðu dregið úr spennunni á milli ykkar með því að sýna þolinmæði og halda aftur af þér. „Þegar eldsneytið þrýtur slokknar eldurinn,“ segir í Biblíunni. – Orðskviðirnir 26:20.

     „Um leið og þú ferð að líta á konuna þína sem óvin skaltu gefa þér tíma til að hugleiða hvers vegna þú elskar hana og reyna að gera eitthvað gott fyrir hana.“ – Ethan.

     Til umhugsunar:

    •  Hvernig bregstu við þegar maki þinn segir eða gerir eitthvað sem særir þig?

    •  Hvernig geturðu sýnt meiri þolinmæði næst þegar það gerist?

  •   Þegar reynir stöðugt á þolinmæðina.

     Dæmi: Maki þinn er alltaf seinn og lætur þig bíða. Og þú verður stöðugt pirraðri.

     Meginregla Biblíunnar: „Haldið áfram að umbera hvert annað og fyrirgefa hvert öðru fúslega.“ – Kólossubréfið 3:13.

     Hvernig geturðu sýnt þolinmæði? Reyndu að setja hjónabandið framar eigin þörfum. Spyrðu sjálfan þig hvort það styrki sambandið eða veiki að gera mál úr þessu. Mundu líka að „við hrösum [öll] margsinnis“. (Jakobsbréfið 3:2) Það merkir að þú þarft líka að bæta persónuleika þinn.

     „Stundum sýni ég vinkonu minni meiri þolinmæði en manninum mínum. Ég held að það sé vegna þess að ég er meira með honum og tek eftir göllum hans. En þolinmæði er ein birtingarmynd kærleikans, hún er í raun merki um virðingu og því mikilvæg í mínu hjónabandi.“ – Nia.

     Til umhugsunar:

    •  Hversu þolinmóður ertu gagnvart göllum maka þíns?

    •  Geturðu sýnt meiri þolinmæði í framtíðinni?