GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UPPELDI
Börn og snjallsímar – 1. hluti: Ætti barnið mitt að eiga snjallsíma?
Fleiri og fleiri börn eiga snjallsíma a og mörg þeirra nota hann til að fara á netið þegar þau eru ein. Hvaða hættu getur það haft í för með sér fyrir barn að eiga snjallsíma? Hverjir eru kostirnir? Hversu langan tíma ætti að leyfa þeim að vera í snjallsímanum á dag?
Gott að vita
Kostir
Öryggi fyrir börnin, foreldrarnir geta verið rólegir. „Við búum í hættulegum heimi,“ segir Bethany, móðir tveggja unglinga. „Það er mikilvægt fyrir börn að geta hringt í foreldrana.“
Catherine er móðir sem gengur skrefi lengra. „Til eru forrit,“ segir hún, „sem gera manni kleift að fylgjast með hvar sími barnsins er. Ef barnið þitt er að keyra bíl geturðu jafnvel séð hversu hratt það keyrir.“
Heimalærdómur. „Börn fá heimaverkefni með tölvupósti eða textaskilaboðum og þannig hafa þau líka samskipti við kennarana,“ segir móðir sem heitir Marie.
Áhættan
Of mikill skjátími. Ungt fólk er oft marga klukkutíma á dag í símanum. Foreldrar eyða reyndar um það bil jafn miklum tíma í snjalltækjum og í að hafa samskipti við börnin sín. Ráðgjafi lýsir því þannig að sumar fjölskyldur séu eins og hópur ókunnugra þar sem allir eru límdir við tækin sín. b
Klám. Áætlað hefur verið að meira en helmingur allra unglinga horfi á klám í hverjum mánuði. Það kemur ekki á óvart þar sem það er auðvelt að nálgast það í snjallsíma. „Með því að gefa barninu snjallsíma geta foreldrar verið að opna barninu sínu aðgang að alls konar klámi, hvar sem barnið er statt,“ segir William sem á tvo unglinga.
Fíkn. Margt fólk er tilfinningalega tengt símanum sínum. Ef hann týnist fyllist það kvíða, örvæntingu og verður jafnvel veikt. Sumir foreldrar segja að börnin þeirra verði hortug þegar þau eru í símanum. „Stundum þegar ég vil tala við son minn,“ segir Carmen, „ranghvolfir hann augunum eða segir eitthvað ókurteist vegna þess að hann vill ekki láta trufla sig.“
Önnur áhætta. Notkun snjallsíma fylgir hætta á rafrænu einelti og kynferðislegum smáskilaboðum. Hún getur líka leitt til ýmissa heilsuvandamála vegna slæmrar líkamsstöðu og skorts á svefni. Sumt ungt fólk notar forrit sem virðist saklaust og getur litið út eins og reiknivél til að fela efni sem það vill ekki að foreldrarnir sjái.
Daniel á tvær unglingsstúlkur. Hann kjarnar þetta: „Snjallsími opnar dyrnar að öllu sem netið hefur að bjóða, bæði því góða og slæma.“
Spurningar sem þú ættir að spyrja
Þarf barnið á snjallsíma að halda?
Biblían segir: „Skynsamur maður íhugar hvert skref.“ (Orðskviðirnir 14:15) Með það í huga er gott að spyrja sig:
Væri skynsamlegt fyrir barnið mitt að eiga snjallsíma af öryggisástæðum eða öðrum ástæðum? Hef ég vegið og metið kostina og áhættuna sem fylgir? Er einhver annar möguleiki í stöðunni en snjallsími?
„Venjulegir símar sem eru ekki snjallsímar fást enn þá,“ segir faðir sem heitir Todd, „og með slíkum síma geturðu verið í sambandi við barnið. Þeir eru líka langtum ódýrari.“
Er barnið tilbúið að axla ábyrgðina?
Biblían segir: „Hjarta viturs manns vísar honum rétta leið.“ (Prédikarinn 10:2) Með það í huga er gott að spyrja sig:
Hvernig get ég gengið úr skugga um að ég geti treyst barninu mínu? Segir það mér hvað það er að hugsa? Er barnið alltaf heiðarlegt við mig eins og varðandi hverjir eru vinir þess? Sýnir það sjálfstjórn þegar kemur að öðrum tækjum eins og sjónvarpi, spjaldtölvu eða fartölvu? „Snjallsími er frábært tæki, en getur líka verið hættulegt tæki,“ segir móðir sem heitir Serena. „Hugleiddu hversu mikla ábyrgð þú ert að leggja á barn sem hefur litla reynslu.“
Er ég tilbúinn að axla ábyrgðina?
Biblían segir: „Fræddu barnið um veginn sem það á að ganga.“ (Orðskviðirnir 22:6) Með það í huga er gott að spyrja sig:
Veit ég nógu mikið um snjallsíma til að leiðbeina barninu að forðast hættur? Kann ég að stilla símann á foreldrastillingu? Hvernig get ég hjálpað barninu að nota snjallsímann skynsamlega? „Ég hef séð of marga foreldra gefa barninu sínu snjallsíma og fylgjast síðan ekki með hvernig það notar hann,“ segir Daniel, sem áður er greint frá.
Kjarni málsins: Það þarf að kenna börnum að nota snjallsíma af skynsemi. „Freistingin til að ofnota þessi tæki er of mikil til að ætlast til þess að börn geti staðist hana, sérstaklega ef foreldrar hafa ekki eftirlit með þeim,“ segir í bókinni Indistractable.