GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | HJÓNABAND
Ættum við að búa saman fyrir hjónaband?
Mörg pör búa saman áður en þau gifta sig. Sum pör gera það til að ganga úr skugga um hvort þau eigi saman og í þeirri von að hjónabandið muni ganga betur.
Í þessari grein
Hvað segir Biblían?
Biblían fordæmir kynlíf utan hjónabands. Hún segir: „Haldið ykkur frá kynferðislegu siðleysi.“ (1. Þessaloníkubréf 4:3; 1. Korintubréf 6:18) Þetta á líka við um kynlíf milli tveggja einstaklinga sem búa saman jafnvel þótt þeir hafi í hyggju að giftast. a Meginreglur Biblíunnar eru vernd gegn ótímabærum þungunum og annars konar vandamálum sem fylgja því þegar fólk býr saman fyrir hjónaband.
Guð er höfundur hjónabandsins. Hann sagði: „Af þeirri ástæðu yfirgefur maður föður sinn og móður og binst konu sinni og þau verða eitt.“ (1. Mósebók 2:24) Hjónabandið er besti grundvöllurinn til að eiga kærleiksríka og sterka fjölskyldu.
Býr það ykkur undir hjónabandið að búa saman áður?
Sumir myndu svara því játandi. Þeir líta svo á að hægt sé að kynnast vel með því að gera húsverkin saman og fylgjast með hegðun og venjum hvort annars. En mjög mikilvægur þáttur í hamingjusömu hjónabandi er skuldbindingin sem því fylgir.
Hvernig getur par lært að ganga saman í gegnum súrt og sætt? Ekki með því búa saman bara til reynslu þar sem báðir aðilar geta gengið í burtu hvenær sem er. Samband þrífst hins vegar þegar parið hefur skuldbundið sig og vinnur saman að því að leysa vandamál.
Kjarni málsins: Ógift par sem býr saman er ekki að búa sig undir hjónaband heldur miklu frekar sambandsslit.
Meginregla: „Það sem maður sáir, það uppsker hann.“ – Galatabréfið 6:7.
Er það fjárhagslega betra að búa saman áður?
Sumir svara því játandi. Samkvæmt könnun sem var gerð á vegum Pew Research Center kom í ljós að um fjórir af hverjum tíu fullorðnum Í Bandaríkjunum sem fóru að búa saman gerðu það vegna þess að það væri hagstæðara fjárhagslega. En eftir að hafa búið saman um tíma sögðu margir aðspurðra að þeir væru enn ekki tilbúnir í hjónaband vegna óstöðugs fjárhags.
Sambúð fyrir hjónaband getur haft aðrar neikvæðar afleiðingar, sérstaklega fyrir konur. Til dæmis eru það oftast þær sem þurfa að taka ábyrgð á barnauppeldinu eftir að sambandi lýkur.
Kjarni málsins: Neikvæðu hliðarnar á því að búa saman fyrir hjónaband eru oft fleiri en kostirnir.
Meginregla Biblíunnar: „Ég, Jehóva, er Guð þinn sem kenni þér það sem er þér fyrir bestu.“ – Jesaja 48:17.
Kemur sambúð fyrir hjónaband í veg fyrir að maður velji óheppilegan maka?
Sumir svara því játandi. En í bókinni Fighting for Your Marriage kemur fram að „fólk sem er í sambúð fyrir hjónaband gerir sér oft ekki grein fyrir því að slík sambúð geri því erfiðara fyrir að hætta saman“. Hvers vegna ætli það sé? Sum pör sem búa saman uppgötva kannski að þau eigi enga samleið. En nú eiga þau kannski gæludýr saman, borga leigu saman eða eiga von á barni. Kannanir hafa sýnt að pör ákveða þá oft að halda áfram að búa saman eingöngu vegna þess að þau eru vön því og finnst erfitt að gera breytingu. Í bókinni Fighting for Your Marriage segir: „Sumir sem myndu annars slíta samvistum fyrir hjónaband gifta sig á endanum af því að það er bara auðveldara að vera áfram saman.“
Kjarni málsins: Í stað þess að hjálpa þér að taka góða ákvörðun getur það að búa saman gert þér erfiðara fyrir að slíta sambandi sem væri betra að slíta.
Meginregla Biblíunnar: „Hinn skynsami sér hættuna og felur sig en hinir óreyndu ana áfram og fá að kenna á því.“ – Orðskviðirnir 22:3.
Er til betri leið?
Þú getur forðast vonbrigðin sem fylgja því að búa saman fyrir hjónaband og aukið líkurnar á að eignast hamingjusamt hjónaband. Hvernig? Með því að fylgja því sem Biblían segir um hjónabandið. Taktu þér nægan tíma til að kynnast tilvonandi maka áður en þið farið að búa saman sem hjón. Það er mikilvægara að byggja hjónabandið á sameiginlegum gildum og trú en kynferðislegu aðdráttarafli.
Biblían hefur að geyma ráð sem geta hjálpað þér að leggja grunninn að hamingjusömu og traustu hjónabandi. b Þar eru til dæmis meginreglur sem hjálpa þér að …
vera trúr maka þínum.
reynast góður maki.
Í hlutanum „Hjónabandið og fjölskyldan“ á jw.org geturðu lesið meira um þessi mál.
Meginregla Biblíunnar: „Öll Ritningin er innblásin af Guði og gagnleg til að kenna.“ – 2. Tímóteusarbréf 3:16.
a Sjá greinina „Does Romantic Love Justify Premarital Sex?“
b Í sumum menningarsamfélögum hafa foreldrarnir mikið að segja um makaval sonar eða dóttur. Biblían getur hjálpað þessum foreldrum að vita hverju þau eigi að leita eftir í fari tilvonandi maka barna sinna.