Hoppa beint í efnið

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | HJÓNABAND

Að forðast skilnað á efri árum

Að forðast skilnað á efri árum

 Frá árinu 1990 til 2015 tvöfaldaðist tíðni hjónaskilnaða í Bandaríkjunum hjá 50 ára og eldri og hjá fólki eldra en 65 ára þrefaldaðist hún. Sömu sögu er að segja víðs vegar í Evrópu. Hvað liggur að baki hjónaskilnuðum eldri hjóna og hvernig getur þú komið í veg fyrir að það hendi þitt hjónaband?

Í þessari grein

 Hvað veldur skilnaði á efri árum?

  •    Oft hefur samband hjóna sem skilja eftir langt hjónaband dvínað með tímanum. Smám saman fara sum hjón að sinna ólíkum áhugamálum og virðast með tíð og tíma eiga lítið sameiginlegt. Eða þau átta sig á því þegar börnin eru farin að heiman að þau hafa verið í hlutverki pabba og mömmu svo lengi að þau hafa gleymt hvernig þau eiga að vera hjón.

  •    Á síðustu áratugum hafa svokallaðir sérfræðingar sagt hjónum að einbeita sér að sínum eigin þörfum. Þeir ráðleggja þeim að spyrja sig: Er ég ánægður í þessu hjónabandi? Gerir það mig að betri manneskju? Mætir maki minn tilfinningalegum þörfum mínum? Ef ekki, þá hugsa margir að þeir ættu að gera það sem er best fyrir þá sjálfa – að skilja og hefja nýtt líf.

  •   Fólk lítur ekki eins neikvætt á skilnaði og það gerði áður. Félagsfræðingurinn Eric Klinenberg segir: „Það er ekki langt síðan fólk þurfti að réttlæta þá ákvörðun að biðja um skilnað vegna óánægju með maka sinn. Nú til dags er það öfugt. Ef þú ert óánægður með hjónabandið þarftu að réttlæta að vera áfram í því. Þetta er vegna þess að margir í dag trúa að það mikilvægasta sé að gera það sem er best fyrir sjálfan sig.“ a

 Auðvitað skipta skilnaðir oft bara einu vandamáli út fyrir annað. Ein könnun sýndi að „skilnaður á efri árum veldur oft miklum fjárhagserfiðleikum, sérstaklega fyrir konur“.

 Það er annað til að íhuga. „Þú getur reynt að hefja nýtt líf en þú ert samt enn þá sama manneskjan,“ segir í bókinni Don’t Divorce. „Hvað hefurðu gert til að breyta því sem virkaði ekki í tjáskiptum ykkar hjónanna? Hvað hefurðu gert til að breyta því hvernig þú bregst við ágreiningi?“ b

 Hvað getur þú gert?

  •   Sættu þig við breytingar. Engin sambönd eru alltaf eins. Samband þitt við maka þinn gæti hafa breyst vegna þess að börnin eru flutt að heiman eða vegna þess að þið hjónin hafið eignast ólík áhugamál. Reynið að koma auga á leiðir til að bæta stöðuna núna í stað þess að einblína á það sem var.

     Ráð Biblíunnar: „Segðu ekki: ‚Hvers vegna var allt betra áður?‘ því að það er ekki skynsamlegt að spyrja þannig.“ – Prédikarinn 7:10.

  •   Viðhaldið vináttunni. Gætir þú tekið þátt í áhugamáli maka þíns eða boðið honum að vera með í þínu? Getið þið fundið nýtt áhugamál sem þið getið bæði notið? Markmið ykkar ætti að vera að verja tíma saman svo að ykkur finnist þið vera hjón en ekki bara herbergisfélagar.

     Ráð Biblíunnar: „Hugsið ekki um eigin hag heldur hag annarra.“ – 1. Korintubréf 10:24.

  •   Haldið áfram að vera kurteis. Ekki hætta að vera kurteis hvort við annað þó að þið hafið verið lengi saman. Talaðu við maka þinn af virðingu og reyndu að sýna sömu kurteisi og þegar þið voruð að kynnast. Gleymdu ekki að biðja fallega og þakka fyrir þig. Sýndu maka þínum ástúð og að þú kunnir að meta það sem hann gerir fyrir þig.

     Ráð Biblíunnar: „Verið góð hvert við annað, samúðarfull.“ – Efesusbréfið 4:32.

  •   Munið eftir góðu stundunum. Skoðið brúðkaupsmyndirnar ykkar eða lítið í gegnum myndir af öðrum stundum sem þið hafið átt saman. Það getur hjálpað ykkur að viðhalda eða endurlífga ástina og virðinguna í hjónabandinu.

     Ráð Biblíunnar: ‚Hver og einn á að elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig en konan beri djúpa virðingu fyrir manni sínum.‘ – Efesusbréfið 5:33.

a Úr bókinni Going Solo – The Extraordinary Rise and Surprising Appeal of Living Alone.

b Eina gilda ástæðan sem Biblían gefur fyrir hjónaskilnaði er kynferðislegt siðleysi. (Matteus 19:5, 6, 9) Sjá greinina „Leyfir Biblían hjónaskilnað?