Hoppa beint í efnið

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UPPELDI

Hvers vegna er mikilvægt fyrir börn að kunna að lesa? – 1. hluti: Lesa eða horfa?

Hvers vegna er mikilvægt fyrir börn að kunna að lesa? – 1. hluti: Lesa eða horfa?

 Hvort myndu börnin þín frekar vilja horfa á myndbönd eða lesa þegar þau slaka á? Hvort er líklegra að þau grípi til, snjallsímans eða bókar?

 Áratugum saman hefur lestur átt undir högg að sækja, fyrst með tilkomu sjónvarpsins og síðan öllu því sem er hægt að fylgjast með á netinu. „Með tímanum gæti lestur horfið með öllu,“ skrifaði Jane Healy árið 1990 í bók sinni Endangered Minds.

 Á þeim tíma kann þessi yfirlýsing að hafa virst ýkjur. En núna áratugum síðar hafa kennarar í löndum þar sem notkun tækninnar hefur náð útbreiðslu tekið eftir að margt ungt fólk á ekki jafn auðvelt með lestur og áður fyrr.

Í þessari grein

 Hvers vegna er mikilvægt fyrir börn að lesa?

  •   Lestur örvar ímyndunaraflið. Þegar maður les sögu getur maður ímyndað sér hvernig raddir sögupersónanna hljóma, hvernig þær líta út og hvert sögusviðið er. Rithöfundurinn gefur vísbendingar en lesandinn þarf að fylla í eyðurnar.

     „Þegar maður horfir á kvikmyndir og myndbönd sér maður hvernig aðrir nota ímyndunarafl sitt,“ segir móðir sem heitir Laura. „Eins skemmtilegt og það getur virst þá er eitthvað sérstakt við lestur. Maður notar eigið ímyndunarafl til að sjá fyrir sér það sem annar hefur skrifað.“

  •   Lestur hjálpar börnum að þroska með sér góða eiginleika. Þegar börn lesa læra þau að rökhugsa og leysa vandamál. Og þau þurfa að beita athyglisgáfunni við lestur. Þannig þroska þau með sér þolinmæði, sjálfstjórn og samkennd.

     Samkennd? Já! Sumir rannsakendur telja að þegar börn lesa sögu hægt og vandlega hjálpi það þeim að skilja tilfinningar sögupersónanna. Það getur síðan hjálpað þeim að sýna öðrum sem þau umgangast samkennd.

  •   Lestur stuðlar að því að við hugsum dýpra. Þeir sem lesa sér til gagns lesa á eigin hraða, lesa efni jafnvel aftur þegar þörf er á, til að skilja hvað höfundurinn er að fara. Þannig eru þeir líklegri til að muna það sem þeir hafa lesið og hafa gagn af því. – 1. Tímóteusarbréf 4:15.

     Joseph er faðir. Hann segir: „Þegar maður les á maður auðveldara með að velta merkingu staðhæfingar fyrir sér, tengja hana við fyrri vitneskju og íhuga það sem hægt er að læra af henni. Kvikmyndir og myndbönd eru okkur ekki alltaf hvatning til að hugsa vandlega um hluti.“

 Kjarni málsins: Þótt myndbönd og annað myndefni hafi sitt gildi gætu börnin þín verið að missa af miklu ef þau taka sér ekki tíma til að lesa.

 Hvernig er hægt að hvetja til lesturs?

  •   Byrjaðu snemma. Chloe á tvo stráka. Hún segir: „Við lásum fyrir strákana strax á meðgöngunni og héldum því síðan áfram eftir að þeir fæddust. Við erum ánægð að við gáfumst ekki upp. Með tímanum varð það hluti af lífi þeirra að lesa – og þeir lesa sér líka til ánægju.“

     Meginregla Biblíunnar: „Þú hefur þekkt heilagar ritningar frá blautu barnsbeini.“ – 2. Tímóteusarbréf 3:15.

  •   Gerðu heimilið lestrarvænt. Hafðu heimilið þannig að það auðveldi barninu lestur með því að hafa lesefni aðgengilegt. „Finndu bækur sem barninu finnst gaman að lesa og settu þær á náttborðið hjá því,“ segir Tamara, fjögurra barna móðir.

     Meginregla Biblíunnar: „Fræddu barnið um veginn sem það á að ganga og það mun ekki yfirgefa hann á efri árum.“ – Orðskviðirnir 22:6.

  •   Takmarkaðu netnotkun. Daniel er faðir sem mælir með snjalltækjafríum kvöldum. „Við notuðum eitt kvöld í viku til að hafa rólegheit og slökkt á sjónvarpinu,“ segir hann. „Þá tókum við okkur tíma til að lesa, annaðhvort saman eða hvert í sínu lagi.“

     Meginregla Biblíunnar: „Metið hvað sé mikilvægt.“ – Filippíbréfið 1:10.

  •   Vertu góð fyrirmynd. Karina sem á tvær stelpur mælir með þessu: „Lestu sögur fyrir börnin þín þannig að þær lifni við og þau heyri hversu spennandi þér finnast þær. Ef þú hefur yndi af því að lesa getur það smitað börnin þín.“

     Meginregla Biblíunnar: „Leggðu þig fram við upplestur.“ – 1. Tímóteusarbréf 4:13.

 Það verða ekki öll börn spennt fyrir lestri. En hvatning frá þér gæti verið það sem þau þurfa. David á tvær stelpur. Hann gengur skrefinu lengra. Hann segir: „Ég las það sem dætur mínar voru að lesa þannig að ég vissi í hverju þær voru að pæla og gat því spjallað við þær um það. Við vorum með okkar eigin lestrarhóp. Það var skemmtilegt.“