GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UPPELDI
Kenndu börnunum þínum að sýna þakklæti
Rannsóknir sýna að þeir sem eru þakklátir eru hamingjusamari og heilbrigðari, takast betur á við mótlæti og eiga sterkari vináttusambönd. Rannsóknarmaðurinn Robert A. Emmons segir að þakklæti „verndi mann frá skaðlegum tilfinningum eins og öfund, gremju, græðgi og biturð“. a
Hvernig er það börnum til góðs að vera þakklát? Rannsókn á 700 ungmennum sem var gerð á fjögurra ára tímabili leiddi í ljós að þeir sem sýndu þakklæti væru ólíklegri til að svindla á prófum, neyta fíkniefna, misnota áfengi eða eiga við hegðunarvanda að stríða.
Börn sýna ekki þakklæti ef þeim finnst þau eiga allt skilið. Mörgum börnum finnst þau eiga rétt á því góða sem þau hafa. Maður finnur ekki til mikils þakklætis ef maður lítur á blessanir sem launaseðil frekar en gjafir.
Slíkt viðhorf er mjög algengt nú til dags. „Heimurinn í dag kennir okkur að við eigum skilið allt sem við viljum,“ segir móðir sem heitir Katherine. „Alls staðar í kringum okkur sjáum við myndir af hlutum sem við ‚eigum skilið‘ og okkur er sagt að við ættum að vera fyrst til að eignast þá.“
Það er hægt að byrja snemma að kenna þakklæti. Móðir sem heitir Kaye segir: „Það er auðvelt að móta börn. Að kenna þeim góðar venjur þegar þau eru ung er eins og að nota pinna til að hjálpa plöntu að vaxa beint.“
Hvernig er hægt að kenna þakklæti?
Kenndu þeim að segja „takk“. Jafnvel lítil börn geta lært að segja „takk fyrir“ þegar einhver gefur þeim gjöf eða sýnir þeim góðvild. Þá munu þau með árunum kunna enn þá betur að meta gjafmildi annara.
Meginregla Biblíunnar: ‚Verið þakklát.‘ – Kólossubréfið 3:15.
„Barnabarnið okkar sem er þriggja ára gutti biður fallega og segir ‚takk‘. Hann lærði þetta frá foreldrum sínum. Mannasiðir þeirra og það hvernig þau sýna þakklæti kenna honum að sýna þakklæti.“ – Jeffrey.
Kenndu þeim hvað þau eiga að gera. Þú gætir fengið börnin til þess að skrifa þakkarkort næst þegar einhver gefur þeim gjöf. Ef þú lætur börnin hjálpa til með húsverkin kennir þú þeim líka að kunna að meta þá vinnu sem felst í því að halda heimili.
Meginregla Biblíunnar: „Það er ánægjulegra að gefa en þiggja.“ – Postulasagan 20:35.
„Við eigum tvo unglinga og þeir hjálpa til á heimilinu með því að skipuleggja máltíðir, elda og vinna heimilisverk. Það hjálpar þeim að kunna að meta það sem að við foreldrarnir leggjum á okkur og taka því síður sem sjálfsögðum hlut.“ – Beverly.
Kenndu þeim rétta viðhorfið. Auðmýkt hjálpar til við að rækta þakklæti. Þeir sem eru auðmjúkir gera sér grein fyrir því að þeir þurfa hjálp til að ná árangri. Það gerir það að verkum að þeir eru þakklátir fyrir stuðning annarra.
Meginregla Biblíunnar: „Verið heldur auðmjúk og lítið á aðra sem ykkur meiri. Hugsið ekki aðeins um eigin hag heldur einnig hag annarra.“ – Filippíbréfið 2:3, 4.
„Stundum förum við í ‚þakklætisleikinn‘ meðan við borðum kvöldmatinn. Þá skiptumst við á að segja frá einhverju sem við erum þakklát fyrir. Þetta fær alla til að vera jákvæðir og þakklátir frekar en neikvæðir og eigingjarnir.“ – Tamara.
Tillaga: Vertu góð fyrirmynd. Börnin eiga auðveldara með að læra að vera þakklát ef þau sjá þig reglulega tjá þakklæti til annarra og til þeirra.
a Úr bókinni Thanks! How Practicing Gratitude Can Make You Happier.