Hoppa beint í efnið

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | HJÓNABAND

Hvernig getum við nýtt okkur tæknina af skynsemi?

Hvernig getum við nýtt okkur tæknina af skynsemi?

 Hvernig þú notar tæknina getur annað hvort styrkt hjónaband þitt eða veikt það. Hvaða áhrif hefur hún á hjónaband þitt?

 Gott að vita

  •   Skynsamleg notkun tækninnar getur verið gagnleg fyrir samband hjóna. Sum hjón nota til dæmis tæknina til að vera í sambandi við hvort annað á daginn þegar þau eru aðskilin.

     „Smáskilaboð sem segja „ég elska þig“ eða „ég hugsa til þín“ geta skipt miklu máli.“ – Jonathan.

  •   Óskynsamleg notkun tækninnar getur grafið undan hjónabandinu. Sumir nota til dæmis snjalltækin sín stanslaust og það kemur niður á þeim tíma og athygli sem þeir gætu gefið maka sínum.

     „Ég er viss um að stundum hefði maðurinn minn haft meiri áhuga á að tala við mig ef ég hefði ekki verið í símanum.“ – Julissa.

  •   Sumir segjast geta átt innihaldsríkar samræður við maka sinn og notað snjalltæki um leið. Félagsfræðingurinn Sherry Turkle segir það „mýtu að hægt sé að gera margt á sama tíma“. Svo virðist sem það sé ekki jákvætt að gera margt á sama tíma þótt sumir haldi það. Hún segir að í raun og veru „versni frammistaða okkar við hvert verkefni sem við bætum við það sem við erum að gera“. a

     „Það er gefandi að tala við manninn minn en ekki þegar hann er að gera margt í einu. Þegar hann gerir margt í einu finnst mér eins og honum standi á sama hvort ég sé þarna eða ekki.“ – Sarah.

 Kjarni málsins: Það getur annað hvort styrkt hjónabandið eða skaðað það hvernig þú notar tæknina.

 Það sem þú getur gert

 Forgangsraðaðu. Biblían segir: „Metið hvað sé mikilvægt.“ (Filippíbréfið 1:10) Spyrðu þig: „Fer tíminn sem við gætum notað saman í að nota snjalltæki?“

 „Það er dapurlegt að sjá mann og konu á veitingastað starandi á símana sína – tvær manneskjur fastar við snjalltæki. Við viljum ekki vera þrælar tækninnar og gleyma því mikilvægasta – sambandinu við hvort annað.“ – Matthew.

 Settu mörk. Biblían segir: „Gætið þess vandlega að þið hegðið ykkur ekki eins og óskynsamar manneskjur heldur skynsamar og notið tímann sem best.“ (Efesusbréfið 5:15, 16) Spyrðu þig: „Gæti ég tekið frá ákveðinn tíma til að lesa og svara skilaboðum sem eru ekki brýn í staðinn fyrir að svara öllum skilaboðum um leið og þau berast?“

 „Það hefur reynst mér vel að taka hljóðið af símanum og svara skilaboðum þegar það hentar betur. Það er sjaldgæft að símtal, skilaboð eða tölvupóstur sé svo aðkallandi að ég þurfi að svara samstundis.“ – Jonathan.

 Skildu vinnuna eftir í vinnunni ef þess er nokkur kostur. Í Biblíunni segir: „Öllu er afmörkuð stund.“ (Prédikarinn 3:1) Spyrðu þig: „Leyfi ég vinnunni að trufla fjölskyldulífið með því að nota símann heima til að sinna verkefnum í vinnunni? Ef svo er, hvaða áhrif hefur það á hjónabandið? Hvernig myndi maki minn svara þessari spurningu?“

 „Með hjálp tækninnar getum við unnið hvenær sem er. Ég hef þurft að leggja mig sérstaklega fram um að forðast að líta stöðugt á símann og afgreiða vinnutengd mál þegar ég og konan mín erum saman.“ – Matthew.

 Ræddu um notkun tækninnar við maka þinn. Í Biblíunni segir: „Hugsið ekki um eigin hag heldur hag annarra.“ (1. Korintubréf 10:24) Talaðu við maka þinn um það hvernig þið notið tæknina og hvaða breytingar þið gætuð þurft að gera. Þú gætir notað ráðin í þessari grein sem umræðugrundvöll.

 „Við maðurinn minn erum mjög heiðarleg við hvort annað. Við látum það í ljós ef öðru okkar finnst hitt nota síma eða spjaldtölvu of mikið. Við skiljum að þetta getur verið vandamál þannig að við tökum álit hvors annars til vandlegrar skoðunar.“ – Danielle.

 Kjarni málsins: Sjáðu til þess að tæknin auðveldi þér lífið en leyfðu henni ekki að stjórna því.

a Úr bókinni Reclaiming Conversation – The Power of Talk in a Digital Age.