Hoppa beint í efnið

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UPPELDI

Kostir skapandi leiks

Kostir skapandi leiks

 Skapandi leikur er afþreying sem örvar forvitnina og ímyndunaraflið og hjálpar þannig barninu að þroskast í hugsun og kennir því að vinna með höndunum.

 Dæmi um skapandi leik:

  •   Teikna

  •   Baka

  •   Fara í þykjustuleik

  •   Syngja

  •   Byggja úr kubbum

  •   Leika sér með einfalda hluti (jafnvel pappakassi getur ýtt undir ímyndunaraflið)

 Víðsvegar um heiminn hefur skapandi leik verið skipt út fyrir skipulagða afþreyingu eða afþreyingu þar sem börnin eru bara áhorfendur.

 Ættir þú að hafa áhyggjur af því?

 Hvað ættirðu að vita?

  •   Skapandi leikur getur stuðlað að þroska barnsins. Skapandi leikur getur stuðlað að líkamlegri og andlegri heilsu, sköpunargáfu og félagsfærni. Hann getur líka kennt börnunum þolinmæði, að taka góðar ákvarðanir, að hafa stjórn á tilfinningum sínum og að semja vel við aðra þegar leikið er í hóp. Í stuttu máli hjálpar skapandi leikur að undirbúa barnið fyrir fullorðinsárin.

  •   Of mikill skjátími getur verið skaðlegur. Of mikill skjátími getur verið ávanabindandi, hægt er að tengja óhóflegan skjátíma við offitu barna og árásargjarna hegðun. Þetta ætti að vera viðvörun fyrir foreldra sem nota skjátæki sem barnapíu fyrir börn á leikskólaaldri.

  •   Skipulögð afþreying hefur sína ókosti. Þegar börn hafa of mikið af skipulagðri afþreyingu hafa þau ekki nægan tíma til að taka þátt í frjálsum leik sem eflir forvitni þeirra og sköpunargáfu.

 Hvað getur þú gert?

  •   Skapaðu tækifæri fyrir skapandi leik. Leyfðu börnunum að vera úti að leika sér þegar aðstæður leyfa svo að þau geti kynnst náttúrunni. Leyfðu þeim að hafa áhugamál og leika sér með leikföng sem eru skapandi. a

     Til íhugunar: Hvaða færni og eiginleika getur skapandi leikur hjálpað barninu mínu að þroska með sér? Hvernig væri það barninu til góðs seinna á ævinni?

     Meginregla Biblíunnar: „Líkamleg æfing er gagnleg.“ – 1. Tímóteusarbréf 4:8.

  •   Takmarkaðu skjátíma. Hugsaðu þig tvisvar um áður en þú heldur barninu þínu uppteknu með farsíma, spjaldtölvu eða sjónvarpi. Barnalæknar mæla með að börn undir tveggja ára fái ekki að nota slík tæki og börn á aldrinum tveggja til fimm ára fái ekki meira en klukkustund af skjátíma á dag. b

     Til íhugunar: Hvaða takmörk get ég sett á skjátíma fyrir barnið mitt? Ætti ég að horfa á með barninu? Hvað væri gott að gera í stað þess að nota skjátæki?

     Meginregla Biblíunnar: „Gætið þess vandlega að hegða ykkur ekki eins og óskynsamar manneskjur heldur skynsamar og notið tímann sem best.“ – Efesusbréfið 5:15, 16.

  •   Íhugaðu vandlega hvaða áhrif skipulögð afþreying hefur á barnið þitt. Það getur að vísu aukið hæfni barnsins í mörgu, svo sem íþróttum. Oft geta samt of margar skipulagðar afþreyingar verið stressandi, ekki aðeins fyrir börnin heldur líka foreldrana sem bera ef til vill ábyrgð á að koma þeim á milli staða. Meginreglan í Efesusbréfinu 5:15,16 um skynsamlega notkun á tímanum á því einnig vel við í þessu samhengi.

     Til íhugunar: Hafa börnin mín of þétta dagskrá með skipulagðri afþreyingu? Ef svo er, hvaða breytingar gætum við gert?

     Meginregla Biblíunnar: ‚Metið hvað er mikilvægt.‘– Filippíbréfið 1:10.

a Mörg leikföng veita lítið frelsi fyrir ímyndunaraflið. Hins vegar geta einföld leikföng eins og kubbar og pappakassar fengið barnið til að nota ímyndunaraflið.

b „Skjátími“ á við um afþreyingu, ekki það að tala við ástvini með myndsímtali eða að njóta andlegra dagskráa með fjölskyldunni.