Hoppa beint í efnið

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI

Að tala við börnin um áfengi

Að tala við börnin um áfengi

 „Dóttir okkar var sex ára þegar við ræddum fyrst við hana um áfengi. Það kom okkur á óvart að hún vissi miklu meira um það en við bjuggumst við.“ – Alexander.

 Gott er að vita

 Það er mikilvægt að tala við börn um áfengi. Ekki bíða þangað til barnið verður unglingur. „Ég vildi að við hefðum byrjað snemma að tala við son okkar um viðeigandi notkun áfengis,“ segir Khamit, sem býr í Rússlandi. „Ég lærði mikilvægi þess í hörðum skóla reynslunnar. Ég komst að því að sonur minn var farinn að drekka reglulega þegar hann var 13 ára.“

 Hvers vegna ætti þér að vera umhugað um þetta mál?

  •   Bekkjarfélagar, auglýsingar og sjónvarp geta haft áhrif á viðhorf barnsins til áfengis.

  •   Ellefu prósent allrar áfengisneyslu í Bandaríkjunum er neytt af einstaklingum undir lögaldri samkvæmt Sóttvarna- og forvarnamiðstöðvum Bandaríkjanna.

 Það kemur ekki á óvart að yfirvöld heilbrigðismála skuli hvetja foreldra til að byrja snemma á að fræða börnin sín um hætturnar sem fylgja áfengisneyslu. Hvernig geturðu gert það?

 Það sem þú getur gert

 Sjáðu fyrir hvaða spurningar barnið á eftir að spyrja. Ung börn eru forvitin og eldri börn eru jafnvel enn forvitnari. Það er því skynsamlegt að undirbúa hvernig þú ætlir að svara. Tökum dæmi:

  •   Ef barnið þitt er forvitið og vill fá að vita hvernig áfengi bragðast geturðu sagt að vín bragðist svolítið eins og súr ávaxtasafi og að bjór geti verið nokkuð rammur.

  •   Ef barnið þitt vill smakka áfengi geturðu sagt að áfengi sé of sterkt fyrir líkama barna. Nefndu hvaða áhrif það hefur. Áfengi fær fólk til að slaka á en of mikið af því getur valdið svima eða fengið fólk til að hegða sér heimskulega og segja eitthvað sem það sér síðan eftir. – Orðskviðirnir 23:29–35.

 Fræddu sjálfan þig. Í Biblíunni segir: „Vitur maður fer að öllu með hyggindum.“ (Orðskviðirnir 13:16) Vertu vel upplýstur um áfengisneyslu og áfengislög þar sem þú býrð. Þá ertu vel í stakk búinn til að hjálpa barninu þínu.

 Taktu frumkvæðið í að ræða málið. „Áfengisneysla getur verið ruglingsleg fyrir börn,“ segir breskur faðir að nafni Mark. „Ég spurði átta ára son minn hvort honum fyndist rétt eða rangt að drekka áfengi. Ég hélt andrúmsloftinu afslöppuðu og óformlegu. Það hjálpaði honum að tjá viðhorf sitt opinskátt.“

 Þú hefur meiri áhrif ef þú talar um áfengi oftar en einu sinni. Ræddu um áfengisneyslu þegar þið talið um önnur mikilvæg mál, svo sem kynlíf og öryggi í akstri, og gefðu upplýsingar sem hæfa aldri barnsins.

 Settu gott fordæmi. Börn eru eins og svampar – þau drekka í sig umhverfið. Kannanir leiða í ljós að foreldrar hafa mestu áhrifin á börnin. Þetta þýðir að ef þú drekkur áfengi til að slaka á eða draga úr streitu fær barnið þau skilaboð að áfengi sé svarið við áhyggjum lífsins. Vertu því góð fyrirmynd. Gakktu úr skugga um að þú neytir áfengis á ábyrgan hátt.

Börnin þín læra af því hvernig þú neytir áfengis.