Hoppa beint í efnið

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | HJÓNABAND

Að skilja vinnuna eftir „í vinnunni“

Að skilja vinnuna eftir „í vinnunni“

 Á þessari tækniöld væntir vinnuveitandinn, vinnufélagarnir eða viðskiptavinir þess ef til vill að þú sért til reiðu allan sólarhringinn, alla daga. Ef svo er getur verið erfitt að hafa jafnvægi á vinnunni og öðru í lífinu eins og hjónabandi þínu.

 Gott að vita

  •   Tæknin getur orðið til þess að skilin milli vinnu og einkalífs verða óljós. Símtöl, tölvupóstur eða textaskilaboð sem þér berast geta orðið eins og eldur sem er nauðsynlegt að slökkva hið snarasta.

     „Eðlilegt líf eins og að koma heim eftir vinnu og vera með fjölskyldunni getur virst ógerlegt vegna þess að tölvupóstur og símtöl tengd vinnunni ýta makanum til hliðar.“ – Jeanette.

  •   Þú þarft að gera eitthvað í málinu til að hafa jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs. Ef þú hugsar ekki málið fyrir fram eru meiri líkur á því að vinnan verði á kostnað hjónabandsins.

     „Það er venjulega makinn sem þetta bitnar á vegna þess að við hugsum gjarnan sem svo að hann skilji aðstæðurnar. ‚Hann fyrirgefur. Við höfum tíma saman seinna.‘“ – Holly.

 Ráð til að finna jafnvægi milli vinnu og einkalífs

  •   Settu hjónabandið í forgang. Biblían segir: „Það sem Guð hefur tengt saman má enginn maður aðskilja.“ (Matteus 19:6) Ef þú leyfir ekki nokkurri manneskju að „aðskilja“ þig frá maka þínum hvers vegna þá að leyfa vinnunni að gera það?

     „Sumir viðskiptavinir hugsa sem svo að fyrst þeir borga manni ættu þeir að geta náð í mann hvenær sem þeim hentar. Ég sýni þeim að hjónabandið sé í forgangi með því að segja að ég sé ekki tilbúinn að sinna þeim þegar ég á frí en hafi samband fljótlega.“ – Mark.

     Spyrðu þig: Sýni ég að ég álíti hjónabandið mikilvægara en vinnuna?

  •   Segðu nei við vinnu þegar það er nauðsynlegt. Biblían segir: „Hjá hógværum er viska.“ (Orðskviðirnir 11:2) Hógværð hjálpar þér að koma auga á að stundum er skynsamlegt að hafna verkefnum eða fela þau öðrum.

     „Ég er pípulagningamaður og ef einhver þarf hjálp í neyð verður hann stressaður. Ef ég get ekki gengið í málið innan þess tíma sem hann vill vísa ég honum á annan pípara.“ – Christopher.

     Spyrðu þig: Er ég tilbúinn að hafna aukavinnu ef hún þýddi að ég yrði að vanrækja maka minn? Hvað segði maki minn ef hann væri spurður?

  •   Takið frá tíma fyrir ykkur. Biblían segir: „Öllu er afmörkuð stund.“ (Prédikarinn 3:1) Það er sérstaklega mikilvægt að ákveða tíma saman þegar maður hefur mikið að gera í vinnunni.

     „Þegar hittist þannig á að allt er í gangi á sama tíma tökum við frá stund, þótt það sé ekki nema að borða saman eða fá okkur göngutúr á ströndinni, til að eiga tíma saman þar sem ekkert truflar okkur.“ – Deborah.

     Spyrðu þig: Tek ég frá tíma til að gefa maka mínum óskipta athygli? Hvað segði maki minn ef hann væri spurður?

  •   Hafið slökkt á snjalltækjum. Biblían segir: „Metið hvað sé mikilvægt.“ (Filippíbréfið 1:10) Gætirðu stundum slökkt á snjalltækjunum þínum til þess að vinnan taki ekki athygli þína?

     „Ég legg mig fram um að hætta í vinnunni á tilsettum tíma. Þá slekk ég á tilkynningum sem koma í símann.“ – Jeremy.

     Spyrðu þig: Finnst mér ég verða að gefa yfirmanninum og viðskiptavinum færi á að ná í mig? Hvað segði maki minn ef hann væri spurður?

  •   Gerðu ráð fyrir undantekningum. Biblían segir: „Verið þekkt fyrir að vera sanngjörn.“ (Filippíbréfið 4:5) Stundum gætir þú eða maki þinn þurft að nota tíma í vinnu sem þið hefðuð verið saman. Vinna maka þíns er kannski þess eðlis að það þarf að vera hægt að ná í hann utan vinnutíma. Ekki krefjast meira af honum en er sanngjarnt.

     „Maðurinn minn rekur lítið fyrirtæki og oft eftir vinnutíma koma upp neyðartilfelli sem hann þarf að sinna. Það fer stundum í taugarnar á mér en við notum samt það mikinn tíma saman að ég get ekki kvartað.“ – Beverly.

     Spyrðu þig: Tek ég tillit til þess hve mikið vinnuálag er á maka mínum og fer ekki fram á meiri tíma eða athygli en hann getur gefið? Hvað segði maki minn ef hann væri spurður?

 Umræðugrundvöllur

 Hugleiðið eftirfarandi spurningar í sitt hvoru lagi til að byrja með. Ræðið síðan svörin saman.

  •   Hefur maki þinn einhvern tíma kvartað yfir því að þú takir vinnuna með þér heim? Ef svo er, ertu sammála honum?

  •   Á hvaða sviðum heldurðu að þú gætir tekið framförum þegar kemur að því að hafa jafnvægi milli vinnu og einkalífs?

  •   Hefur þér einhvern tíma fundist að maki þinn virðist ekki geta skilið vinnuna eftir „í vinnunni“? Ef svo er, hvaða tilfelli koma upp í hugann?

  •   Hvaða breytingar, ef einhverjar, myndirðu vilja sjá hjá maka þínum í sambandi við jafnvægið milli vinnu og einkalífs?