Hvað segir Biblían um líkbrennslu?
Svar Biblíunnar
Í Biblíunni er ekki að finna sérstakar leiðbeiningar um líkbrennslu og ekki heldur nein fyrirmæli varðandi greftrun eða bálför þeirra sem hafa látist.
Biblían greinir frá tilvikum þegar trúfastir þjónar Guðs jörðuðu látna ástvini sína. Til að mynda hafði Abraham mikið fyrir því að finna Söru, eiginkonu sinni, greftrunarstað. – 1. Mósebók 23:2-20; 49:29-32.
Í Biblíunni er einnig minnst á trúfasta einstaklinga sem brenndu líkamsleifar hinna látnu. Þegar Sál konungur í Ísrael og þrír synir hans féllu í orrustu urðu lík þeirra eftir á svæði óvinarins og farið var með þau af óvirðingu. Trúfastir hermenn Ísraels fréttu það og sóttu lík Sáls og sona hans, brenndu þau og grófu síðan beinin. (1. Samúelsbók 31:8-13) Í Biblíunni er gefið í skyn að þetta hafi verið viðeigandi meðferð á líkamsleifum þessara manna. – 2. Samúelsbók 2:4-6.
Algengar ranghugmyndir um líkbrennslu
Ranghugmynd: Líkbrennsla er óvirðing við líkamann.
Staðreynd: Í Biblíunni segir að þeir sem deyja verði aftur að mold en það gerist einmitt þegar lík rotnar. (1. Mósebók 3:19) Líkbrennsla flýtir fyrir þessu ferli þannig að líkaminn verður að ösku eða mold.
Ranghugmynd: Á biblíutímanum var aðeins það fólk sem var vanþóknanlegt Guði brennt eftir dauðann.
Staðreynd: Lík sumra ótrúrra einstaklinga eins og Akans og fjölskyldu hans voru brennd. (Jósúabók 7:25) En þetta var undantekning frekar en reglan. (5. Mósebók 21:22, 23) Eins og fyrr greinir voru lík sumra trúfastra þjóna Guðs brennd eins og lík Jónatans, sonar Sáls konungs.
Ranghugmynd: Líkbrennsla kemur í veg fyrir að Guð reisi fólk upp frá dauðum.
Staðreynd: Í sambandi við upprisu fólks frá dauðum skiptir það Guð ekki máli hvort lík sé grafið, brennt, hafi týnst á hafi úti eða verið étið af villidýri. (Opinberunarbókin 20:13) Almáttugur Guð á auðvelt með að endurskapa nýjan líkama. – 1. Korintubréf 15:35, 38.