Hvað segir Biblían um reiði?
Svar Biblíunnar
Biblían kennir að stjórnlaus reiði sé skaðleg, bæði fyrir þann sem er reiður og þá sem eru nálægt honum. (Orðskviðirnir 29:22) Þótt reiði geti verið réttlætanleg kennir Biblían að þeir sem haldi áfram að fá „reiðiköst“ hljóti ekki eilíft líf. (Galatabréfið 5:19–21) Biblían hefur að geyma meginreglur sem hjálpa okkur að hafa stjórn á reiðinni.
Á reiði aldrei rétt á sér?
Jú. Stundum má réttlæta reiði. Til dæmis reiddist hinn réttláti Nehemía mjög þegar hann frétti að trúsystkini sín væru kúguð. – Nehemíabók 5:6.
Guð verður stundum reiður. Til dæmis þegar þjónar hans til forna sviku loforð sitt um að tilbiðja hann einan og fóru að þjóna falsguðum „upptendraðist reiði Drottins“ gegn þeim. (Dómarabókin 2:13, 14) En þrátt fyrir það er reiði ekki ríkjandi eiginleiki í fari Jehóva Guðs. Reiði hans er alltaf réttlætanleg og hann hefur alltaf stjórn á henni. – 2. Mósebók 34:6; Jesaja 48:9.
Hvenær er rangt að vera reiður?
Það er rangt að vera reiður þegar reiðin er stjórnlaus eða ástæðulaus, en sú er oft raunin þegar ófullkomnir menn reiðast. Tökum dæmi:
Kain ,reiddist mjög‘ þegar Guð hafnaði fórn hans. Kain leyfði reiðinni að grafa um sig að því marki að hann drap bróður sinn. – 1. Mósebók 4:3–8.
Spámaðurinn Jónas „fylltist mikilli gremju“ þegar Guð sýndi íbúum Níníve miskunn. Guð leiðrétti Jónas og benti honum á að það væri ekki rétt af honum að reiðast svona og að hann hefði átt að finna til samúðar með iðrandi syndurunum. – Jónas 3:10–4:1, 4, 11. a
Þessi dæmi sýna að „reiði mannsins kemur ekki réttlæti Guðs til leiðar“. – Jakobsbréfið 1:20.
Hvernig geturðu haft stjórn á reiðinni?
Gerðu þér grein fyrir hættunni sem fylgir stjórnlausri reiði. Sumir halda að það sé merki um styrk að gefa reiðinni lausan tauminn. En sá sem getur ekki haft stjórn á reiði sinni er í raun með alvarlegan veikleika. „Eins og opin borg án borgarmúra, svo er sá maður sem ekki hefur stjórn á skapi sínu.“ (Orðskviðirnir 25:28; 29:11) Við sýnum hins vegar sannan styrk og skynsemi þegar við lærum að hafa stjórn á reiðinni. (Orðskviðirnir 14:29) Í Biblíunni segir: „Sá sem er seinn til reiði er betri en kappi.“ – Orðskviðirnir 16:32.
Hafðu stjórn á reiðinni áður en þú gerir eitthvað sem þú sérð eftir. Í Sálmi 37:8 segir: „Lát af reiði, slepp heiftinni, ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.“ Taktu eftir að þegar við reiðumst höfum við val – við getum kosið að láta af reiðinni áður en við endum á því að gera eitthvað sem „leiðir til ills“. Í Efesusbréfinu 4:26 segir: „Ef þið reiðist syndgið þá ekki.“
Ef mögulegt er skaltu fara þegar reiðin magnast upp. Í Biblíunni segir: „Þegar deila kviknar er sem tekin sé úr stífla, forðaðu þér því áður en rifrildið brýst út.“ (Orðskviðirnir 17:14, Nýheimþýðing Biblíunnar) Þótt það sé skynsamlegt að jafna fljótt ágreining við aðra gætuð þið sem eigið hlut að máli þurft að róa ykkur niður áður en þið getið rætt málin í rólegheitum.
Kynntu þér málið vel. „Það er viska að vera seinn til reiði,“ segir í Orðskviðunum 19:11. Það er skynsamlegt að kynna sér málið vel áður en maður dregur ályktun. Þegar við hlustum á allar hliðar málsins er minni hætta á að við verðum reið að ástæðulausu. – Jakobsbréfið 1:19.
Biddu um hugarfrið. Bænin getur gefið þér ,frið Guðs, sem er æðri öllum skilningi‘. (Filippíbréfið 4:7) Við fáum heilagan anda aðallega með því að biðja til Guðs. En andi hans getur hjálpað okkur að sýna eiginleika eins og frið, þolinmæði og sjálfstjórn. – Lúkas 11:13; Galatabréfið 5:22, 23.
Vandaðu valið á vinum. Við höfum tilhneigingu til að líkja eftir þeim sem við umgöngumst. (Orðskviðirnir 13:20; 1. Korintubréf 15:33) Það er góð ástæða fyrir þessari viðvörun í Biblíunni: „Leggðu ekki lag þitt við reiðigjarnan mann og eigðu ekki samneyti við hinn skapbráða til þess að þú temjir þér ekki hegðun hans og leggir snörur fyrir líf þitt.“ – Orðskviðirnir 22:24, 25.
a Jónas tók augljóslega við leiðréttingunni og sleppti takinu á reiðinni því að Guð notaði hann til að skrifa biblíubókina sem ber nafn hans.