Hvað segir Biblían um að elska sjálfan sig?
Svar Biblíunnar
Biblían gefur til kynna að það sé viðeigandi, jafnvel nauðsynlegt, að elska sjálfan sig að hæfilegu marki. Það felur í sér að hugsa vel um sjálfan sig og bera virðingu fyrir sjálfum sér. (Matteus 10:31) Biblían upphefur ekki sjálfselsku en leggur áherslu á að maður elski sjálfan sig á viðeigandi hátt.
Hvern ættum við að elska mest?
Við ættum fyrst og fremst að elska Guð. Biblían kennir að fremsta boðorðið sé: „Þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu.“ – Markús 12:28-30; 5. Mósebók 6:5.
Næstæðsta boðorðið er: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ – Markús 12:31; 3. Mósebók 19:18.
Þótt ekki sé að finna í Biblíunni sérstakt boðorð um að maður eigi að elska sjálfan sig gefur boðorðið um að „elska náunga þinn eins og sjálfan þig“ til kynna að það sé eðlilegt og gagnlegt að þykja hæfilega vænt um sjálfan sig og hafa heilbrigt sjálfsmat.
Hvern elskaði Jesús mest?
Jesús sýndi hvernig hægt er að hafa jafnvægi milli þess að elska Guð, náungann og sjálfan sig og hann kenndi lærisveinum sínum að fylgja fordæmi sínu. – Jóhannes 13:34, 35.
Hann elskaði Jehóva Guð mest og helgaði sig því að gera vilja hans. „Heimurinn á að sjá, að ég elska föðurinn og gjöri eins og faðirinn hefur boðið mér,“ sagði hann. – Jóhannes 14:31.
Jesús elskaði náungann og sýndi það með því að sinna þörfum annarra jafnvel að því marki að gefa sitt eigið líf. – Matteus 20:28.
Hann sýndi að hann elskaði sjálfan sig á viðeigandi hátt með því að taka sér tíma til að hvílast og borða og njóta félagsskapar við fylgjendur sína og mögulega lærisveina. – Markús 6:31, 32; Lúkas 5:29; Jóhannes 2:1, 2; 12:2.
Dregur það úr hamingju og sjálfsvirðingu að elska aðra meira en sjálfan sig?
Nei, því við erum sköpuð í mynd Guðs og höfuðeiginleiki hans er óeigingjarn kærleikur. (1. Mósebók 1:27; 1. Jóhannesarbréf 4:8) Þetta sýnir að við erum hönnuð til að sýna öðrum kærleika. Það er eðlilegt að elska sjálfan sig en við erum ánægðust þegar við elskum Guð meira en nokkurn annan og einbeitum okkur að því að gera öðrum gott. Eins og Biblían segir: „Sælla er að gefa en þiggja.“ – Postulasagan 20:35.
Nú á dögum halda margir því fram að hamingjan felist í því að setja sjálfan sig í fyrsta sætið. Þeir segja „þú skalt elska sjálfan þig“ í staðinn fyrir „þú skalt elska náunga þinn“. En reynslan sýnir og sannar að það hefur góð áhrif á heilsu manna og hamingju að fylgja viturlegu ráði Biblíunnar: „Enginn hyggi að eigin hag, heldur hag annarra.“ – 1. Korintubréf 10:24.