Kennir Biblían hugmyndina um endurholdgun?
Svar Biblíunnar
Nei, hún gerir það ekki. Í Biblíunni er hvorki að finna orðið „endurholdgun“ né hugmyndina sjálfa. Trú á endurholdgun byggist á kenningunni um ódauðleika sálarinnar. a Biblían kennir á hinn bóginn að sálin sé manneskjan í heild og því dauðleg. (1. Mósebók 2:7, neðanmáls; Esekíel 18:4) Við dauðann hættir maðurinn að vera til. – 1. Mósebók 3:19; Prédikarinn 9:5, 6.
Hver er munurinn á endurholdgun og upprisu?
Það sem Biblían kennir um upprisu byggist ekki á kenningunni um ódauðleika sálarinnar. Í upprisunni verður fólk sem hefur dáið reist aftur til lífs með mætti Guðs. (Matteus 22:23, 29; Postulasagan 24:15) Upprisan veitir þá jákvæðu von að eftir dauðann er hægt að koma aftur á jörðina og þurfa aldrei að deyja framar. – 2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 21:3, 4.
Ranghugmyndir um endurholdgun og Biblíuna
Ranghugmynd: Í Biblíunni segir að Jóhannes skírari hafi verið Elía spámaður endurholdgaður.
Staðreynd: Guð sagði fyrir: „Ég sendi Elía spámann til ykkar“ og Jesús sýndi að Jóhannes skírari uppfyllti þennan spádóm. (Malakí 4:5, 6; Matteus 11:13, 14) Það þýðir samt ekki að Jóhannes skírari hafi verið Elía endurholdgaður. Jóhannes sagði sjálfur að hann væri ekki Elía. (Jóhannes 1:21) Jóhannes vann hins vegar verk eins og Elía, flutti boðskap Guðs sem hvatti til iðrunar. (1. Konungabók 18:36, 37; Matteus 3:1) Hann reyndist líka hafa ‚anda og kraft Elía‘. – Lúkas 1:13–17.
Ranghugmynd: Í Biblíunni er átt við endurholdgun þegar talað er um „að fæðast að nýju“.
Staðreynd: Í Biblíunni kemur fram að það að „fæðast að nýju“ sé í andlegum skilningi og eigi sér stað meðan manneskjan er á lífi. (Jóhannes 1:12, 13) Þess konar fæðing er blessun frá Guði en gerist ekki sjálfkrafa vegna fyrri verka. Þeir sem hljóta hana fá einstaka framtíðarvon. – Jóhannes 3:3; 1. Pétursbréf 1:3, 4.
a Trú á ódauðleika sálarinnar og endurholdgun má rekja aftur til Forn-Babýlonar. Síðar settu indverskir heimspekingar fram lögmálið um karma. Samkvæmt Britannica Encyclopedia of World Religions er karma „lögmálið um orsök og afleiðingu sem kennir að það sem maður gerir í núverandi lífi hafi áhrif á næsta líf“. – Bls. 913.