Hvað felur það í sér að vera heilagur?
Svar Biblíunnar
Að vera heilagur felur í sér að vera aðgreindur frá því sem er óhreint. Hebreska orðið, sem þýtt er „heilagur“, merkir „aðgreindur“. Það sem er heilagt er því aðgreint frá almennri notkun vegna þess að það er hreint og tært.
Guð er heilagur í æðsta skilningi orðsins. Biblían segir: „Enginn er heilagur sem Drottinn.“ a (1. Samúelsbók 2:2) Hann ákveður því réttilega hvað sé heilagt.
Orðið „heilagur“ á við um allt sem tengist Jehóva beint, sérstaklega það sem er aðgreint fyrir notkun í tilbeiðslu. Dæmi í Biblíunni:
Helgir staðir: Guð sagði við Móse við þyrnirunnann: „Staðurinn, sem þú stendur á, er heilög jörð.“ – 2. Mósebók 3:2-5.
Helgar samkomur: Ísraelsmenn til forna tilbáðu Jehóva reglulega á hátíðum sem voru nefndar ,helgar samkomur‘. – 3. Mósebók 23:37.
Helgir hlutir: ,Helg áhöld‘ voru notuð við tilbeiðslu á Guði í musterinu í Jerúsalem til forna. (1. Konungabók 8:4) Meðhöndla átti slíka helga hluti af mikilli virðingu þótt þeir væru ekki tilbeðnir sem slíkir. b
Getur ófullkominn maður verið heilagur?
Já. Guð býður kristnum mönnum: „Verið heilög því ég er heilagur.“ (1. Pétursbréf 1:16) Ófullkomnir menn gætu auðvitað ekki verið fullkomlega heilagir. En þeir geta verið Guði þóknanlegir ef þeir hlýða réttlátum lögum hans. (Rómverjabréfið 12:1) Sá sem leitast við að vera heilagur endurspeglar það í orðum sínum og verkum. Hann eða hún fylgir til dæmis leiðbeiningum Biblíunnar um að ,halda sér frá óskírlífi‘ og ,vera heilög í öllu dagfari sínu‘. – 1. Þessaloníkubréf 4:3; 1. Pétursbréf 1:15.
Getur sá sem er heilagur í augum Guðs misst þá stöðu?
Já. Sá sem hættir að haga sér í samræmi við lög Guðs er ekki lengur heilagur í augum hans. Hebreabréfið er til dæmis stílað á ,helgaða vini‘ en samt eru þeir varaðir við því að þróa með sér ,illt í hjarta og láta efasemdir bægja sér frá lifanda Guði‘. – Hebreabréfið 3:1, 12.
Ranghugmyndir um það að vera heilagur
Ranghugmynd: Menn geta orðið heilagir með því að lifa meinlætalífi.
Staðreynd: Biblían sýnir að „harðneskja við líkamann“ eða öfgakennd sjálfsafneitun hefur ekkert gildi í augum Guðs. (Kólossubréfið 2:23) Guð vill að við njótum þess að lifa. „Að matast, drekka og gleðjast af öllu erfiði sínu, einnig það er Guðs gjöf.“ – Prédikarinn 3:13.
Ranghugmynd: Einlífi gerir mann heilagri en ella.
Staðreynd: Þótt kristinn maður kjósi að giftast ekki verður hann ekki þar með heilagur frammi fyrir Guði. Að vísu getur sá sem giftist ekki stundað tilbeiðsluna tiltölulega truflunarlaust. (1. Korintubréf 7:32-34) En Biblían sýnir að gift fólk getur líka verið heilagt. Reyndar var alla vega einn af postulum Jesú, það er að segja Pétur, kvæntur. – Matteus 8:14; 1. Korintubréf 9:5.
a Guð heitir Jehóva. Nafnið er í mörg hundruð biblíuversum tengt orðunum „heilagur“ og „heilagleiki“.
b Biblían fordæmir tilbeiðslu á helgum minjum. – 1. Korintubréf 10:14.