Hver er uppruni hrekkjavökunnar?
Svar Biblíunnar
Það er ekkert minnst á hrekkjavöku í Biblíunni, þessa hátíð sem margir halda upp á 31. október á hverju ári. En forn uppruni og siðir hrekkjavökunnar (líka kölluð allraheilagramessa) stangast á við kenningar Biblíunnar.
Í þessari grein:
Saga og siðir hrekkjavökunnar
Samhain: Uppruna hrekkjavöku má rekja aftur til „fornrar heiðinnar athafnar sem Keltar héldu hátíðlega fyrir rúmlega 2.000 árum,“ segir í fræðiritinu The World Book Encyclopedia. „Keltar trúðu að á meðan Samhainhátíðin stóð yfir gætu hinir dánu gengið á meðal þeirra og að hinir lifandi gætu átt samskipti við þá.“ – Sjá „ Hvers vegna er hún kölluð allraheilagramessa?“
Hrekkjavökubúningar, sælgæti, gjafir og hrekkir: Samkvæmt uppflettiriti klæddust sumir Keltarnir draugabúningum svo að andarnir „héldu að þeir væru líka framliðnir“ og myndu þess vegna láta þá í friði. Aðrir buðu öndunum upp á sælgæti til að friða þá. a
Í Evrópu á miðöldum tók kaþólska kirkjan heiðna siði hvers lands upp á sína arma. Í þessu tilfelli lét hún fylgjendur sína klæðast búningum og fara hús úr húsi og betla smá gjafir.
Draugar, vampírur, varúlfar, nornir og uppvakningar: Þessi fyrirbæri hafa lengi verið tengd við heim illra anda. Bókin Halloween Trivia segir að svona „yfirnáttúrulegar ófreskjur“ séu „nátengdar dauðanum, hinum dánu og ótta við dauðann“.
Hrekkjavökugrasker eða -luktir: Í Bretlandi á miðöldum „fór fólk hús úr húsi og bauðst til að biðja fyrir hinum dánu í skiptum fyrir mat“. Menn gengu með „rófur sem voru holaðar að innan sem luktir, kertið innan í þeim táknaði sálir sem voru fastar í hreinsunareldi“. (Halloween – From Pagan Ritual to Party Night) Aðrar heimildir segja að luktirnar hafi verið notaðar til að halda illum öndum í burtu. Á 19. öld í Norður-Ameríku var farið að nota grasker í staðinn fyrir rófur, bæði vegna þess að mikið var til af þeim og auðvelt að hola þau að innan og rista í þau.
Skiptir heiðinn uppruni hrekkjavökunnar máli?
Já. Þó svo að sumum finnist hrekkjavakan saklaus skemmtun þá stangast siðir hennar algerlega á við kenningar Biblíunnar. Hrekkjavakan er byggð á falskenningum um dauðann og ósýnilega anda eða djöfla.
Taktu eftir því hvað eftirfarandi vers sýna okkur um viðhorf Guðs til trúarskoðana sem tengjast hrekkjavöku:
„Á meðal ykkar má enginn finnast sem … leitar ráða hjá öndum … enginn sem leitar úrskurðar hjá framliðnum.“ – 5. Mósebók 18:10–12, Biblían 2010
Hvað þýðir það? Að Guð er andsnúinn því að menn hafi samband við hina dánu og jafnvel því að menn þykist gera það.
„Hinir dánu vita ekki neitt.“ – Prédikarinn 9:5.
Hvað þýðir það? Fyrst hinir dánu vita ekki neitt, geta þeir ekki haft samband við hina lifandi.
,Hafið ekki samfélag við illa anda. Ekki getið þið drukkið bikar Drottins og bikar illra anda.‘ – 1. Korintubréf 10:20, 21, Biblían 2010
Hvað þýðir það? Þeir sem vilja hafa velþóknun Guðs þurfa að forðast hvers kyns tengsl við illa anda.
,Standist slóttugar árásir Djöfulsins því að baráttan sem við eigum í er við andaverur vonskunnar.‘ – Efesusbréfið 6:11, 12.
Hvað þýðir það? Að kristnir menn þurfa að standa gegn illum andaverum í stað þess að þykjast vera í veislu með þeim.
a Sjá bókina Halloween: An American Holiday, an American History, bls. 4.