Verður jörðinni eytt?
Svar Biblíunnar
Nei, jörðinni verður aldrei eytt. Hún verður aldrei brennd í eldi og ný kemur aldrei í hennar stað. Biblían kennir að Guð hafi skapað jörðina til að hún verði byggileg að eilífu.
„Réttlátir fá landið til eignar og búa þar ævinlega.“ – Sálmur 37:29.
,Guð grundvallar jörðina á undirstöðum hennar svo að hún haggast eigi um aldur og ævi.‘ – Sálmur 104:5.
„Jörðin stendur að eilífu.“ – Prédikarinn 1:4.
„Hann mótaði jörðina og bjó hana til, hann grundvallaði hana, hann skapaði hana ekki sem auðn heldur gerði hana byggilega.“ – Jesaja 45:18.
Munu mennirnir eyða jörðinni?
Guð leyfir mönnunum ekki að tortíma jörðinni með mengun, hernaði eða öðrum hætti. Hann ætlar hinsvegar að „eyða þeim sem jörðina eyða“. (Opinberunarbókin 11:18) Hvernig gerir hann það?
Guð mun skipa fullkomna himneska stjórn í stað ríkisstjórna manna sem hafa ekki getað verndað jörðina. (Daníel 2:44; Matteus 6:9, 10) Sonur Guðs Jesús Kristur mun stjórna þessu ríki. (Jesaja 9:5, 6) Þegar Jesús var á jörðinni gat hann stjórnað náttúruöflunum með yfirnáttúrulegum hætti. (Markús 4:35-41) Sem konungur ríkis Guðs hefur hann fullt vald yfir jörðinni og náttúruöflunum. Hann mun koma jörðinni í upphaflegt horf svipað og var í Edengarðinum. – Matteus 19:28; Lúkas 23:43.
Kennir Biblían ekki að jörðinni verði eytt í eldi?
Nei, þessi ranghugmynd kemur til af því að fólk misskilur 2. Pétursbréf 3:7 en þar er sagt ,að himnunum sem nú eru ásamt jörðinni verði eytt með eldi‘. Lítum á tvö mikilvæg atriði sem hjálpa okkur að skilja hvað er átt við með þessum orðum:
Í Biblíunni eru orðin himinn, jörð og eldur notuð í fleiri en einni merkingu. Tökum 1. Kroníkubók 16:31 sem dæmi, en þar segir: „Himininn gleðjist og jörðin fagni.“ Hér merkir „jörðin“ jarðarbúa.
Samhengið í 2. Pétursbréfi 3:7 gefur til kynna hvað orðin himinn, jörð og eldur merkja í þessu sambandi. Í 5. og 6. versi er dregin upp hliðstæða við flóðið á dögum Nóa. Þá var hinum forna heimi eytt en jörðin hvarf ekki. Þess í stað gereyddi flóðið hinum rangláta mannheimi eða ,jörðinni‘. (1. Mósebók 6:11) Flóðið tortímdi líka nokkurs konar ,himnum‘, það er að segja fólkinu sem stjórnaði samfélagi manna á jörðinni. Ranglátu fólki var því eytt en ekki jörðinni sjálfri. Nói og fjölskylda hans lifðu eyðingu þess heims sem þá var og bjuggu á jörðinni eftir flóðið. – 1. Mósebók 8:15-18.
Svipað og í vatnsflóðinu mun eyðingin eða ,eldurinn‘ í 2. Pétursbréf 3:7 eyða illum mannheimi en ekki jörðinni sjálfri. Guð lofar ,nýjum himni og nýrri jörð þar sem réttlæti býr‘. (2. Pétursbréf 3:13) ,Nýr himinn‘ eða ný forysta, ríki Guðs, fer með stjórnina yfir ,nýju jörðinni‘ eða samfélagi mannanna. Undir stjórn þessa ríkis verður jörðin friðsæl paradís. – Opinberunarbókin 21:1-4.