Hoppa beint í efnið

Hvað segir Biblían um Maríu mey?

Hvað segir Biblían um Maríu mey?

 Svar Biblíunnar

 Í Biblíunni segir að María móðir Jesú hafi hlotið þann einstaka heiður að fæða hann þegar hún var enn hrein mey. Biblían sagði fyrir um þetta kraftaverk í Jesajabók og sagði frá uppfyllingu þess í guðspjöllum Matteusar og Lúkasar.

 Jesaja sagði varðandi spádóminn um komu Messíasar: „Unga konan verður barnshafandi og fæðir son.“ (Jesaja 7:14) Guðspjallaritarinn Matteus tengdi spádóm Jesaja við það þegar María varð þunguð af Jesú. Eftir að Matteus segir frá því að María hafi orðið þunguð fyrir kraftaverk bætir hann við: „Allt gerðist þetta til að það rættist sem Jehóva sagði fyrir milligöngu spámanns síns: ‚Meyjan a verður barnshafandi og fæðir son og hann verður nefndur Immanúel‘ en það merkir ‚Guð er með okkur‘.“ – Matteus 1:22, 23.

 Guðspjallaritarinn Lúkas sagði líka frá kraftaverkaþungun Maríu. Hann skrifaði að Guð hefði sent engilinn Gabríel „til meyjar sem var trúlofuð manni af ætt Davíðs. Hann hét Jósef og mærin hét María.“ (Lúkas 1:26, 27) María staðfesti að hún væri mey. Eftir að hún fékk að vita að hún skildi verða móðir Jesú, Messíasar, spurði hún: „Hvernig getur þetta gerst fyrst ég hef ekki lagst með manni?“ – Lúkas 1:34.

 Hvernig gat hrein mey fætt barn?

 Þungun Maríu kom til af völdum heilags anda, sem er starfskraftur Guðs. (Matteus 1:18) Maríu var sagt: „Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur Hins hæsta umlykja þig. Þess vegna verður barnið sem fæðist kallað heilagt, sonur Guðs.“ b (Lúkas 1:35) Guð færði líf sonar síns fyrir kraftaverk í móðurkvið Maríu og lét hana þannig verða barnshafandi.

 Hver var tilgangur meyjarfæðingarinnar?

 Guð notaði meyjarfæðinguna til að sjá Jesú fyrir fullkomnum mannslíkama svo að hann gæti bjargað mannkyninu undan synd og dauða. (Jóhannes 3:16; Hebreabréfið 10:5) Guð færði líf Jesú í móðurkvið Maríu. Þaðan í frá verndaði heilagur andi Guðs greinilega fóstrið fyrir hvers kyns ófullkomleika. – Lúkas 1:35.

 Jesús fæddist því sem fullkomin manneskja og var þannig jafn Adam áður en hann syndgaði. Biblían segir um Jesú: „Hann syndgaði aldrei.“ (1. Pétursbréf 2:22) Sem fullkominn maður gat Jesús greitt lausnargjald til að leysa menn undan synd og dauða. – 1. Korintubréf 15:21, 22; 1. Tímóteusarbréf 2:5, 6.

 Hélt María áfram að vera mey?

Biblían segir ekki að María hafi verið mey ævilangt. Hún segir öllu heldur að María hafi eignast fleiri börn. – Matteus 12:46; Markús 6:3; Lúkas 2:7; Jóhannes 7:5.

Í Biblíunni kemur fram að Jesús hafi átt systkini.

 Fjallar kenningin um „syndlausan getnað“ um Jesú?

 Nei. Samkvæmt New Catholic Encyclopedia er kenningin um syndlausan getnað „sú trú að María mey hafi verið laus við ERFÐASYNDINA alla ævi, þ.e.a.s. frá getnaði. Allt mannkynið erfir manneðli sem er sýkt syndinni … en Maríu var, vegna einstakrar GÓÐVILDAR, hlíft við því að þurfa nokkurn tíma að komast í snertingu við erfðasyndina.“ c

 En Biblían talar hvergi um að María hafi verið laus við erfðasyndina. (Sálmur 51:5; Rómverjabréfið 5:12) María lét reyndar í ljós að hún væri syndug þegar hún færði friðþægingarfórn sem Móselögin kröfðust af mæðrum. (3. Mósebók 12:2–8; Lúkas 2:21–24) Í New Catholic Encyclopedia segir: „Kenningin um syndlausan getnað á sér ekki stoð í Biblíunni … [Hún] er ályktun sem kirkjan hefur dregið.“

 Hvernig ættum við að líta á Maríu?

 María var góð fyrirmynd í að sýna trú, hlýðni, auðmýkt og djúpan kærleika til Guðs. Hún er meðal þeirra sem voru trúfastir og við ættum að líkja eftir. – Hebreabréfið 6:12.

 En þó að María hafi fengið þetta einstaka hlutverk að vera móðir Jesú kennir Biblían ekki að við ættum að tilbiðja hana eða biðja til hennar. Jesús veitti móður sinni ekki sértakan heiður og sagði fylgjendum sínum ekki heldur að gera það. María er reyndar ekki nefnd í Biblíunni nema í guðspjöllunum og einu sinni í Postulasögunni. (Postulasagan 1:14) Hinar 22 bækur Nýja testamentisins minnast ekki á hana.

 Í Biblíunni er ekkert sem bendir til þess að María hafi fengið sérstaka athygli – hvað þá lotningu – frá frumkristnum mönnum. Biblían kennir kristnum mönnum að tilbiðja aðeins Guð. – Matteus 4:10.

a Hebreska orðið sem er þýtt „unga konan“ í spádómi Jesaja er ʽal·mahʹ, en það getur bæði átt við konu sem er mey eða konu sem er það ekki. En undir innblæstri notaði Matteus nákvæmara grískt orð, par·theʹnos, sem þýðir ‚mey‘.

b Sumir andmæla notkun hugtaksins „sonur Guðs“ og finnst það gefa í skyn að Guð hafi haft kynmök við konu. En sú hugmynd er ekki kennd í Biblíunni. Biblían kallar Jesú ‚son Guðs‘ og ‚frumburð alls sem er skapað‘ vegna þess að hann var sá fyrsti og eini sem Guð skapaði milliliðalaust. (Kólossubréfið 1:13–15) Biblían talar líka um fyrsta manninn, Adam, sem ‚son Guðs‘. (Lúkas 3:38) Það var vegna þess að Guð skapaði Adam.

c Önnur útgáfa, 7. bindi, bls. 331.