Hvað segir Biblían um náttúruhamfarir?
Svar Biblíunnar
Guð er ekki valdur að þeim náttúruhamförum sem eiga sér stað nú á tímum en honum er umhugað um þá sem verða fyrir þeim. Ríki Guðs mun binda enda á allt sem veldur þjáningum, þar á meðal náttúruhamfarir. Þangað til veitir Guð þeim huggun sem lenda í slíkum hörmungum. – 2. Korintubréf 1:3.
Hvernig getum við verið viss um að náttúruhamfarir séu ekki refsing frá Guði?
Í Biblíunni er sagt frá því að Guð hafi notað náttúruöfl til að fullnægja dómum. En því má ekki rugla saman við náttúruhamfarir.
Náttúruhamfarir gera sér engan mannamun. Þegar Guð notaði náttúruöflin til að fullnægja dómum sá hann hins vegar til þess að aðeins hinir vondu létu lífið. Hann hlífði til dæmis Lot, sem var góður maður, og dætrum hans tveim þegar hann eyddi Sódómu og Gómorru. (1. Mósebók 19:29, 30) Guð sá hvað bjó í hjörtum fólks á þeim tíma og tortímdi aðeins hinum vondu. – 1. Mósebók 18:23–32; 1. Samúelsbók 16:7.
Náttúruhamfarir gera yfirleitt lítil eða engin boð á undan sér. Á hinn bóginn varaði Guð vont fólk við áður en hann beitti náttúruöflunum gegn því. Þeir sem tóku viðvaranir hans til sín komust undan ógæfunni. – 1. Mósebók 7:1–5; Matteus 24:38, 39.
Mennirnir hafa að sumu leyti ýtt undir náttúruhamfarir. Hvernig þá? Með því að skemma náttúruna og byggja á svæðum þar sem mikil hætta er á jarðskjálftum, flóðum og veðurofsa. (Opinberunarbókin 11:18) Slíkar ákvarðarnir manna eru ekki Guði að kenna. – Orðskviðirnir 19:3.
Eru náttúruhamfarir tákn þess að við lifum á síðustu dögum?
Já. Í Biblíunni var því spáð fyrir að hamfarir myndu verða á endalokatíma þessa heimskerfis, það er að segja „á síðustu dögum“. (2. Tímóteusarbréf 3:1; Matteus 24:3) Jesús sagði til að mynda um okkar tíma: „Þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum.“ (Matteus 24:7) Bráðum mun Guð binda enda á allt sem veldur kvöl og sársauka, þar á meðal náttúruhamfarir. – Opinberunarbókin 21:3, 4.
Hvernig hjálpar Guð þeim sem verða fyrir náttúruhamförum?
Guð hughreystir þá sem verða fyrir náttúruhamförum með orði sínu, Biblíunni. Biblían fullvissar okkur um að Guði sé annt um okkur og að hann finni til með okkur þegar við þjáumst. (Jesaja 63:9, Biblían 1981; 1. Pétursbréf 5:6, 7) Hún segir líka frá loforði hans um þann tíma þegar náttúruhamfarir heyra sögunni til. – Sjá „ Hughreystandi biblíuvers fyrir þá sem verða fyrir náttúruhamförum“.
Guð notar tilbiðjendur sína til að hjálpa þeim sem verða fyrir hamförum. Guð vill að tilbiðjendur sínir á jörð líki eftir Jesú. Því var spáð fyrir að Jesús myndi hughreysta þá sem hefðu „sundurmarin hjörtu“ og alla „þá sem hryggir eru“. (Jesaja 61:1, 2) Tilbiðjendur Guðs leggja sig fram við að gera hið sama. – Jóhannes 13:15.
Guð notar einnig tilbiðjendur sína til að sjá fórnarlömbum náttúruhamfara fyrir efnislegum og líkamlegum nauðsynjum. – Postulasagan 11:28–30; Galatabréfið 6:10.
Getur Biblían hjálpað okkur að vera viðbúin náttúruhamförum?
Já. Biblían var ekki skrifuð í þeim tilgangi að búa okkur undir náttúruhamfarir. Hins vegar hefur hún að geyma meginreglur sem geta hjálpað okkur. Tökum dæmi:
Gerðu viðbragðsáætlun. „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig,“ segir í Biblíunni. (Orðskviðirnir 22:3) Það er viturlegt að gera viðbragðsáætlun. Slík áætlun getur falið í sér að útbúa neyðartösku sem hægt er að grípa með sér ef neyðarástand skapast. Fjölskyldan ætti líka að æfa hvar hún eigi að hittast ef hamfarir verða.
Mundu að lífið er verðmætara en eignir. Biblían segir: „Ekkert höfum við inn í heiminn flutt og ekki getum við heldur flutt neitt út þaðan.“ (1. Tímóteusarbréf 6:7, 8) Við verðum að vera tilbúin að yfirgefa heimili okkar og eigur til að flýja hörmungar. Munum að lífið er langtum mikilvægara en nokkur efnislegur hlutur. – Matteus 6:25.