Hoppa beint í efnið

Hver er nýja Jerúsalem?

Hver er nýja Jerúsalem?

Svar Biblíunnar

 „Nýja Jerúsalem“ kemur tvisvar fyrir í Biblíunni og er táknræn borg sem merkir hóp fylgjenda Jesú sem fara til himna til að ríkja með honum í ríki Guðs. (Opinberunarbókin 3:12; 21:2) Í Biblíunni er þessi hópur einnig kallaður brúður Krists.

Kennsl borin á nýju Jerúsalem

  1.   Nýja Jerúsalem er á himnum. Í hvert sinn sem minnst er á nýju Jerúsalem í Biblíunni er hún sögð koma niður frá himni og englar gæta borgarhliða hennar. (Opinberunarbókin 3:12; 21:2, 10, 12) Stærð borgarinnar sýnir fram á að hún gæti ekki verið á jörðinni. Hún er ferhyrningur og 12.000 skeiðrúm að ummáli. a (Opinberunarbókin 21:16) Hliðar hennar væru því næstum 560 km háar og teygðu sig út í geym.

  2.   Nýja Jerúsalem, brúður Krists, samanstendur af hópi fylgjenda Jesú. Nýja Jerúsalem er kölluð ,brúðurin, eiginkona lambsins‘.(Opinberunarbókin 21:9, 10) Í þessari táknrænu lýsingu er lambið Jesús Kristur. (Jóhannes 1:29; Opinberunarbókin 5:12) ,Eiginkona lambsins‘, brúður Krists, táknar þjóna Guðs sem sameinast Jesú á himnum. Biblían líkir sambandinu milli Jesú og þessara þjóna Guðs við samband eiginmanns og eiginkonu. (2. Korintubréf 11:2; Efesusbréfið 5:23-25) Undirstöðusteinar nýju Jerúsalem eru auk þess með ,nöfnum hinna tólf postula lambsins‘.(Opinberunarbókin 21:14) Það auðveldar okkur að staðfesta hver nýja Jerúsalem er þar sem þjónar Guðs, sem eru kallaðir til lífs á himnum, eru „bygging sem hefur að grundvelli postulana og spámennina“. – Efesusbréfið 2:20.

  3.   Nýja Jerúsalem er hluti af ríkisstjórn. Jerúsalem til forna var höfuðborg Ísrael þar sem Davíð konungur, sonur hans, Salómon og afkomendur þeirra sátu í hásæti Drottins. (1. Kroníkubók 29:23) Jerúsalem, kölluð ,hin heilaga borg‘, var tákn um stjórn Guðs fyrir milligöngu konungsættar Davíðs. (Nehemíabók 11:1) Nýja Jerúsalem, einnig kölluð ,borgin helga‘, samanstendur af þeim sem sameinast Jesú á himnum til að „ríkja á jörðinni“.–Opinberunarbókin 5:9, 10; 21:2.

  4.   Nýja Jerúsalem færir fólki á jörðinni blessun. Nýju Jerúsalem er lýst sem hún ,stígi niður af himni frá Guði‘ sem sýnir að Guð notar hana til að hlutast til um málefni utan himinsins. (Opinberunarbókin 21:2) Þetta orðalag tengir nýju Jerúsalem við ríki Guðs sem Guð notar til að framkvæma vilja sinn „svo á jörðu sem á himni“. (Matteus 6:10) Þessi blessun er hluti af tilgangi Guðs með fólk á jörðinni.

    •   Syndin fjarlægð. ,Móða lífsvatnsins‘ rennur frá nýju Jerúsalem og vökvar „lífsins tré“ sem eru „til lækningar þjóðunum“. (Opinberunarbókin 22:1, 2) Þessi líkamlega og andlega lækning fjarlægir syndina og gerir fólki kleyft að öðlast fullkomið líf eins og Guð ætlaði upphaflega. – Rómverjabréfið 8:21.

    •   Gott samband milli Guðs og mannkynsins. Syndin hefur gert mannkynið fráhverft Guði. (Jesaja 59:2) Þegar syndin verður ekki framar til uppfyllist eftirfarandi spádómur algerlega: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra“ – Opinberunarbókin 21:3.

    •   Endir á þjáningum og dauða. Guð notar ríki sitt til að „þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til“. – Opinberunarbókin 21:4.

a Mælieining Rómverja miðuð við leikvang og var 185 m.