Skiptir Guð um skoðun?
Svar Biblíunnar
Já, hann gerir það, í þeim skilningi að hann breytir um viðmót þegar fólk breytir hegðun sinni. Guð sagði til dæmis þegar hann sendi fólkinu í Ísrael til forna dómsboðskap: „Kannski hlusta þeir og snúa hver og einn af sinni illu braut. Þá hætti ég við þær hörmungar sem ég hef ákveðið að leiða yfir þá vegna illskuverka þeirra.“ – Jeremía 26:3.
Í mörgum biblíuþýðingum segir í þessu versi að Guð ‚iðrist‘ hörmunganna sem hann ætlaði að leiða yfir fólkið. Það gæti skilist þannig að Guð hafi gert mistök. En upprunalega orðið í hebresku getur þýtt ‚að skipta um skoðun eða ásetning‘. Fræðingur nokkur skrifaði: „Þegar fólk breytir framkomu sinni breytir Guð dómi sínum.“
En þó að Guð geti skipt um skoðun þýðir það að sjálfsögðu ekki að hann verði að gera það. Skoðum nokkur dæmi um það þegar Biblían greinir frá því að Guð hafi ekki skipt um skoðun:
Guð lét Balak ekki fá sig til að skipta um skoðun og formæla Ísraelsþjóðinni. – 4. Mósebók 23:18–20.
Þegar Sál konungur Ísraels var orðinn rótgróinn í illsku sinni skipti Guð ekki um skoðun varðandi það að hafna honum sem konungi. – 1. Samúelsbók 15:28, 29.
Guð mun standa við loforð sitt um að gera son sinn að presti að eilífu. Guð mun ekki skipta um skoðun. – Sálmur 110:4.
Segir ekki Biblían að Guð breytist aldrei?
Jú, Biblían hefur eftir Guði: „Ég er Jehóva og ég breytist ekki.“ (Malakí 3:6) Sömuleiðis segir í Biblíunni að Guð „breytist ekki eins og síbreytilegir skuggar“. (Jakobsbréfið 1:17) Þetta stangast þó ekki á við það sem Biblían segir varðandi það að Guð skipti um skoðun. Persónuleiki Guðs og mælikvarði hans á kærleika og réttlæti breytist aldrei. (5. Mósebók 32:4; 1. Jóhannesarbréf 4:8) En hann getur gefið fólki mismunandi leiðbeiningar á mismunandi tímum. Guð gaf Davíð konungi til dæmis ólíkar leiðbeiningar varðandi hvað skildi gera í tveim baráttum sem voru hver á fætur annarri, en báðar aðferðirnar báru árangur. – 2. Samúelsbók 5:18–25.
Sér Guð eftir því að hafa skapað mennina?
Nei, en honum þykir leitt að flestir hunsi hann eða hafni honum. Biblían segir um ástandið í heiminum fyrir flóðið á dögum Nóa: „Jehóva sá eftir því að hafa skapað mennina á jörðinni og honum sárnaði í hjarta sínu.“ (1. Mósebók 6:6) Í þessu versi kemur „sá eftir“ frá hebresku orði sem þýðir ‚að skipta um skoðun‘. Guð skipti um skoðun varðandi flest fólk á jörðinni fyrir flóðið vegna þess að það hafði orðið illt. (1. Mósebók 6:5, 11) Þó að honum þætti leitt að fólkið valdi að fylgja slæmri stefnu breytti hann ekki viðmóti sínu gagnvart mannkyninu í heild. Hann varðveitti mannkynið í flóðinu með Nóa og fjölskyldu hans. – 1. Mósebók 8:21; 2. Pétursbréf 2:5, 9.