LÍKJUM EFTIR TRÚ ÞEIRRA | MARÍA MAGDALENA
„Ég hef séð Drottin!“
María Magdalena leit til himins og þurrkaði burt tárin. Drottinn hennar, sem hún elskaði, hékk á staur. Þetta var um hádegi á vordegi „en samt skall á myrkur í öllu landinu“! (Lúkas 23:44, 45) Hún vafði að sér yfirhöfninni og færði sig nær konunum sem stóðu þar líka. Sólmyrkvi, sem varir aðeins í nokkrar mínútur, getur ekki skýrt þetta þriggja klukkustunda myrkur. Kannski heyrðu María og aðrir sem stóðu nálægt Jesú í dýrum sem heyrðist venjulega í á næturnar. Sumir sem fylgdust með urðu „mjög hræddir og sögðu: ‚Hann var sannarlega sonur Guðs.‘“ (Matteus 27:54) Fylgjendur Jesú og aðrir hafa ef til vill hugsað að Jehóva hafi með þessu tjáð sorg sína og vanþóknun á því hve grimmilega var komið fram við son hans.
María Magdalena gat varla afborið að fylgjast með en vildi samt ekki fara frá honum. (Jóhannes 19:25, 26) Jesús hlýtur að hafa liðið óbærilegar kvalir. Móðir hans þurfti einnig á huggun og stuðningi að halda.
Eftir allt sem Jesús hafði gert fyrir Maríu vildi hún gera allt sem hún gat fyrir hann. Hún var eitt sinn vansæl og fyrirlitin kona en Jesús hafði breytt því. Hann hafði gefið henni sjálfsvirðingu og tilgang í lífinu. Hún eignaðist sterka trú. Hvernig? Og hvað lærum við af trú hennar?
„Aðstoðuðu þá með eigum sínum“
Saga Maríu Magdalenu í Biblíunni byrjar á því að hún fær gjöf. Jesús gaf henni frelsi, leysti hana úr aðstæðum sem voru eins og martröð. Í þá daga höfðu illir andar áhrif á marga og þeir réðust jafnvel á fólk. Þeir stjórnuðu sumu fólki. Ekki er vitað hvernig áhrif illu andarnir höfðu á vesalings Maríu Magdalenu. Við vitum aðeins að hún hafði verið andsetin sjö skelfilegum og siðspilltum öndum. Og það var Jesú að þakka að þeir voru allir reknir út af henni! – Lúkas 8:2.
Við getum ekki ímyndað okkur hversu mikill léttir það hefur verið fyrir Maríu að öðlast loksins frelsi og fá nýtt líf. Hvernig gæti hún sýnt þakklæti? Hún varð tryggur fylgjandi Jesú. Hún gerði líka sitt til að hjálpa. Jesús og postularnir þurftu mat, föt og stað til að gista á. Þeir voru ekki efnaðir og unnu enga veraldlega vinnu á þeim tíma. Til að einbeita sér að boðuninni og kennslunni þurftu þeir efnislegan stuðning.
María og nokkrar aðrar konur hjálpuðu til við að sjá fyrir þeim. Konurnar „aðstoðuðu þá með eigum sínum“. (Lúkas 8:1, 3) Sumar þeirra voru kannski vel stæðar. Það segir ekkert í Biblíunni um það hvort þær matreiddu, þvoðu föt eða sáu til þess að þeir hefðu húsnæði í einu þorpinu á fætur öðru. En þær voru fúsar að leggja til þá vinnu sem þurfti til að styðja þennan hóp sem ferðaðist um og taldi mögulega um 20 manns. Það sem þær lögðu á sig var Jesú og postulunum dýrmæt hjálp til að geta einbeitt sér algerlega að boðun trúarinnar. María vissi auðvitað að hún gæti aldrei endurgoldið Jesú fyrir það sem hann hafði gert fyrir hana en það veitti henni mikla ánægju að gera það sem hún gat.
Margir líta ef til vill niður á þá sem vinna við að þjónusta aðra. En þannig hugsar Guð ekki. Hugsa sér hvað hann hefur verið ánægður að sjá Maríu gefa af sjálfri sér og gera allt sem í hennar valdi stóð til að styðja Jesú og postulana. Nú á dögum vinna margir trúfastir þjónar Guðs glaðir við að þjóna öðrum. Stundum getur góðverk eða jafnvel uppörvandi orð gert öðrum mjög gott. Jehóva kann að meta slíkt. – Orðskviðirnir 19:17; Hebreabréfið 13:16.
„Hjá kvalastaur Jesú“
María Magdalena var ein þeirra mörgu kvenna sem var með Jesú á leið til Jerúsalem á páskum árið 33. (Matteus 27:55, 56) Hún hefur örugglega komist í mikið uppnám þegar hún frétti að Jesús hefði verið handtekinn og yfirheyrður um nótt. Og þetta átti eftir að versna. Pontíus Pílatus landstjóri dæmdi Jesú til pyntinga og dauða á staur að áeggjan trúarleiðtoga Gyðinga og mannfjöldans sem einnig var undir áhrifum þeirra. Vel má vera að María hafi séð meistara sinn, blóðugan og úrvinda, þegar hann barðist áfram með langan aftökustaurinn eftir strætunum. – Jóhannes 19:6, 12, 15–17.
Eftir að myrkur skall á um miðjan dag stóð María Magdalena ásamt öðrum konum „hjá kvalastaur Jesú“ þar sem aftakan fór fram. (Jóhannes 19:25) María stóð þar uns yfir lauk og sá og heyrði Jesú biðja Jóhannes, ástkæran postula sinn, að sjá um móður sína. Hún heyrði þegar Jesús hrópaði af kvölum til föður síns. Og hún heyrði það sem hann sagði sigri hrósandi að lokum rétt áður en hann dó: „Ætlunarverkinu er lokið.“ Hún leið sálarkvalir. En hún var greinilega áfram þarna eftir að Jesús gaf upp andann. Síðar sat hún hjá nýrri gröf sem ríkur maður að nafni Jósef frá Arímaþeu lagði lík Jesú í. – Jóhannes 19:30; Matteus 27:45, 46, 57–61.
Það sem María gerði minnir okkur á hvað við getum gert þegar trúsystkini okkar glíma við erfiðar prófraunir. Við getum kannski ekki komið í veg fyrir harmleik eða losað einhvern við sársaukann. En við getum samt sýnt samkennd og hugrekki. Bara það að vera til staðar til að styðja vin getur skipt gríðarlega miklu máli þegar einhver glímir við erfiðar aðstæður. Að standa við hlið vinar sem á erfitt sýnir sterka trú og getur verið mjög mikil huggun. – Orðskviðirnir 17:17.
„Ég skal sækja hann“
Eftir að líkami Jesú var lagður í gröf var María með konunum sem útveguðu ilmjurtir til að bera á hann. (Markús 16:1, 2; Lúkas 23:54–56) Síðan fór hún snemma á fætur morguninn eftir hvíldardaginn. Sjáum hana fyrir okkur á leið um dimmar götur með hinum konunum á leið til grafarinnar. Á leiðinni veltu þær fyrir sér hvernig þær gætu velt þungum steininum frá grafarmunnanum. (Matteus 28:1; Markús 16:1–3) En þetta stoppaði þær ekki. Trú þeirra fékk þær greinilega til að gera það sem þær gátu og treysta Jehóva fyrir afganginum.
María hefur ef til vill verið á undan hinum að gröfinni. Henni var mjög brugðið og stoppaði snögglega. Steininum hafði verið velt frá og gröfin var tóm! María var kona sem hikaði ekki við hlutina og hljóp til baka til að láta Pétur og Jóhannes vita hvað hún hafði séð. Hún hefur trúlega verið móð þegar hún sagði þeim: „Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni og við vitum ekki hvar þeir hafa lagt hann.“ Pétur og Jóhannes flýttu sér til grafarinnar og fengu það staðfest að hún væri tóm og sneru síðan aftur heim til sín. a – Jóhannes 20:1–10.
Þegar María sneri aftur til grafarinnar dokaði hún þar við ein. Þetta var mjög snemma morguns og þögnin í gröfinni yfirþyrmandi. Hún brast í grát. Hún beygði sig til að líta inn í gröfina og gat enn ekki skilið að Drottinn væri horfinn en þá varð henni mjög brugðið. Tveir hvítklæddir englar sátu þar! „Hvers vegna græturðu?,“ spurðu þeir. Undrandi endurtók hún það sem hún hafði sagt við postulana: „Þeir hafa tekið Drottin minn og ég veit ekki hvar þeir hafa lagt hann.“ – Jóhannes 20:11–13.
Hún sneri sér við og þarna stóð maður. Hún þekkti hann ekki og áleit að hann væri garðyrkjumaðurinn sem sæi um svæðið. Maðurinn spurði hana vingjarnlega: „Kona, hvers vegna græturðu? Að hverjum ertu að leita?“ María svaraði: „Herra, ef þú hefur farið með hann segðu mér þá hvar þú hefur lagt hann og ég skal sækja hann.“ (Jóhannes 20:14, 15) Pældu aðeins í því sem hún sagði. Hefði þessi kona getað haldið einsömul á líkama Jesú Krists sem hafði verið sterkur og kraftmikill karlmaður? María leiddi ekki hugann að því. Hún vissi bara að hún þurfti að gera það sem hún gat.
Getum við líkt eftir Maríu Magdalenu þegar við mætum sorgum og hindrunum sem virðast stærri en við getum ráðið við? Við gætum lamast af ótta og óvissu ef við einblínum bara á veikleika okkar og takmörk. En ef við einsetjum okkur að gera allt sem í okkar valdi stendur og treystum Guði fyrir afganginum getum við áorkað langtum meira en við getum ímyndað okkur. (2. Korintubréf 12:10; Filippíbréfið 4:13) Og það sem mestu máli skiptir, við gleðjum Jehóva. María gerði það sannarlega og hann launaði henni á mjög sérstakan hátt.
„Ég hef séð Drottin!“
Maðurinn sem stóð fyrir framan Maríu var ekki garðyrkjumaður. Hann hafði einu sinni verið smiður, síðan kennari og seinna meir elskaður Drottinn Maríu. En hún þekkti hann ekki og sneri sér við. María hefði ekki getað ímyndað sér hvað hafði gerst: Jesús hafði verið reistur upp til lífs sem máttug andavera. Sem slíkur holdgaðist hann en ekki líkamanum sem hann hafði fórnað. Þessa spennandi daga sem fóru í hönd birtist hann oft án þess að jafnvel þeir sem voru honum vel kunnugir þekktu hann. – Lúkas 24:13–16; Jóhannes 21:4.
Hvernig lét Jesús Maríu vita að þetta var hann? Með því hvernig hann sagði eitt orð: „María!“ Hún sneri sér við og hrópaði þekkt orð á hebresku sem hún hafði vafalaust oft notað þegar hún ávarpaði hann – „Rabbúní!“ Þetta var kennarinn hennar sem henni þótti svo vænt um! Það fór um hana gleðistraumur. Hún greip í hann og vildi ekki sleppa takinu. – Jóhannes 20:16.
Jesús vissi hvað hún hugsaði. „Haltu ekki í mig,“ sagði hann. Við getum ímyndað okkur hann segja þetta hlýlega, kannski brosandi, og losa tak hennar varlega af sér og segja síðan: „Ég er enn ekki stiginn upp til föðurins.“ Það var ekki kominn tími fyrir hann að fara til himna. Hann hafði enn verk að vinna á jörðinni og vildi að María hjálpaði til. María hlustaði auðvitað mjög vel. „Farðu til bræðra minna,“ sagði hann, „og segðu þeim: ‚Ég stíg upp til föður míns og föður ykkar, til Guðs míns og Guðs ykkar‘.“ – Jóhannes 20:17.
Hvílíkt verkefni sem hún fékk frá meistara sínum! María var ein af fyrstu lærisveinunum sem fékk að sjá Jesú upprisinn og nú var henni treyst fyrir að flytja öðrum þessar góðu fréttir. Hugsa sér hversu glöð hún hefur verið og áköf að finna lærisveinana. Hún sagði móð eftir hlaupin: „Ég hef séð Drottin!.“ Þessi orð hafa ómað áfram í eyrum þeirra sem heyrðu. Hún sagði þeim allt óðamála sem Jesús hafði sagt við hana. (Jóhannes 20:18) Frásögn hennar kom heim og saman við það sem hinar konurnar sem fundu gröf Jesú tóma höfðu sagt lærisveinunum. – Lúkas 24:1–3, 10.
‚Þeir trúðu ekki konunum‘
Hvernig brugðust karlmennirnir við? Ekki mjög vel í fyrstu. Við lesum: „Þeim fannst þetta fráleitt og trúðu ekki konunum.“ (Lúkas 24:11) Þeir vildu vel en voru aldir upp í samfélagi sem hafði tilhneigingu til að vantreysta konum. Samkvæmt erfikenningum rabbína var vitnisburður kvenna ekki gildur fyrir dómstólum. Kannski voru postularnir fyrir meiri áhrifum af menningunni sem þeir ólust upp við en þeir gerðu sér grein fyrir. En Jesús og faðir hans eru algerlega lausir við slíka fordóma. Þeir veittu þessari trúföstu konu mikinn heiður!
María lét viðbrögð þessara karlmanna ekki koma sér í uppnám. Hún vissi að meistari hennar treysti henni og það var henni nóg. Öllum sem fylgja Jesú er líka treyst fyrir því að flytja boðskap. Biblían kallar þennan boðskap „fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs“. (Lúkas 8:1) Jesús lofaði fylgjendum sínum ekki að allir myndu trúa þeim eða kunna að meta það sem þeir gerðu. Þvert á móti. (Jóhannes 15:20, 21) Þjónar Guðs gera vel að muna eftir Maríu Magdalenu. Vantrú hennar eigin trúbræðra gat ekki kæft gleði hennar við að segja frá þessum góðu fréttum um upprisu Jesú.
Síðar birtist Jesús postulunum og síðan fleiri lærisveinum sínum. Við eitt tækifæri birtist hann meira en 500 manns. (1. Korintubréf 15:3–8) Trú Maríu styrktist í hvert sinn sem hann birtist, hvort sem hún var viðstödd eða heyrði af því. Ef til vill var María Magdalena ein af konunum sem minnst er á að hafi verið í Jerúsalem þegar fólk safnaðist saman á hvítasunnunni og heilögum anda var úthellt yfir fylgjendur Jesú. – Postulasagan 1:14, 15; 2:1–4.
Hvað sem því líður getum við verið handviss um að trú Maríu Magdalenu var sterk allt til enda. Við viljum öll vera ákveðin í að hafa slíka trú. Við viljum líkja eftir trú Maríu Magdalenu og sýna þakklæti fyrir allt sem Jesús hefur gert fyrir okkur, þjóna öðrum auðmjúk og treysta á hjálp Guðs.
a María hafði greinilega farið frá gröfinni áður en hinar konurnar í hópnum mættu engli sem sagði þeim að Kristur hefði risið upp. Annars hefði hún örugglega sagt Pétri og Jóhannesi að hún hefði séð engil sem hefði sagt henni hvers vegna líkami Jesú væri horfinn. – Matteus 28:2–4; Markús 16:1–8.