Hoppa beint í efnið

LÍKJUM EFTIR TRÚ ÞEIRRA | ELÍA

Elía: Hann var þolgóður allt til enda

Elía: Hann var þolgóður allt til enda

 Elía fær fréttir um að Akab konungur sé dáinn. Ímyndum okkur þennan aldraða spámann strjúka skegg sitt hugsi og rifja upp áratugalöng samskipti við þennan illa konung. Elía hafði mátt þola mikið. Honum hafði verið hótað, hann hafði verið hundeltur og lenti jafnvel í lífshættu. Og það voru Akab og drottning hans, Jesebel, sem báru ábyrgð á því öllu. Konungurinn hafði ekki gert neitt til að koma í veg fyrir að Jesebel léti drepa margra spámenn Jehóva. Saman höfðu þessi ágjörnu hjón einnig lagt á ráðin um að drepa saklausan og réttlátan mann, Nabót, og syni hans. Þess vegna flutti Elía dómsboðskap Jehóva þar sem Akab var fordæmdur og öll hans ætt. Orð Guðs rættust, Akab dó á þann hátt sem Jehóva hafði sagt fyrir. – 1. Konungabók 18:4; 21:1-26; 22:37, 38; 2. Konungabók 9:26.

 Elía vissi samt sem áður að hann þyrfti að halda þolgóður áfram. Jesebel var enn á lífi og hélt áfram að hafa hræðileg áhrif á fjölskyldu sína og þjóð. Erfileikarnir voru ekki allir að baki og Elía átti eftir að kenna Elísa, félaga sínum og eftirmanni, margt. Skoðum þrjú síðustu verkefni Elía. Þegar við sjáum hvernig trú hans hjálpaði honum að halda út getum við betur styrkt okkar eigin trú á þeim umbrotatímum sem við lifum.

Dómur yfir Ahasía

 Ahasía, sonur Akabs og Jesebelar var nú konungur í Ísrael. Í stað þess að draga lærdóm af heimsku foreldra sinna fylgdi hann sömu vondu braut. (1. Konungabók 22:53) Ahasía tilbað Baal eins og þau. Baalsdýrkun hafði niðurlægjandi áhrif á alla sem tóku þátt í henni og stuðlaði að musterisvændi og jafnvel barnafórnum. Var eitthvað sem gat fengið Ahasía til að breyta um stefnu og fólk hans til að snúa frá hjáguðadýrkun aftur til Jehóva?

 Skyndilega varð hinn ungi, hrokafulli konungur fyrir ógæfu. Hann féll í gegnum handrið á efri hæð húss síns og slasaðist alvarlega. Þótt líf hans væri í hættu sneri hann sér samt ekki til Jehóva til að fá hjálp. Hann sneri sér til óvinarins og sendi skilaboð til guðsins Baal Sebúb í Ekron, borg Filistea, til að vita hvort hann ætti von um bata. Jehóva var nóg boðið. Hann sendi engil til Elía sem sagði honum að stöðva sendiboðana. Spámaðurinn sendi þá til baka til konungsins með óvægin skilaboð. Ahasía hafði syndgað alvarlega með því að haga sér eins og það væri enginn guð í Ísrael. Jehóva ákvað að Ahasía myndi aldrei ná heilsu aftur. – 2. Konungabók 1:2-4.

 Iðrunarlaus spurði Ahasía: „Hvernig leit maðurinn út sem kom á móti ykkur og sagði þetta við ykkur?“ Sendiboðarnir svörðu með því að lýsa einföldum klæðnaði spámannsins og Ahasía svaraði að bragði: „Þetta hefur verið Elía.“ (2. Konungabók 1:7, 8) Það er eftirtektarvert að það var auðvelt að bera kennsl á Elía af lýsingu á klæðaburði hans því hann var svo einbeittur að þjóna Guði og lifa einföldu lífi. Sama var alls ekki hægt að segja um Ahasía eða foreldra hans sem voru ágjarnt efnishyggjufólk. Fordæmi Elía minnir okkur á að fara eftir leiðbeiningum Jesú um að lifa einföldu lífi og einbeita okkur að því sem skiptir í raun mestu máli. – Matteus 6:22-24.

 Í hefndarhug sendi Ahasía flokk 50 hermanna og höfuðsmann þeirra til að handtaka Elía. Þegar þeir fundu hann „þar sem hann sat á tindi fjallsins“ a fyrirskipaði höfuðsmaðurinn Elía í nafni konungsins að koma niður. Að öllum líkindum átti að taka hann af lífi. Hugsa sér, þótt hermennirnir vissu að Elía væri „guðsmaður“, fannst þeim í lagi að ógna honum og hóta. Þvílík heimska! Elía sagði við höfuðsmanninn: „Sé ég guðsmaður skal eldur koma af himni og gleypa þig og flokk þinn.“ Þá greip Guð inn í. „Þegar í stað kom eldur af himni og gleypti höfuðsmanninn og flokk hans.“ (2. Konungabók 1:9, 10) Hræðileg örlög þessara hermanna er skýr áminning um að það er ekki léttvægt í augum Jehóva að hóta þjónum hans með fyrirlitningu eða óvirðingu. – 1. Kroníkubók 16:21, 22.

 Ahasía sendi annan höfuðsmann ásamt 50 mönnum. Hann var jafnvel enn ófyrirleitnari en sá fyrsti. Í fyrsta lagi lét hann sér ekki að kenningu verða að 51 maður lét lífið þótt aska mannanna gæti enn hafa sést í fjallshlíðinni. Í öðru lagi endurtók hann ekki bara hrokafulla skipun fyrirrennara síns um að Elía kæmi niður heldur bætti við orðunum „þegar í stað“. Þetta reyndist heimskulegt. Höfuðsmaðurinn og menn hans týndu lífi á sama hátt og fyrsti flokkurinn. En konungurinn var samt enn fífldjarfari. Sallarólegur sendi hann þriðja herflokkinn. Til allrar hamingju sýndi þriðji höfuðsmaðurinn meiri visku. Hann kom fram fyrir Elía og sárbændi hann um að þyrma lífi sínu og manna sinna. Viðbrögð guðsmannsins Elía gagnvart auðmjúka höfuðsmanninum endurspegluðu án efa miskunn Jehóva. Engill Jehóva sagði Elía að fara með þessum hermönnum. Elía hlýddi og endurtók skilaboð Jehóva til hins illa konungs. Ahasía dó eins og orð Guðs hafði sagt fyrir um. Hann ríkti aðeins í tvö ár. – 2. Konungabók 1:11-17.

Elía endurspeglaði miskunn Jehóva gagnvart auðmjúka höfuðsmanninum.

 Hvernig gat Elía haldið út á meðal þeirra sem sýndu þrjóska og uppreisnargjarna hegðun? Þetta er spurning sem á við nú á dögum. Hefur þú einhvern tíma verið vonsvikinn þegar einhver sem þér er annt um neitar að hlusta á skynsamleg ráð og heimtar að fá að halda áfram á skaðlegri braut? Hvernig getum við haldið út þrátt fyrir slík vonbrigði? Það er umhugsunarvert að hermennirnir skyldu finna Elía „á tindi fjallsins“. Við getum ekkert fullyrt um ástæðuna fyrir því að Elía var á fjallinu. En eitt getum við verið viss um. Elía var bænrækinn maður og þarna fann hann frið sem hjálpaði honum að nálægja sig ástkærum Guði sínum. (Jakobsbréfið 5:16-18) Við getum á sama hátt tekið okkur reglulega tíma til að vera ein með Guði, ávarpa hann með nafni og trúa honum fyrir áhyggjum okkar og vandamálum. Þannig erum við betur í stakk búin til að sýna þolgæði þegar einhver sem við erum í tengslum við hagar sér heimskulega og skemmir fyrir sjálfum sér.

Annar tekur við ábyrgðinni

 Það var kominn tími fyrir Elía að afsala sér ábyrgðarstarfi sínu. Tökum eftir því sem hann gerði. Þegar hann og Elísa fóru frá borginni Gilgal hvatti Elía Elísa til að vera þar um kyrrt á meðan hann héldi einn áfram til Betel í um 11 km fjarlægð. Elísa svaraði ákveðinn: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú sjálfur lifir, þá yfirgef ég þig ekki.“ Eftir að þeir komu til Betel sagði Elía við Elísa að hann myndi ferðast einn til Jeríkó sem var í 22 km fjarlægð. Elísa svaraði staðfastlega á sama hátt og áður. Sagan endurtók sig í þriðja skiptið í Jeríkó áður en þeir héldu í átt að Jórdan í um 8 km fjarlægð. Enn var ungi maðurinn ákveðinn og neitaði að yfirgefa Elía. – 2. Konungabók 2:1-6.

 Elísa sýndi mikilvægan eiginleika, tryggan kærleika. Þetta var sams konar kærleikur og Rut sýndi Naomí, kærleikur sem er látinn skýrt í ljós og neitar að sleppa takinu. (Rutarbók 1:15, 16) Allir þjónar Guðs þurfa á þessum eiginleika að halda, nú meira en nokkru sinni fyrr. Skiljum við eins vel og Elísa hvað það er mikilvægt?

 Það snerti Elía sannarlega að sjá tryggan kærleik hins unga félaga síns. Vegna þess var Elísa þess heiðurs aðnjótandi að sjá síðasta kraftaverk Elía. Elía sló á vatnið með skikkjunni sinni við árbakka Jórdan en áin getur verið straumhörð og djúp á köflum. Vatnið skiptist í tvennt. „Fimmtíu spámannalærisveinar“, fylgdust einnig með kraftaverkinu. Þeir tilheyrðu greinilega hópi ungra manna sem var þjálfaður til að taka forystuna í hreinni tilbeiðslu í landinu. (2. Konungabók 2:7, 8) Elía hafði líklega umsjón með þjálfun þeirra. Nokkrum árum áður hafði Elía fundist hann vera eini trúfasti maðurinn sem var eftir í landinu. Eftir það launaði Jehóva Elía þolgæðið og gerði honum kleift að sjá þjóna sína taka miklum framförum. – 1. Konungabók 19:10.

 Eftir að þeir fóru yfir Jórdan sagði Elía við Elísa: „Segðu mér hvað ég get gert fyrir þig áður en ég verð tekinn frá þér.“ Elía vissi að það var komið að kveðjustund. Hann öfundaði ekki yngri vin sinn af þeim heiðri sem honum átti eftir að hlotnast. Elía var ákafur að hjálpa honum á hvern þann máta sem hann gæti. Elísa bað aðeins: „Ég vildi að mér hlotnuðust tveir hlutar af anda þínum.“ (2. Konungabók 2:9) Hann átti ekki við að hann vildi fá tvöfaldan hlut af heilögum anda miðað við það sem Elía hafði fengið. Hann var að biðja um hlut elsta sonar sem fékk samkvæmt lögunum stærsta erfðahlutann eða tvöfaldan hlut sem gerði honum kleift að axla nýja ábyrgð sem höfuð fjölskyldunnar. (5. Mósebók 21:17) Sem andlegur arftaki Elía sá hann augljóslega þörfina á að sýna hugrekki eins og Elía til að fullna verk sitt.

 Elía var auðmjúkur og lét Jehóva það eftir að svara beiðninni. Ef Jehóva leyfði Elísa að sjá Elía þegar hann tæki gamla spámanninn burt þá væri svar Jehóva við beiðni Elísa jákvætt. Og fyrr en varði gerðist eitthvað stórkostlegt á ferð þessara góðu vina á „meðan þeir voru að tala saman“. – 2. Konungabók 2:10, 11.

Vinátta Elía og Elísa hjálpaði þeim báðum svo sannarlega að halda út á erfiðum tímum.

 Einkennilegur bjarmi lýsti himininn upp og kom nær og nær. Við getum ímyndað okkur drunur og hvin þegar skyndilega brast á stormviðri og bjartur hlutur kom þjótandi að mönnunum tveimur sem hörfuðu hugsanlega aftur á bak af óttablandinni virðingu og urðu viðskila. Það sem birtist þeim var farartæki, vagn sem leiftraði eins og hann væri úr eldi. Elía vissi að hans tími var kominn. Steig hann upp í vagninn? Það fylgir ekki sögunni. Hvernig sem það var fann hann að hann lyftist hátt upp í loft og stormviðrið hreif hann á brott með sér.

 Elísa fylgdist gagntekinn með. Hann vissi að Jehóva myndi gefa honum tvöfaldan hlut af hugrekki Elía þar sem hann gat séð þessa undraverðu sýn. En Elísa var of dapur til að leiða hugann að því. Hann vissi ekki hvert gamli, góði vinur hans var farinn en líklega bjóst hann ekki við að sjá Elía aftur. Hann hrópaði: „Faðir minn, faðir minn. Þú, vagn Ísraels og vagnstjóri.“ Hann horfði á eftir læriföður sínum sem honum þótti svo vænt um hverfa út í buskann og reif yfirhöfn sína í sorg sinni. – 2. Konungabók 2:12.

 Heyrði Elía kannski einmana hróp hins unga vinar síns þegar hann steig upp til himins? Táraðist hann kannski? Hvað sem því leið kunni hann að meta að eiga slíkan vin. Og það hefur örugglega hjálpað honum að halda út á erfiðum tímum. Við ættum að taka Elía okkur til fyrirmyndar og rækta vináttu við þá sem elska Guð og leitast við að gera vilja hans.

Jehóva flutti Elía um set og gaf honum nýtt verkefni.

Lokaverkefnið

 Hvert fór Elía næst? Sum trúarbrögð kenna að hann hafi verið tekinn upp til himna til að vera hjá Guði. En það er útilokað. Öldum síðar sagði Jesús Kristur að enginn hefði stigið upp til himins á undan honum sjálfum. (Jóhannes 3:13) Þannig að þegar við lesum að ,Elía hafi farið til himins í stormviðri‘ þurfum við að vita hvaða himins. (2. Konungabók 2:11) Í Biblíunni er orðið ,himinn‘ ekki einungis notað um heimkynni Jehóva heldur andrúmsloft jarðarinnar þar sem ský svífa og fuglar fljúga. (Sálmur 147:8) Elía fór til þessa himins. En hvað svo?

 Jehóva flutti einfaldlega ástkæran spámann sinn um set. Hann fékk nýtt verkefni í nágrannaríkinu Júda. Frásaga Biblíunnar segir frá Elía enn að störfum þar ef til vill meira en sjö árum síðar. Þá ríkti illi konungurinn Jóram í Júda. Hann hafði gifst dóttur Akabs og Jesebelar þannig að þau höfðu enn þá vond áhrif. Jehóva fól Elía að skrifa bréf þar sem hann kvað upp dóm yfir Jóram. Eins og spáð var fyrir dó Jóram hræðilegum dauðdaga. Og ekki nóg með það heldur lýkur frásögunni á orðunum: „Hann lést án þess að nokkur syrgði hann.“ – 2. Kroníkubók 21:12-20.

 Hvílíkur munur á þeim vonda manni og Elía. Við vitum ekki hvernig eða hvenær Elía dó. En við vitum að hann dó ekki eins og Jóram án þess að nokkur syrgði hann. Elísa saknaði vinar síns. Aðrir trúfastir spámenn hafa örugglega gert það líka. Jehóva kann enn að meta Elía 1000 árum síðar vegna þess að hann notar þennan ástkæra spámann sem táknmynd í ummyndunarsýninni. (Matteus 17:1-9) Vilt þú læra af Elía og þroska með þér trú sem er þolgóð þrátt fyrir erfiðleika? Þá skaltu muna að byggja upp vináttu við þá sem elska Guð, einbeita þér að andlegum málum og biðja oft frá hjartanu. Þá geturðu átt varanlegan stað í hjarta Jehóva.

a Sumir fræðimenn hafa sagt að fjallið sem hér er nefnt sé Karmel þar sem Jehóva gaf Elía kraft til að sigra Baalsdýrkendur nokkrum árum áður. En það er ekki nefnt í Biblíunni hvaða fjall þetta er.