Hoppa beint í efnið

LÍKJUM EFTIR TRÚ ÞEIRRA | JOB

Jehóva læknaði sársauka hans

Jehóva læknaði sársauka hans

 Loksins þagnar þessi litli hópur manna. Vera má að eina hljóðið sem heyrðist hafi verið léttur þytur af heitum eyðimerkurvindi frá Arabaeyðimörkinni. Job átti ekki til fleiri orð, hann var úrvinda eftir langar kappræður. Sjáðu hann fyrir þér þegar hann hvessir augnaráð sitt á þá Elífas, Bildad og Sófar – það er næstum eins og hann sé að skora á þá að halda áfram. En þeir gátu bara horft niður eða litið undan, svekktir yfir að gáfulegar röksemdafærslur þeirra og særandi dylgjur, sem voru bara „vindur“, höfðu misheppnast. (Jobsbók 16:3, neðanmáls) Þvert á móti var Job ákveðnari en nokkru sinni að sanna ráðvendni sína.

 Það kann að vera að Job hafi fundist ráðvendnin það eina sem hann átti eftir. Hann hafði misst auð sinn, öll börnin sín tíu, stuðning og virðingu vina sinna og nágranna og líka heilsuna. Húðin var dökk af sjúkdómi sem hrjáði hann og hann var þakinn hrúðri og graftarsárum með möðkum í. Jafnvel andardráttur hans var illa lyktandi. (Jobsbók 7:5; 19:17; 30:30) Engu að síður vöktu árásir þessara þriggja manna sára gremju hjá Job. Hann var staðráðinn í að sanna að hann væri ekki sá spillti syndari sem þeir héldu fram að hann væri. Lokaræða Jobs hafði rétt lokið við að þagga niður í þeim. Særandi orðaflaumurinn frá þeim hafði loksins runnið til þurrðar. En sársauki Jobs var jafn þjakandi og áður. Hann þurfti sárlega á hjálp að halda.

 Það er ekki að undra að Job hafi hugsað óskýrt. Hann þurfti á leiðsögn og leiðréttingu að halda. Hann þurfti líka ósvikna huggun og hughreystingu, einmitt það sem þessir þrír vinir hans hefðu átt að veita honum. Hefur þú einhvern tíma þurft nauðsynlega á leiðsögn og huggun að halda? Hefur þú einhvern tíma orðið fyrir vonbrigðum með fólk sem þú taldir vera vini þína? Frásagan af því hvernig Jehóva Guð hjálpaði þjóni sínum Job og viðbrögð hans gætu veitt þér von og hagnýta hjálp.

Vitur og hlýlegur leiðbeinandi

 En nú gerist nokkuð óvænt. Það var annar maður nærstaddur, ungur maður að nafni Elíhú. Hann hafði verið þarna allan tímann og hlustað hljóður á rökræður þeirra sem voru honum eldri. Og hann var alls ekki ánægður með það sem hann heyrði.

 Hann var ekki ánægður með Job. Það hryggði hann að þessi réttláti maður skyldi láta eggja sér til að „reyna að sýna fram á að hann væri réttlátur frekar en Guð“. En Elíhú fann innilega til með Job – hann sá þjáningu hans og einlægni og hversu mjög hann þarfnaðist hlýlegra ráða og huggunar. Það er ekki að undra að þolinmæði Elíhús gagnvart huggurunum þrem hafi verið á þrotum. Hann hafði heyrt hvernig þeir veittust að Job og reyndu að grafa undan trú hans, sjálfsvirðingu og trúfesti. En það sem var verra var að með rangsnúnum röksemdum sínum héldu þeir því fram að Guð væri vondur. Elíhú var með réttu mikið niðri fyrir, hann þurfti að tjá sig. – Jobsbók 32:2–4, 18.

 „Ég er ungur,“ sagði hann, „en þið eruð aldraðir. Þess vegna sýndi ég þá virðingu að halda aftur af mér og vogaði mér ekki að segja ykkur það sem ég veit.“ En hann gat ekki setið þögull lengur og hélt máli sínu áfram: „Aldurinn einn gerir engan vitran og það eru ekki bara aldraðir menn sem skilja hvað er rétt.“ (Jobsbók 32:6, 9) Elíhú talaði síðan lengi vel og sannaði réttmæti orða sinna. Hann nálgaðist viðfangsefnið allt öðruvísi en Elífas, Bildad og Sófar. Elíhú fullvissaði Job um að hann myndi ekki tala niður til hans né auka á raunir hans. Hann sýndi Job virðingu, ávarpaði hann með nafni og viðurkenndi að hann hafði verið hafður að háði. a Hann sagði: „En hlustaðu nú á mig, Job, hlustaðu á allt sem ég segi.“ – Jobsbók 33:1, 7; 34:7.

Elíhú ávarpaði Job með nafni og kom fram við hann af vinsemd og sýndi honum virðingu.

 Elíhú gaf Job nokkur hreinskilnisleg ráð: „Ég heyrði þig segja … ‚Ég er hreinn og geri ekkert rangt, ég er flekklaus og hef ekki syndgað. En Guð finnur tilefni til að vera á móti mér.‘“ Elíhú kom sér beint að kjarna málsins og spurði: „Ertu svo sannfærður um að þú hafir rétt fyrir þér að þú segir: ‚Ég er réttlátari en Guð‘?“ Hann gat ekki leyft að slík röksemdafærsla væri viðhöfð. „Þú hefur rangt fyrir þér,“ sagði þessi ungi maður. (Jobsbók 33:8–12; 35:2) Elíhú vissi að Job var fullur reiði vegna alls sem hann hafði misst og vegna grimmdar svonefndra vina sinna. En Elíhú varaði Job við: „En gættu þess að reiðin geri þig ekki illgjarnan.“ – Jobsbók 36:18.

Elíhú leggur áherslu á góðvild Jehóva

 Elíhú var mest í mun að verja Jehóva Guð. Hann dró mikilvæg sannindi saman með þessum kjarnmiklu orðum: „Það er óhugsandi að hinn sanni Guð geri nokkuð illt að Hinn almáttugi geri nokkuð rangt! … Hinn almáttugi fellir ekki rangláta dóma.“ (Jobsbók 34:10, 12) Elíhú minnti Job á miskunn Jehóva með því að benda honum á að Jehóva greip ekki inn í málin til að refsa honum fyrir orð töluð í fljótfærni og af virðingarleysi. (Jobsbók 35:13–15) Í stað þess að þykjast hafa öll svörin viðurkenndi hann auðmjúkur í bragði: „Guð er meiri en við getum skilið.“ – Jobsbók 36:26.

 Þó að Elíhú hafi verið hreinskilinn var hann vingjarnlegur þegar hann gaf ráð. Hann talaði um þá dásamlegu von að Jehóva ætti eftir að lækna Job. Guð myndi segja um sinn trúfasta þjón: „Líkami hans verði hraustari en í æsku, hann endurheimti æskuþróttinn.“ Annað dæmi um hlýleika Elíhús er þegar hann býður Job að tjá sig og svara sér í stað þess bara að segja honum hvað hann eigi að gera: „Talaðu, því að ég vil gjarnan sýna fram á að þú hafir rétt fyrir þér.“ (Jobsbók 33:25, 32) En Job svaraði ekki. Ef til vill fannst honum engin þörf á að svara fyrir sig eftir svona hlýleg og uppörvandi ráð. Það má vera að hann hafi grátið af létti.

 Við getum lært heilmikið af þessum trúföstu mönnum. Elíhú er okkur góð fyrirmynd í því hvernig á að gefa ráð og hugga þá sem þess þarfnast. Sannur vinur reynir ekki að skjóta sér undan því að benda á alvarlega misgjörð eða að vara vin sinn við ef hann er kominn út á hættulega braut. (Orðskviðirnir 27:6) Við viljum vera slíkir vinir og halda áfram að vera vingjarnleg og uppörvandi við þá sem þarfnast þess, jafnvel þó að þeir tali í fljótfærni. Og þegar við sjálf þörfnumst slíkra ráða er fordæmi Jobs okkur áminning um að hlusta auðmjúk á þau í stað þess að hunsa þau. Við þörfnumst öll ráða og leiðréttingar. Það getur bjargað lífi okkar að þiggja ráð. – Orðskviðirnir 4:13.

„Úr storminum“

 Elíhú nefndi oft vind, ský, þrumur og eldingar í máli sínu. Hann sagði um Jehóva: „Hlustaðu vandlega á drynjandi rödd Guðs.“ Andartaki síðar talaði hann um storminn. (Jobsbók 37:2, 9) Svo virðist sem meðan hann talaði hafi stormur verið í aðsigi og að hann hafi stöðugt sótt í sig veðrið. Loks var stormurinn skollinn á. Og þá gerist nokkuð miklu áhrifaríkara. Jehóva talaði! – Jobsbók 38:1.

Ímyndaðu þér að fá að hlusta á fyrirlestur um undur veraldar í flutningi sjálfs skapara alheimsins.

 Það er dásamlegur léttir þegar maður kemur að þessum köflum í Jobsbók þar sem Jehóva talar til Jobs. Það er eins og sannleiksstormur blási burt innantómum ræðum þeirra Elífasar, Bildads og Sófars. Jehóva beindi ekki einu sinni athyglinni að þessum mönnum fyrr en síðar. Hann einbeitti sér alfarið að sínum elskaða þjóni Job þegar hann talaði við hann af festu, rétt eins og faðir sem leiðréttir son sinn.

 Jehóva skildi þjáningu Jobs. Hann fann til með honum eins og hann gerir alltaf þegar elskuð börn hans þjást. (Jesaja 63:9; Sakaría 2:8) En hann vissi líka að Job hafði talað „af vanþekkingu“ og þar með aukið á þjáningar sínar. Jehóva leiðrétti því Job með því að nota margar spurningar. „Hvar varst þú,“ spurði hann, „þegar ég lagði grunn að jörðinni? Segðu mér það ef þú heldur að þú vitir það.“ Við upphaf sköpunarinnar „þegar morgunstjörnurnar“, englafjölskylda Guðs, hrópaði af gleði yfir undrum sköpunarverksins. (Jobsbók 38:2, 4, 7) Job vissi að sjálfsögðu ekkert um þessa hluti.

Jehóva talaði við Job úr stormviðrinu og leiðrétti hugarfar hans með kærleiksríkum hætti.

 Jehóva hélt áfram að tala um sköpunarverk sitt. Segja má að hann hafi látið Job fara í stutta ferð um heim þess sem í dag kallast náttúruvísindi. Hann kom inn á stjörnufræði, líffræði, jarðfræði og eðlisfræði. Jehóva lýsti nokkrum dýrum sem lifðu á sömu slóðum og Job á þessum tíma, eins og ljóninu, hrafninum, fjallageitinni, villiasnanum, villinautinu, strútnum, hestinum, fálkanum, erninum, behemót (sem er greinilega flóðhesturinn) og loks Levjatan (líklega krókódíllinn). Hugsaðu þér bara hvílík forréttindi að fá að hlusta á fyrirlestur um náttúruundrin sem er fluttur af sjálfum skapara alheimsins. b

Kennsla í auðmýkt og kærleika

 Hver var tilgangurinn með þessu öllu? Job bráðvantaði skammt af auðmýkt. Með því að kvarta yfir því sem hann áleit illa meðferð af hendi Jehóva var Job bara að auka á þjáningu sína og fjarlægjast sinn kærleiksríka föður. Jehóva spurði Job hvað eftir annað hvar hann hafi verið þegar þessi undur urðu til og hvort hann gæti fætt, stjórnað eða tamið það sem Guð hafði skapað. Fyrst hann gæti ekki einu sinni haft stjórn á grundvallarþáttum sköpunarverks Jehóva hvernig gæti hann þá vogað sér að dæma skaparann? Voru vegir og hugsanir Jehóva ekki langtum æðri takmarkaðri yfirsýn Jobs?

Job deildi ekki við Jehóva, hann réttlætti sig ekki né kom með afsakanir.

 Það var sterk undiralda kærleika bak við allt sem Jehóva sagði. Það var eins og hann væri að rökræða við Job með þessum orðum: „Sonur minn, fyrst ég get skapað og annast allt þetta heldurðu virkilega að ég muni láta hjá líða að annast þig? Myndi ég virkilega yfirgefa þig, ræna þig börnum þínum, öryggi þínu og heilsu? Er ég ekki sá eini sem get bætt þér missinn og læknað þinn hræðilega sársauka?“

 Job svaraði rannsakandi spurningum Jehóva aðeins tvisvar. Hann deildi ekki við Guð, réttlætti sig ekki né leitaði afsakana. Hann viðurkenndi auðmjúklega hversu lítið hann vissi og iðraðist þess sem hann hafði sagt í fljótfærni. (Jobsbók 40:4, 5; 42:1–6) Hérna sjáum við trú Jobs í sínu fegursta ljósi. Þrátt fyrir allt sem hann hafði þolað hélt hann áfram að vera mjög trúaður. Hann tók leiðréttingu Jehóva til sín. Við gætum því litið í eigin barm og spurt okkur sjálf: „Er ég nógu auðmjúkur til að taka á móti leiðréttingu og ráðum?“ Við þörfnumst öll slíkrar hjálpar. Þegar við gerum það líkjum við eftir trú Jobs.

„Þið hafið ekki sagt sannleikann um mig“

 Jehóva hófst nú handa við að hugga Job í þjáningum sínum. Hann beindi orðum sínum að Elífasi sem var greinilega elstur af falshuggurunum þrem og sagði: „Reiði mín logar gegn þér og félögum þínum tveim því að þið hafið ekki sagt sannleikann um mig eins og Job þjónn minn.“ (Jobsbók 42:7) Hugleiddu þessu orð. Var Jehóva að segja að allt sem þessir þrír menn höfðu sagt væri rangt eða að allt sem Job hafði sagt væri rétt? Auðvitað ekki. c En það var samt gríðarlegur munur milli Jobs og ákærenda hans. Job var harmi sleginn, bugaður af sorg og særður vegna falskra ásakana. Það er því ekki að undra að hann hafi stundum talað fljótfærnislega. En Elífas og vinir hans tveir báru ekki slíka byrði. Trú þeirra var veik og þeir voru vísvitandi hrokafullir í tali. Þeir létu sér ekki nægja að ráðast á saklausan mann heldur gáfu þeir alranga mynd af Jehóva með því að lýsa honum sem ströngum og jafnvel grimmum Guði.

 Það er ekki að undra að Jehóva krefðist þess að þessir menn stæðu reikningsskap gerða sinna. Þeir áttu að fórna sjö nautum og sjö hrútum, en það var ekkert smáræði. Það má sjá það af því að síðar meir kröfðust Móselögin þess að æðstipresturinn fórnaði nauti ef hann drýgði synd sem bakaði allri þjóðinni sekt. (3. Mósebók 4:3) Þetta var verðmætasta dýrafórnin sem lögin fóru fram á. Þar að auki sagði Jehóva að hann myndi aðeins taka við fórninni ef Job bæði fyrst fyrir ákærendum sínum. d (Jobsbók 42:8) Það hlýtur að hafa sefað sársauka Jobs að Jehóva skyldi gefa honum uppreisn æru og láta réttlætið sigra.

„Job þjónn minn mun biðja fyrir ykkur.“ – Jobsbók 42:8.

 Jehóva var fullviss um að Job myndi verða við beiðni sinni og fyrirgefa þessum mönnum sem höfðu sært hann svo djúpt. Og hann brást ekki föður sínum. (Jobsbók 42:9) Hlýðni hans var besta sönnunin um trúfesti hans. Hún hafði miklu meira vægi en orðin ein. Og hún opnaði fyrir mestu blessun sem Job myndi upplifa á lífsleiðinni.

„Mjög umhyggjusamur“

 Jehóva var „mjög umhyggjusamur og miskunnsamur“ við Job. (Jakobsbréfið 5:11) Hvernig þá? Jehóva gaf Job heilsuna á ný. Hugsaðu þér hvernig honum hefur liðið þegar hann gerði sér grein fyrir að líkami hans var orðinn „hraustari en í æsku“ eins og Elíhú hafði sagt fyrir. Fjölskylda Jobs og vinir flykktust loks að honum til að sýna honum samúð og gefa honum gjafir. Jehóva veitti honum auðæfi sín á ný og gaf honum tvöfalt af því sem hann hafði átt áður. En hvað með dýpstu sárin – missi barnanna sinna? Það hefur verið Job og konu hans viss huggun að eignast tíu önnur börn. Og Jehóva lengdi æfi Jobs með kraftaverki. Hann lifði önnur 140 ár þannig að hann gat séð afkomendur sína dafna í fjóra ættliði. „Að lokum,“ segir frásagan, „dó Job eftir langa og góða ævi.“ (Jobsbók 42:10–17) Og í paradís munu Job og ástkær eiginkona hans sameinast fjölskyldu sinni á ný og þá verða hin tíu börnin sem Satan tók frá þeim með í hópnum. – Jóhannes 5:28, 29.

 Hvers vegna umbunaði Jehóva Job svona ríkulega? Biblían svarar: „Þið hafið heyrt um þolgæði Jobs.“ (Jakobsbréfið 5:11) Job gekk í gegnum fleiri þrautir en flest okkar geta einu sinni ímyndað sér. Orðið „þolgæði“ segir okkur að Job hafi gert meira en aðeins að lifa þessar prófraunir af. Trú hans og kærleikur til Jehóva beið ekki hnekki þrátt fyrir allt. Í stað þess að verða beiskur var hann tilbúinn að fyrirgefa þeim sem höfðu vísvitandi sært hann. Og hann missti aldrei takið á voninni góðu né ráðvendninni sem var hans dýrmæta eign. – Jobsbók 27:5.

 Hvert og eitt okkar þarf að sýna þolgæði. Við getum verið viss um að Satan muni reyna að draga úr okkur kjarkinn eins og hann gerði við Job. En ef við erum þolgóð í trúnni, auðmjúk og fús til að fyrirgefa öðrum og staðráðin í að varðveita ráðvendni okkar þá munum við líka halda okkar dýrmætu von. (Hebreabréfið 10:36) Ekkert myndi ergja Satan meira en það að við líktum eftir trú Jobs. Á hinn bóginn myndi ekkert gleðja hjarta okkar kærleiksríka Jehóva meira.

a Elífas, Bildad og Sófar voru margorðir þegar þeir töluðu við Job – ræður þeirra fylla heila níu kafla í Biblíunni – en frásagan sýnir ekki eitt einasta tilfelli þar sem þeir ávarpa Job með nafni.

b Stundum skiptir Jehóva orðræðunni hnökralaust frá raunsönnum lýsingum yfir í táknrænt eða skáldlegt málfar. (Sjá til dæmis Jobsbók 41:1, 7, 8, 19–21.) En tilgangurinn með hvorutveggja er sá sami – að hjálpa Job að auka lotningu fyrir skapara sínum.

c Páll postuli vitnaði reyndar síðar í eina af staðhæfingum Elífasar sem sannindi. (Jobsbók 5:13; 1. Korintubréf 3:19) Elífas hafði lög að mæla en heimfærslan upp á Job var röng.

d Það er engin vísbending um að Job hafi verið beðinn um að færa sams konar fórn fyrir hönd konu sinnar.