Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvernig get ég tamið mér heilbrigt mataræði?

Hvernig get ég tamið mér heilbrigt mataræði?

 Þú veist líklega að óhollt mataræði getur skaðað heilsuna. Unglingar sem borða óhollt eru líklegri til að borða óhollt þegar þeir verða fullorðnir. Það er þess vegna gott fyrir þig að tileinka þér heilbrigðar matarvenjur núna.

 Hvað er heilbrigt mataræði?

 Biblían hvetur okkur til að vera ,hófsöm‘, líka í matarvenjum okkar. (1. Tímóteusarbréf 3:11) Með þessa meginreglu í huga er gott að vita að ...

  •   Heilbrigt mataræði nær yfir alla fæðuflokka. Það eru til ýmsar fæðutegundir. Það eru til dæmis mjólkurvörur, próteinafurðir líkt og kjöt, fiskur og egg, ávextir, grænmeti og korn og fita og olíur. Sumir sleppa einni eða fleiri fæðutegundum því að þeir halda að það hjálpi sér að léttast. En sú aðferð getur komið í veg fyrir að líkaminn fái þau næringarefni sem hann þarf á að halda.

     Prófaðu þetta: Rannsakaðu málið eða ræddu við lækninn þinn til að vita hvers vegna sé mikilvægt að borða fjölbreytta fæðu. Tökum dæmi:

     Kolvetni geta gefið þér orku. Próteinafurðir geta hjálpað líkama þínum að vinna á sýkingum og byggja upp og endurnýja líkamsvefi. Sumt feitmeti –í hæfilegu magni – getur dregið úr hættunni á hjartasjúkdómum og veitt þér orku.

     „Ég reyni að borða mat úr öllum fæðuflokkum. Og mér finnst ekki rangt að fá mér stundum nammi eða skyndibita. En það ætti ekki að vera uppistaðan í mataræðinu. Það er alltaf gott að hafa jafnvægi.“ – Brenda.

    Mataræði sem er án mikilvægra næringarefna er eins og stóll sem á vantar einn fót.

  •   Sá sem gætir jafnvægis í mataræðinu forðast öfgar. Það gætu verið öfgar eins og að borða ekki nógu mikið, borða of mikið eða að neita sjálfum sér algerlega um eitthvað sem mann langar stundum í.

     Prófaðu þetta: Skrifaðu niður allt sem þú borðar í mánuð. Hversu oft ferðu út í fyrrnefndar öfgar? Hvaða breytingar geturðu gert til að gæta jafnvægis í mataræðinu?

     „Ég fór út í þær öfgar að suma daga borðaði ég rosalega hitaeiningaríkan mat og aðra daga mjög lítið af þannig mat. Síðan ákvað ég að hætta að telja hitaeiningar. Ég passaði mig á að borða ekki yfir mig og hætti að borða þegar ég var orðin södd. Það tók sinn tíma. En mataræðið mitt er komið í jafnvægi.“ – Hailey.

 Hvernig get ég haldið mig við heilbrigt mataræði?

  •   Hugsaðu fram í tímann. Biblían segir: „Áform hins iðjusama færa arð.“ (Orðskviðirnir 21:5) Ef þú vilt tileinka þér góðar matarvenjur verðurðu að gera áætlun fyrir fram.

     „Það krefst skipulagningar að borða hollan mat og stundum þarf að undirbúa hann heima. En það er þess virði þegar til lengri tíma er litið og það getur líka sparað þér peninga.“ – Thomas.

  •   Skiptu út óhollum mat. Biblían segir: „Varðveittu visku.“ (Orðskviðirnir 3:21) Viska hjálpar þér að fá hugmyndir að hollum mat og þroska með þér heilbrigðar matarvenjur.

     „Ég byrjaði á því að skipta út einhverju einu óhollu fyrir eitt hollt á hverjum degi. Ég borðaði til dæmis epli í stað þess að fá mér nammi. Áður en langt um leið var ég farin að gera margar breytingar á hverjum degi.“ – Kia.

  •   Hafðu raunhæfar væntingar. Biblían segir: „Et brauð þitt með ánægju.“ (Prédikarinn 9:7) Að borða hollt ætti ekki að taka gleðina af því að borða og það ætti ekki heldur að gera þig upptekinn af öllu sem þú lætur ofan í þig. Jafnvel þótt þú þurfir að léttast verðurðu að muna að markmið þitt er að vera heilbrigður. Gerðu raunhæfar væntingar til sjálfs þín.

     „Ég hef lést um rúmlega 13 kíló. Og ég svelti ég mig aldrei eða tók út fæðutegund. Ég fékk ekki heldur samviskubit yfir því að hafa fengið mér eftirrétt. Ég vissi að þetta myndi ekki gerast á einni nóttu og að ég þyrfti að breyta um lífsstíl.“ – Melanie.