Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvað ætti ég að vita um áfengi?

Hvað ætti ég að vita um áfengi?

 Í Biblíunni er ekki fordæmt að drekka áfengi í hófi ef landslög leyfa. Hún bannar hins vegar ofdrykkju. – Sálmur 104:15; 1. Korintubréf 6:10.

 En hvað ef einhver reynir að fá þig til að drekka en foreldrar þínir eða landslög leyfa það ekki?

 Hugsaðu lengra

 Sumum félaga þinna finnst kannski nauðsynlegt að drekka til að skemmta sér. En hvað getur gerst í kjölfarið?

  •  Getur varðað við lög. Það fer eftir því hvar þú býrð hvort það er ólöglegt að neyta áfengis eða ekki. Á sumum stöðum gætir þú fengið sekt, verið ákærður fyrir lögbrot eða misst ökuskírteinið. Þú gætir líka þurft að vinna samfélagsþjónustu og jafnvel verið settur í fangelsi. – Rómverjabréfið 13:3.

  •  Getur skaðað mannorð. Áfengi losar um hömlur. Undir áhrifum þess gætirðu sagt eða gert eitthvað sem þú sæir eftir síðar. (Orðskviðirnir 23:31-33) Nú á tímum samfélagsmiðla gæti hegðun þín haft varanleg áhrif á mannorð þitt.

  •  Getur veikt varnir. Áfengi getur gert þig varnarlausan fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi. Það getur einnig gert þig viðkvæmari fyrir áhrifum annarra sem síðan gæti leitt til hættulegrar eða ólöglegrar hegðunar.

  •  Getur orsakað fíkn. Sumar rannsóknir benda til þess að því yngri sem þú ert þegar þú byrjar að drekka áfengi þeim mun meiri líkur eru á því að þú verðir háður því. Að drekka til að takast á við streitu, einmannaleika eða leiða getur orðið að vítahring sem er erfitt að rjúfa.

  •  Getur leitt til dauða. Á einu ári olli ölvunarakstur dauðaslysi á 52 mínútna fresti í Bandaríkjunum. Á fimm ára tímabili dóu rúmlega 1.500 manns, yngri en 21 árs, í umferðarslysum þar sem áfengi kom við sögu. Þótt þú drykkir ekki áfengi sjálfur tækir þú mikla áhættu ef þú myndir þiggja far með einhverjum sem hefur neytt áfengis.

 Einsettu þér

 Þú getur forðast hættulegar og kostnaðarsamar afleiðingar áfengisneyslu, þegar þú ættir ekki að drekka, ef þú ákveður fyrirfram hvað þú ætlar að gera.

 Það sem Biblían segir: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig en einfeldningarnir halda áfram og gjalda þess.“ (Orðskviðirnir 22:3) Það er óviturlegt að drekka áður en maður keyrir eða gerir eitthvað sem krefst algerrar einbeitingar.

 Ásetningur: Ef ég kýs að drekka áfengi geri ég það ekki fyrr en ég má það samkvæmt lögum og aðstæðurnar eru réttar.

 Biblían segir: ,Þér eruð þjónar þess, sem þér hlýðið.‘ (Rómverjabréfið 6:16 Biblían 1981) Ef þú drekkur bara vegna þess að félagarnir gera það þá læturðu aðra stjórna þér. Ef þú drekkur til að takast á við leiða eða streitu ferðu á mis við að þroska með þér hæfileikann til að leysa vandamál þín.

 Ásetningur: Ef félagarnir þrýsta á mig að drekka ætla ég ekki að láta undan.

 Biblían segir: „Vertu ekki með drykkjurútum.“ (Orðskviðirnir 23:20) Rangur félagskapur getur veikt ásetning þinn. Þú setur sjálfan þig í hættu þegar þú ert með þeim sem misnota áfengi.

 Ásetningur: Ég ætla ekki að eiga náinn félagskap við þá sem misnota áfengi.