UNGT FÓLK SPYR
Hvernig get ég tekist á við skilnað foreldra minna?
Skilnaður foreldra er meðal þeirra aðstæðna sem reyna hvað mest á börn og unglinga. Hvernig geturðu tekist á við sorgina sem fylgir skilnaði?
Í þessari grein
Þrennt sem þú ættir að forðast
1. Að taka á þig sökina
„Mamma sagði mér einu sinni að öll vandamálin milli hennar og pabba hafi byrjað þegar ég fæddist. Þess vegna hélt ég að það væri mér að kenna að þau skildu.“ – Diana.
Hafðu þetta í huga: Skilnaðurinn snýst ekki um þig. Hann snýst um ágreining milli foreldra þinna. Þú ollir ekki vandamálunum og þú getur ekki leyst þau. Þau bera ábyrgð á því hvernig þau takast á við vandamálin í hjónabandi þeirra.
2. Að ala með þér gremju
„Ég er mjög reið út í pabba fyrir að hafa verið mömmu ótrúr. Það verður erfitt fyrir hann að ávinna sér traust mitt á ný.“ – Rianna.
Hafðu þetta í huga: Þú ert líklega reiður og í uppnámi vegna þess sem gerðist á milli foreldra þinna og það er mjög skiljanlegt. En það er ekki hollt að halda í gremjuna. Það getur skaðað þig líkamlega og tilfinningalega. Þess vegna hefur verið sagt um að ala með sér gremju að það sé eins og að taka inn eitur og bíða síðan eftir að hinn aðilinn verði veikur. a
3. Að efast um að þú getir orðið hamingjusamur í hjónabandi.
„Ég er svo hrædd um að ég eigi eftir að gera það sama og pabbi gerði. Ég óttast það að ef ég giftist og eignast börn muni ég koma mér í þær aðstæður sem leiddu til skilnaðar foreldra minna.“ – Jessica.
Hafðu þetta í huga: Það er engin ástæða að ætla að hjónaband þitt fari út um þúfur bara af því að hjónaband foreldra þinn gerði það. Hins vegar geturðu dregið dýrmætan lærdóm af reynslu þeirra. Þú getur til dæmis verið á verði gagnvart ákveðnum einkennum í fari tilvonandi maka. Reynsla þín getur líka hvatt þig til að rækta með þér eiginleika sem gera þig að betri eiginmanni eða eiginkonu.
Þrennt sem þú gætir gert
1. Að ræða málin. Þeim sem loka á neikvæðar tilfinningar er hættara við skaðlegri hegðun eins og ofneyslu áfengis eða eiturlyfjaneyslu. Reyndu frekar eftirfarandi:
Talaðu við foreldra þína. Ef annað foreldra þinna eða bæði reyna að blanda þér í deilur sínar þá skaltu segja þeim rólega en ákveðið hvaða áhrif það hefur á þig. Ef þú átt erfitt með að tala við þau um þetta gætirðu skrifað öðru þeirra eða báðum bréf.
Talaðu við vin sem þú treystir. Það getur hjálpað þér heilmikið að létta á þér við einhvern sem leyfir þér að tala út um málið. Biblían segir: „Sannur vinur elskar alltaf og er sem bróðir á raunastund.“ – Orðskviðirnir 17:17.
Talaðu við skapara þinn. Þú hefur alltaf aðgang að honum „sem heyrir bænir“, Jehóva Guði. (Sálmur 65:2) Biblían segir að þú getir ‚varpað öllum áhyggjum þínum á hann því að hann ber umhyggju fyrir þér‘. – 1. Pétursbréf 5:7.
Við hvort foreldra þinna geturðu talað rólega og yfirvegað?
Hvaða vin (félaga eða fullorðinn) gætirðu haft í stuðningsliði með þér?
Hvað gætirðu sérstaklega nefnt í bænum þínum?
2. Að aðlagast breytingum
Skilnaður foreldra þinna getur útheimt að þú þurfir að venjist nýju heimili, nýjum skóla, breyttum fjárhag og jafnvel nýjum vinahópi. Það er skiljanlegt að þetta reyni á, að þér finnist hreinlega að líf þitt hafi verið sett á annan endann. Hvað getur hjálpað þér að takast á við þessar breytingar? Reyndu að einbeita þér að því hvernig þú getur aðlagast nýjum aðstæðum.
Hver er stærsta breytingin sem þú hefur þurft að gera vegna skilnaðar foreldra þinna?
Hvað geturðu gert til að aðlagast breytingunni?
3. Þekktu þínar sterku hliðar
Þó að skilnaður foreldra geti valdið þér miklum kvíða getur hann kennt þér að þekkja þínar sterku hliðar. Og hann getur jafnvel hjálpað þér að þroska með þér nýja eiginleika. „Skilnaður foreldra minna ýtti á mig að verða ábyrgari,“ segir Jeremy, en foreldrar hans skildu þegar hann var 13 ára. „Ég var eldra barnið þannig að ég varð að hjálpa mömmu meira og styðja litla bróður minn.“
Hvaða styrkleika hefurðu uppgötvað hjá þér í kjölfar skilnaðar foreldra þinna?
Hvaða eiginleika myndirðu vilja þroska í fari þínu?
a Þú gætir líka haft áhuga á greininni: „How Can I Control My Anger?“