Hoppa beint í efnið

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

Líf mitt var að fara úr böndunum

Líf mitt var að fara úr böndunum
  • Fæðingarár: 1971

  • Föðurland: Tonga

  • Forsaga: Vímuefnaneysla, fangelsi

FORTÍÐ MÍN

 Fjölskylda mín er frá eyjaklasanum Tonga í Suðvestur-Kyrrahafi. Eyjarnar eru um 170 talsins. Við lifðum fábrotnu lífi í Tonga og höfðum hvorki rafmagn né ökutæki. En við höfðum rennandi vatn og nokkur hænsni. Í skólafríum hjálpuðum við bræðurnir pabba á býli fjölskyldunnar. Við ræktuðum banana, sætar kartöflur, þerrirót og kassavarót. Uppskeran var kærkomin viðbót við þær naumu tekjur sem pabbi hafði af ýmsum störfum. Fjölskyldan bar mikla virðingu fyrir Biblíunni eins og margir aðrir eyjaskeggjar og við sóttum kirkju að staðaldri. Samt héldum við að eina leiðin til að bæta lífsgæðin væri að flytja til lands þar sem meiri velmegun ríkti.

 Þegar ég var 16 ára gerði móðurbróðir minn ráðstafanir til að við fjölskyldan gætum flust til Kaliforníu í Bandaríkjunum. Við áttum mjög erfitt með að aðlagast breyttri menningu. Þótt fjárhagur okkar hafi batnað bjuggum við í fátækrahverfi þar sem mikið var um ofbeldisglæpi og eiturlyf. Við heyrðum oft í byssuskotum á kvöldin og flestir nágrannar okkur voru hræddir við glæpagengi. Margir gengu með skotvopn sér til verndar eða til að útkljá deilur. Ég er enn með byssukúlu í bringunni eftir slíkar deilur.

 Þegar ég var í framhaldsskóla vildi ég falla í hópinn hjá hinum unglingunum. Ég fór smám saman að fara oftar í partí, drekka mig fullan, beita ofbeldi og neyta ólöglegra vímuefna. Með tímanum ánetjaðist ég kókaíni. Ég fór að stela til að geta keypt eiturlyf. Þótt fjölskylda mín væri kirkjurækin fékk ég aldrei leiðbeiningar sem hjálpuðu mér að standast hópþrýsting og forðast að gera rangt. Ég var oft handtekinn fyrir ofbeldi. Líf mitt var að fara úr böndunum. Og ég endaði að lokum í fangelsi.

BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU

 Dag einn árið 1997 þegar ég var í fangelsi tók annar fangi eftir því að ég hélt á biblíu. Þetta var á jólunum sem eru mjög heilög í augum flestra Tongverja. Hann spurði hvort ég vissi hvað Biblían segir um fæðingu Krists, en ég hafði ekki hugmynd um það. Hann sýndi mér frásögu Biblíunnar um fæðingu Jesú og ég tók eftir að margt af því sem tilheyrir helgihaldi jólanna var alls ekki nefnt. (Matteus 2:1–12; Lúkas 2:5–14) Ég var alveg steinhissa og velti fyrir mér hvað fleira væri að finna í Biblíunni. Þessi maður hafði sótt vikulegar samkomur sem Vottar Jehóva héldu í fangelsinu og ég ákvað að fara með honum. Það var verið að fjalla um Opinberunarbókina. Þótt ég hafi lítið skilið af því sem sagt var gerði ég mér grein fyrir að allt sem þeir kenndu var úr Biblíunni.

 Þegar vottarnir buðu mér biblíunámskeið þáði ég það með þökkum. Ég heyrði í fyrsta skipti loforð Biblíunnar um að jörðin verði að paradís. (Jesaja 35:5–8) Ég gerði mér ljóst að ég þurfti að gera miklar breytingar á lífi mínu til að þóknast Guði. Ég vissi að í paradís myndi Jehóva Guð ekki umbera þá slæmu ávana sem ég hafði tamið mér. (1. Korintubréf 6:9, 10) Ég ákvað því að ná stjórn á skapinu, hætta að reykja og snúa baki við ofdrykkju og eiturlyfjaneyslu.

 Árið 1999, áður en ég lauk afplánun minni, létu yfirvöld færa mig í sérstakar búðir fyrir innflytjendur. Ég hafði ekkert samband við vottana í rúmt ár. En ég var staðráðinn í að halda áfram að taka breytingum. Árið 2000 felldu yfirvöld úr gildi bandarískt landvistarleyfi mitt og sendu mig til baka til Tonga.

 Þegar ég kom til Tonga hafði ég strax uppi á vottum Jehóva og fór að kynna mér Biblíuna á ný. Ég var hrifinn af því sem ég lærði og ánægður að vottarnir á eyjunni notuðu Biblíuna til að rökstyðja allt sem þeir kenndu, alveg eins og vottarnir í Bandaríkjunum.

 Faðir minn var vel þekktur í samfélaginu því að hann gegndi ábyrgðarstöðu í kirkjunni. Þess vegna var fjölskylda mín í fyrstu hissa og ósátt við samband mitt við votta Jehóva. En seinna gladdi það foreldra mína að meginreglur Biblíunnar hjálpuðu mér að gera breytingar á lífi mínu.

Ég varði mörgum tímum á viku í að drekka kava eins og margir karlmenn á Tonga gera.

 Ein erfiðasta breytingin fyrir mig tengdist drykk sem margir misnota í heimalandi mínu. Margir karlmenn í Tonga verja mörgum tímum á viku í að drekka kava, róandi drykk sem er bruggaður úr rótum piparplöntunnar. Nú þegar ég var kominn til heimalandsins fór ég að venja komur mínar í kava-klúbb svo til á hverju kvöldi til að drekka kava þar til ég komst í vímu. Hluti af vandanum stafaði af því að félagar mínir báru litla virðingu fyrir meginreglum Biblíunnar. Seinna var mér bent á að þessi ávani væri lítilsvirðing við Guð. Ég gerði breytingar til að fá blessun Guðs og velþóknun.

 Ég fór að sækja allar samkomur Votta Jehóva. Félagsskapurinn við aðra sem reyna að þóknast Guði hjálpaði mér að standast freistingar. Ég lét skírast árið 2002 sem vottur Jehóva.

ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS

 Þolinmæði Guðs hefur verið mér til góðs en henni er lýst í Biblíunni: „Jehóva er ... þolinmóður við ykkur því að hann vill ekki að neinn farist heldur að allir fái tækifæri til að iðrast.“ (2. Pétursbréf 3:9) Hann hefði getað bundið endi á þetta spillta heimskerfi fyrir löngu, en hefur leyft því að standa nógu lengi til að fólk eins og ég geti eignast vináttusamband við sig. Ég vona að hann geti gert mér kleift að hjálpa öðrum að gera það líka.

 Með hjálp Jehóva kom ég í veg fyrir að líf mitt færi úr böndunum. Ég stel ekki lengur frá öðrum til að fjármagna banvæna fíkn. Nú reyni ég að hjálpa öðrum að eignast vináttusamband við Jehóva. Þegar ég fór að hafa félagsskap við votta Jehóva kynntist ég Teu, ástkærri eiginkonu minni. Við eigum ungan son og erum mjög hamingjusöm. Saman segjum við öðrum frá framtíðarvoninni í Biblíunni, eilífu lífi í friðsamri paradís.