Hoppa beint í efnið

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

„Ég skammast mín ekki lengur fyrir sjálfan mig“

„Ég skammast mín ekki lengur fyrir sjálfan mig“
  • Fæðingarár: 1963

  • Föðurland: Mexíkó

  • Forsaga: Götustrákur með minnimáttarkennd

FORTÍÐ MÍN

 Ég fæddist í Ciudad Obregón í norðurhluta Mexíkó og var fimmti í röð níu barna. Við bjuggum í útjaðri borgarinnar og áttum lítið býli sem pabbi sá um. Þetta var notalegur staður og fjölskylda okkar var sameinuð og hamingusöm. En því miður gerðist það þegar ég var bara fimm ára gamall að fellibylur lagði býlið okkar í eyði og við neyddumst til að flytja til annarrar borgar.

 Pabba fór að vegna vel fjárhagslega. En jafnframt varð hann alkahólisti. Þetta hafði áhrif á hjónaband hans og á okkur börnin. Við fórum að reykja sígarettur sem við stálum af pabba. Ég var bara sex ára gamall þegar ég varð fullur í fyrsta skiptið. Skömmu síðar skildu foreldar mínir og ég sökk dýpra í lesti mína.

 Mamma tók okkur með sér þegar hún fór að búa með öðrum manni. Hann lét hana ekki fá peninga og við gátum ekki lifað á tekjum hennar. Þannig að við systkinin unnum alls konar störf en við áttum erfitt með að ná endum saman. Ég burstaði skó og seldi brauð, dagblöð, tyggigúmmí og fleira. Ég ráfaði líka um borgina í leit að mat í öskutunnum hjá ríka fólkinu.

 Þegar ég var tíu ára gamall bauð maður mér að vinna með sér á öskuhaugum borgarinnar. Ég þáði boðið, hætti í skóla og fór að heiman. Hann borgaði mér minna en dollara á dag og gaf mér mat sem féll til á öskuhaugunum. Ég bjó í kofa sem ég hafið byggt úr úrgangsefni. Fólkið sem ég umgekkst notaði gróft málfar og lifði siðlausu lífi. Margir voru eiturlyfjafíklar og alkóhólistar. Þetta var versti tími lífs míns, ég grét á hverju kvöldi og skalf af ótta. Ég skammaðist mín mjög mikið fyrir fátækt mína og menntunarleysi. Ég bjó á ruslahaugunum í um það bil þrjú ár, þangað til að ég flutti til annars héraðs í Mexíkó. Þar vann ég á ökrum úti og tíndi blóm og bómull, safnaði sykurreyr og tók upp kartöflur.

Ég bjó á ruslahaugum eins og þessum í þrjú ár.

 Fjórum árum síðar flutti ég aftur til Ciudat Obregón. Ein af frænkum mínum sem stundaði heilun bauð mér herbergi á heimili sínu. Ég byrjaði að fá martraðir og varð svo þunglyndur að ég fór að hugleiða sjálfsvíg. Kvöld eitt bað ég til Guðs: „Drottinn, ef þú ert til vil ég kynnast þér og ég mun þjóna þér að eilífu. Ef til er sönn trú þá vil ég kynnast henni.“

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU

 Ég hafði alltaf hneigst til andlegra mála. Meira að segja á barnsaldri fór ég í kirkjur mismunandi trúfélaga, en ég varð fyrir vonbrigðum með þær allar. Engin þeirra sagði mikið um Biblíuna né mætti andlegri þörf minni. Sumar lögðu ofuráherslu á peninga meðan siðleysi var stundað meðal sóknarbarna annarra.

 Þegar ég var 19 ára sagði einn af mágum mínum mér að vottar Jehóva hefðu sýnt honum hvað Biblían sagði um notkun trúarlíkneskja. Hann las fyrir mig 2. Mósebók 20:4, 5. Þar segir að við eigum ekki að gera okkur úthöggvið líkneski. Vers 5 segir: „Þú skalt ekki falla fram fyrir þeim né láta tælast til að þjóna þeim því að ég, Jehóva Guð þinn, er Guð sem krefst óskiptrar hollustu.“ Síðan spurði mágur minn: „Ef Guð notar líkneski til að framkvæma kraftaverk eða ef hann vill að við notum þau við tilbeiðslu okkar, hvers vegna skyldi hann þá banna notkun þeirra?“ Þetta fékk mig til að hugsa. Eftir þetta ræddum við oft um biblíuspurningar. Ég naut þessara samtala svo mikið að tíminn virtist fljúga.

 Síðar fór hann með mig á samkomu hjá Vottum Jehóva. Ég var mjög hrifinn af því sem ég sá og heyrði þar. Jafnvel ungt fólk tók þátt í dagskránni og talaði af öryggi frá sviðinu. Ég hugsaði með mér: „Hvílík menntun sem fólk fær hér.“ Vottarnir tóku vel á móti mér þrátt fyrir síða hárið og ósnyrtilegt útlit mitt. Ein fjölskylda bauð mér meira að segja að borða með þeim eftir samkomuna.

 Þegar ég fór að kynna mér Biblíuna með vottum Jehóva lærði ég að Jehóva er kærleiksríkur faðir sem er annt um okkur án tillits til efnahags, þjóðfélagsstöðu, kynþáttar eða menntunar. Hann mismunar ekki fólki. (Postulasagan 10:34, 35) Loksins var andlegum þörfum mínum fullnægt. Tómleikinn í lífi mínu var að hverfa.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS

 Allt líf mitt fór að snúast til betri vegar. Ég hætti að reykja, misnota áfengi og nota sóðalegt orðbragð. Gremjan sem ég hafði fundið fyrir allt frá barnsaldri fór að láta undan og líka martraðirnar hræðilegu. Ég sigraðist líka á djúpstæðri minnimáttarkennd minni sem ég tengdi við erfiða barnæsku og takmarkaða skólagöngu.

 Ég á yndislega eiginkonu sem elskar Jehóva og gefur mér mikinn stuðning. Núna þjóna ég sem farandhirðir hjá Vottum Jehóva og heimsæki söfnuði til að uppörva og kenna andlegri fjölskyldu bræðra minna og systra. Ég skammast mín ekki lengur fyrir sjálfan mig, þökk sé Biblíunni sem býr yfir krafti til að lækna og menntuninni sem Guð sér okkur fyrir.

Við hjónin njótum þess að hjálpa öðrum, eins og mér var hjálpað.