Bænum blindrar konu er svarað
Yanmei, sem er vottur í Asíu, bauðst til að hjálpa blindri konu að fara yfir götu. a Mingjie svaraði: „Þakka þér fyrir og Guð blessi þig.“ Yanmei spurði Mingjie hvort hún vildi að þær hittust til að ræða saman um Biblíuna. Mingjie viðurkenndi síðar að hún hafði beðið Guð á hverjum degi að leiða sig til síns sanna safnaðar. Hvers vegna hafði hún verið að biðja slíkra bæna?
Mingjie skýrði frá því að árið 2008 hafi hún þegið boð frá blindum vini um að sækja kirkju fyrir fatalaða. Eftir athöfnina spurði Mingjie prestinn hvaða bók hann vitnaði í. Hann sagði að það væri Biblían, sannleiksorð Guðs. Mingjie fann til sterkrar löngunar til að lesa hana. Hún útvegaði sér biblíu á kínversku blindraletri og las öll 32 bindin á um það bil sex mánuðum. Þegar leið á lesturinn komst Mingjie að þeirri niðurstöðu að þrenningarkenningin sem var kennd í kirkjunni væri röng og að Guð héti Jehóva.
Þar kom að Mingjie varð niðurdregin vegna breytni fólksins sem sótti kirkjuna. Hún áttaði sig á að það lifði ekki í samræmi við það sem hún las í Biblíunni. Hinum blindu voru til dæmis gefnar matarleifar meðan allir aðrir fengu ferskan mat. Það særði Mingjie að sjá slíkt óréttlæti þannig að hún fór að svipast um eftir öðrum kirkjum í nágrenninu. Þetta var ástæðan fyrir því að Mingjie bað Guð um hjálp til að finna hinn sannkristna söfnuð.
Góðvild Yanmei snerti Mingjie og þess vegna samþykkti hún boðið um biblíunámskeið. Síðar sótti Mingjie sína fyrstu samkomu hjá Vottum Jehóva. Hún segir svo frá: „Ég mun aldrei gleyma fyrstu samkomunni minni. Allir bræðurnir og systurnar heilsuðu mér hlýlega. Ég var snortin. Þó að ég sé blind fann ég fyrir þeim óhlutdræga kærleika sem ríkti þarna.“
Mingjie tók góðum framförum og fór að sækja samkomur reglulega. Hún naut þess sérstaklega að syngja ríkissöngvana, en gallinn var sá að söngbókin var ekki til á blindraletrinu sem hún las. Með hjálp safnaðarins útbjó Mingjie sína eign söngbók. Það tók hana 22 klukkustundir að færa alla söngvana á blindraletur, en þeir eru 151 talsins. Í apríl 2018 byrjaði hún að taka þátt í boðuninni meðal almennings og varði til þess um 30 klukkustundum á mánuði.
Yanmei útbjó hljóðupptöku af skírnarspurningunum og biblíuversunum í bókinni Söfnuður skipulagður til að gera vilja Jehóva svo að Mingjie gæti undirbúið sig fyrir skírn. Hún lét skírast í júlí 2018. Hún segir: „Kærleikurinn sem bræður og systur sýndu á mótinu snerti mig djúpt. Ég táraðist vegna þess að loksins tilheyrði ég hinum sanna söfnuði Guðs.“ (Jóhannes 13:34, 35) Mingjie er staðráðin í að sýna sama kærleikann og henni var sýndur og boðar núna trúna í fullu starfi.
a Nöfnum hefur verið breytt.