Þau voru með fjólubláan þríhyrning á búningum sínum
Maud býr í Frakklandi og vinnur í skóla þar sem hún aðstoðar fötluð börn í kennslustundum. Nýlega voru nemendur í einum bekk að læra um Helförina og fangabúðir nasista. Fangarnir þurftu að hafa merki í ákveðnum lit saumað á búning sinn. Litur og lögun merkisins gaf til kynna hvers vegna þeir voru fangar.
Þegar kennarinn talaði um fjólubláu þríhyrningana sem sumir fanganna voru með sagði hann: „Ég held að það hafi verið vegna þess að þeir voru samkynhneigðir.“ Eftir kennslustundina talaði Maud við kennarann og útskýrði að nasistarnir notuðu fjólubláan þríhyrning til að auðkenna votta Jehóva. a Hún bauðst til að útvega honum heimildir um málið. Kennarinn þáði það og bað Maud um að kynna málið fyrir nemendunum.
Þegar annar bekkur var að ræða um sama efni notaði annar kennari skýringarmynd sem sýndi öll merkin sem fangarnir þurftu að bera. Skýringarmyndin sýndi réttilega að fjólublái þríhyrningurinn væri merki votta Jehóva. Eftir kennslustundina bauð Maud kennaranum að gefa honum upplýsingar um efnið. Kennarinn þáði það og gerði ráðstafanir til að Maud gæti talað við nemendurna.
Maud undirbjó 15 mínútna kynningu fyrir fyrri bekkinn en þegar kom að kennslustundinni sagði kennarinn við hana: „Þú hefur heilan klukkutíma.“ Maud byrjaði á því að sýna heimildarmyndband um það hvernig nasistar ofsóttu votta Jehóva. Þegar það kom fram í myndbandinu að nasistar hefðu tekið 800 börn votta frá foreldrum sínum stoppaði Maud myndbandið og las frásögur þriggja þessara barna. Eftir myndbandið endaði Maud á því að lesa kveðjubréf frá 1940 sem Gerhard Steinacher, 19 ára vottur frá Austurríki, skrifaði foreldrum sínum aðeins nokkrum klukkustundum áður en nasistar tóku hann af lífi. b
Maud var með svipaða kynningu fyrir seinni bekkinn. Vegna hugrekkis Maud ganga nú báðir kennararnir úr skugga um að þeir nefni votta Jehóva þegar þeir tala um fórnalömb fangabúða nasista.
a Í síðari heimsstyrjöldinni voru vottar Jehóva í Þýskalandi, einnig þekktir sem Bibelforscher (Biblíunemendur), fangelsaðir fyrir að neita að styðja nasista.
b Gerhard Steinacher var dæmdur til dauða fyrir að neita að ganga í þýska herinn. Í kveðjubréfi sínu skrifaði hann: „Ég er enn barn. Ég get aðeins staðist ef Drottinn veitir mér styrk og það bið ég um.“ Morguninn eftir var Gerhard líflátinn. Á legsteini hans stendur: „Hann dó Guði til heiðurs.“